Ilmur María Arnarsdóttir er ósátt við hversu erfitt er fyrir konur að fá brautargengi innan Verslunarskóla Íslands. Hún var hársbreidd með að ná í úrslitaviðureign Morfís með ræðuliði skólans en rétt fyrir úrslitakvöldið var henni skipt úr liðinu fyrir strák.
Eftir að Ilmi var skipt út var liðið eingöngu skipað strákum og fjórir þjálfarar liðsins eru líka allt strákar. Hún er alls ekki sátt og hefur þetta um ákvörðun þjálfaranna að henda sér út að segja:
„Typpafýla sem er svo þykk að maður getur þreifað á henni.“
Ilmur segir atburðarásina til marks um að karlaveldið innan Verslunarskólans sé langt frá því að vera liðið undir lok. Hún segist hafa rekið sig á það frá upphafi skólagöngu sinnar að það er ekki tekið út með sældinni að komast á jafningjagrundvöll við strákana.
„Þú gætir spurt hvaða stelpu sem er sem hefur verið í félagslífinu og hún mun segja þér það sama, að þetta er fokking yfirgnæfandi alltaf. Ég man bara þegar ég ætlaði að komast í stjórnarnefnd í fyrsta skipti á þriðja ári og var í samkeppni við aðrar stelpur í kosningum, að ég ákvað bara að ég þyrfti bara að vera með dólg. Ég þyrfti bara að taka sama big dick energy og þeir nema bara fimm sinnum meira. Við þurfum að láta okkur hafa svo mikið af shitti og leyfa körlum að vaða yfir okkur til að geta tekið þátt, og jafnvel sleikja þá upp,“ segir Ilmur í samtali við Vísi.