Mánudagur 24. júní, 2024
10.1 C
Reykjavik

Tími til aðgerða er að renna út

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða við draga úr hnattrænni hlýnun geta afleyðingar orðið alvarlegar samkvæmt skýrslu sem birtist á vegum Loftlagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.

Osaka, Alexandría, Sjanghæ, Rio de Janeiro og Miami munu að fullu eða stórum hluta hverfa undir sæ. Kóralrifin deyja endanlega út. Svæsnar hitabylgjur og langvarandi þurrkar verða algengari sem og fellibylir sem verða bæði öflugri og bera með sér meiri úrkomu. Sjávarmál hækkar og Norðurskautið verður íslaust yfir sumartímann. Milljónir manna verða á flótta og fátækt stóreykst. Höfin halda áfram að súrna með tilheyrandi aflabresti. Þetta og meira til eru afleiðingarnar ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða við draga úr hnattrænni hlýnun, samkvæmt skýrslu sem birtist á vegum Loftlagsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Fram kemur í skýrslunni að þrátt fyrir kolsvart útlit sé enn tími til að bregðast við. Draga þarf úr kolefnaútblæstri um 45 prósent fyrir árið 2030 í stað 20 prósenta líkt og Parísarsáttmálinn segir til um. Það sé hægt með samhentu átaki ríkisstjórna, fyrirtækja og einstaklinga. Kostnaðurinn við aðgerðirnar sé verulegur en þó minni ef ekkert verður að gert.

Um hvað fjallar skýrslan?

Skýrslan er ein sú umfangsmesta sem gerð hefur verið um málefnið og er henni ætlað að verða leiðarvísir um loftlagsaðgerðir í náinni framtíð. Hún var tvö og hálft ár í smíðum og dregur saman niðurstöður yfir sex þúsund vísindalegra rannsókna. Í skýrslunni er dregin upp sviðsmynd af því hver áhrifin verða af hnattrænni hlýnun upp á 1,5 gráður (miðað við hitastig fyrir iðnbyltingu) og þau borin saman við áhrifin af 2 gráðu hlýnun eins og markmið Parísarsáttmálans kveða á um. Vert er að taka fram að ríki heims eru langt frá því að uppfylla ákvæði Parísarsáttmálans og að óbreyttu muni hitastigið hækka um 3 gráður áður en öldin er úti. Það myndi gjörbreyta núverandi heimsmynd.

Hver eru viðbrögðin?

Það er samhljóma niðurstaða vísindamanna að grípa þarf til mun róttækari aðgerða en Parísarsáttmálinn kveður á um ef ekki á illa að fara. Skýrslan er afdráttarlaus hvað það varðar. Hins vegar hefur verið gagnrýnt að orðalag samantektar skýrslunnar sem send var þjóðarleiðtogum hafi verið mildað vegna þrýstings frá Bandaríkjunum, Sádi-Arabíu og fleiri olíuframleiðsluríkjum. Skýrslan verður lögð til grundvallar í komandi loftlagsviðræðum í Katowice í Póllandi í desember en erfitt er að sjá að það takist að sannfæra stjórnmálamenn um að grípa til róttækari aðgerða en Parísarsáttmálinn kveður á um. Þannig hafa stjórnvöld í Ástralíu útilokað að hætta kolaframleiðslu líkt og lagt er til í skýrslunni.

Hvað með Ísland?

- Auglýsing -

Ísland er ekki undanskilið áhrifum hnattrænnar hlýnunar. Hitastig hlýnar og jöklar halda áfram að hopa og gangi sviðsmyndir um loftlagsbreytingar eftir gæti Langjökull tapað 85% af rúmmáli sínu. Samhliða því gæti tíðni eldgosa aukist. Súrnun í hafi mælist meiri umhverfis Ísland en annars staðar og haldi sú þróun áfram getur það haft veruleg áhrif á fiskistofna í efnahagslögsögunni. Vegna aukinna hlýinda er viðbúið að nýjar dýrategundir nemi land á sama tíma og aðrar hverfa.

Hvað getur þú gert?

Breytt neysluhegðun er lykilþáttur í baráttunni gegn hnattrænni hlýnun. Til að mynda með því að ganga eða hjóla þegar það er kostur, en að öðrum kosti notast við almenningssamgöngur. Ef nauðsynlegt þykir að nota bíl að velja þá rafmagnsbíl. Minni neysla skilar sér í minni úrgangi sem síðan er best að endurvinna eða endurnýta. Loks er hægt að ganga í þrýstihópa sem beita sér fyrir umbótum og kjósa þá flokka sem eru líklegir til að ráðast í þær.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -