Fimmtudagur 12. september, 2024
3.8 C
Reykjavik

Baráttan gegn hlýnun jarðar – hvað getur þú gert?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í nýlegri skýrslu loftlagsnefndar Sameinuðu þjóðanna er varað við því að tíminn til að bregðast við hlýnun jarðar sé á þrotum og að byltingarkenndra breytinga sé þörf ef hlýnunin eigi ekki endanlega að fara úr böndunum. Bent er á það séu ekki bara ríkisstjórnir sem verði að grípa í taumana, heldur þurfa allir að leggjast á plóg. Hinn venjulegi Íslendingur er þar ekki undanskilinn. Internetið er uppfullt af visku um hvernig hinn venjulegi maður getur með tiltölulega einföldum og öfgalausum hætti lagt sitt af mörkum í baráttunni og jafnvel sparað peninga um leið.

Matarsóun er hluti af kolefnisfótspori heimila.

Matvæli
Neysla matvæla hefur margháttuð áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda. Framleiðslu á kjöti og mjólkurafurðum fylgir almennt meiri orkunotkun og losun gróðurhúsalofttegunda en ræktun á grænmeti, til að mynda. Þetta á sérstaklega við um framleiðslu á rauðu kjöti en framleiðsla á því er talið valda nær 20% af losun gróðurhúsalofttegunda. Þannig að meira grænt, minna rautt. Flutningar á matvælum standa oft fyrir stórum hluta losunar og á þetta sérstaklega við um innflutt matvæli sem koma ýmist með skipum eða flugvélum til landsins. Kauptu þess vegna frekar innlendar vörur og stilltu kaupum á innfluttum vörum í hóf. Einnig er um að gera að spara bílferðir og fara sjaldnar í búðina en kaupa þá lengra fram í tímann.
Matarsóun er sömuleiðis hluti af kolefnisfótspori heimila og töluverður hluti af losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi kemur frá urðun á lífrænum úrgangi, meðal annars matvælum. Hvert heimili getur sömuleiðis sparað tugi þúsunda á ári hverju með því að draga markvisst úr matarsóun.

Forðastu plast og sér í lagi einnota plastumbúðir.

Neyslan
Hafðu í huga að flestallt sem þú kaupir úti í búð hefur áhrif á jörðina. Þetta á meðal annars við um skó, fatnað og raftæki. Bæði tekur framleiðslan sinn toll af jörðinni sem og flutningar heimshorna á milli. Hægt er að spyrja sig hvort þú þurfir virkilega á þessum hlutum að halda og/eða hvort þú getir endurunnið það sem þú átt fyrir eða keypt notað. Kannski á nágranni þinn eða vinur eitthvað á lager. Ef þú þarft að kaupa hlutinn, spáðu í gæðin og vertu viss um að varan endist og athugaðu hvort varan sé ekki örugglega umhverfisvottuð. Forðastu plast og sér í lagi einnota plastumbúðir. Ekki bara eru höfin að fyllast af plasti heldur eru meginuppistaða framleiðslu þess olía og jarðgas.

Sparperur nota 80% minna rafmagn og eru endingarmeiri.

Heimilið
Blessunarlega eru íslensk heimili umhverfisvæn í alþjóðlegum samanburði þar sem þau hafa aðgang að hreinu vatni, jarðvarmahitaveitu og endurnýjanlegum auðlindum til rafmagnsframleiðslu. En það þýðir ekki að það eigi að spreða, það er gott fyrir veskið og náttúruna að spara orku. Ef öll heimili bættu orkunýtni sína mætti spara orku sem samsvarar framleiðslu 40MW vatnsaflsvirkjunar á ári, sem er um það bil jafnmikið og afl Ljósafoss- og Steingrímsstöðvar í Soginu til samans. Þess vegna er góð regla að slökkva alltaf á raftækjum og ljósum í þeim herbergjum sem ekki er verið að nota. Sparperur nota 80% minna rafmagn og eru endingarmeiri. Svo eru ákveðin rafmagnstæki orkuþjófar, til dæmis þurrkarinn og þess vegna er oft betra að hengja þvottinn til þerris. Ekki er verra ef efnin sem notuð eru umhverfisvottuð eða, enn betra, heimatilbúin úr náttúrulegum efnum. Það sama gildir um snyrtivörur.

Samgöngur
Það segir sig sjálft að hjólreiðar og almenningssamgöngur draga mjög losun gróðurhúsalofttegunda. Því færri bílar á ferðinni því minni losun. Vitaskuld geta ekki allir án bílsins verið en þar er einnig hægt að velja vistvænni kosti, til að mynda rafmagns- og metanbíla. Þess utan er hægt að keyra minna, til að mynda með betri skipulagningu, sleppa ónauðsynlegum ferðum og/eða nota hjól eða tvo jafnfljóta í skreppitúra.
Einnig er hægt að draga úr eldsneytisnotkun bíla með öðrum einföldum ráðum. Lágur loftþrýstingur í dekkjum eykur til að mynda eldsneytisnotkun sem og öll viðbótarþyngd. Til að mynda getur farangursgrind á toppnum, sem ekki er í notkun, aukið eldsneytiseyðslu um allt að 20%. Notaðu loftkælinguna sparlega og ekki nagladekk nema brýna nauðsyn beri til.
Flugsamgöngur eiga sífellt meiri þátt í losun gróðurhúsalofttegunda og sem dæmi má nefna að ein flugferð til og frá Kaupmannahöfn losar um 360 kíló af koltvísýringi á hvern farþega. Það jafngildir 2.600 kílómetra akstri meðal fólksbíls. Farðu færri og styttri flugferðir og notaðu aðra samgöngumáta, svo sem lestarferðir, þegar þess er kostur.

Best er að sniðganga einnota plast eins og mögulegt er og það sem eftir stendur skal fara í grænu tunnuna.

Flokkun og endurvinnsla
Íslendingar eru orðnir meðvitaðri um mikilvægi þess að flokka úrgang og endurvinna en betur má ef duga skal. Best er að sniðganga einnota plast eins og mögulegt er og það sem eftir stendur skal fara í grænu tunnuna. Ekki gleyma að taka fjölnota poka með í búðina. Allt sem endar í ruslatunnunni okkar endar á einn eða annan hátt í náttúrunni, ýmist er úrgangurinn brenndur eða brotnar niður á löngum tíma á urðunarstöðum. Blessunarlega er hægt að flokka nánast allt sem fellur til á heimilinu og vanþekking er engin afsökun lengur því á vefnum flokkid.sorpa.is er ekki bara hægt að finna ítarlegar leiðbeiningar um flokkun heldur geturðu líka séð hvað verður um úrganginn eftir að honum er skilað. Mikið af húsgögnum og fatnaði má endurnýta með því að skila þeim í nytjagáma eða selja á Facebook.

Í takti við gjöfina skal þessu pakkað inn í endurvinnanlegan pappír eða dagblöð.

Jól og áramót
Hátíðirnar fram undan eru akkúrat tíminn til að sýna hversu umhverfislega meðvitaður og ónæmur fyrir neysluhyggjunni þú ert. Í stað þess að gefa enn eitt dótið eða rafmagnstækið getur þú gefið gjöf sem mengar lítið sem ekkert. Þetta getur verið eitthvað heimagert eða upplifun eins og miði í leikhús eða námskeið. Þeir allra hörðustu gefa til góðgerðamála í nafni viðtakandans. Í takti við gjöfina skal þessu pakkað inn í endurvinnanlegan pappír eða dagblöð. Eða pappírinn sem þú tókst utan af jólagjöfunum í fyrra. Umhverfisvænast er að kaupa tré sem ræktað hefur verið í íslenskum skógum.
Vart þarf að taka fram að flugeldarnir sem skotið er upp um áramótin innihalda fjölmörg efni sem skaðleg eru náttúrunni og heilsu mannsins. Þess vegna er best að kaupa annaðhvort minna eða ekki neitt af flugeldum og þá eingöngu flugelda sem uppfylla kröfur um efnainnihald. Settu svo áramótaskrautið ofan í poka og notaðu aftur á næsta ári.

- Auglýsing -

Vertu meðvitaður
Á vefnum orkusetur.is er að finna fjölmörg góð ráð um möguleika til orkusparnaðar. Þar er einnig að finna fjölda reiknivéla þar sem meðal annars er hægt að reikna út eldsneytis- og umhverfiskostnað við akstur, rekstrarkostnað bifreiða, hversu mikið hægt er að spara með því að hjóla í stað þess að aka og hversu mikið af íslenskum skógi þarf til að binda það magn koltvísýrings sem bifreið blæs út á ári. Svo fátt eitt sé nefnt. Á vefnum kolvidur.is er sömuleiðis að finna reiknivél sem reiknar út þitt eigið kolefnisfótspor og er þá tekið tillit bæði til aksturs og flugferða.

*Heimildir:
Vefur Umhverfisstofnunar
Orkusetur.is
Matarsoun.is

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -