Mánudagur 9. desember, 2024
9.8 C
Reykjavik

„Welcome to politics“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Sá sem hef­ur skorað sjálfs­mark hef­ur mest­an hvata til að bæta sig og það er sterk­ur hvati sem við höf­um núna til að bæta okk­ur.“  Það er vonandi að sá sem mælti þessi orð, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, taki þau til sín þótt vissulega sé léttvægt að nota hugtakið „sjálfsmark“ yfir það sem fram fór á Klaustursbarnum. Réttara væri að tala um fjölda sjálfsmarka, grófar tveggja fóta tæklingar út um allan völl og ítrekaðar tilraunir til að hagræða úrslitum leiksins. Hatrið og þörf­in fyr­ir að smána aðra til upp­hefja sjálfan sig voru með hreinum ólíkindum.

En ef sagan hefur kennt okkur eitthvað þá eru þetta orðin tóm hjá hinum „óskeikula leiðtoga“. Hans viðhorf til stjórnmála kristallast nefnilega í þeim orðum sem hann notaði þegar hann skólaði nýliða sinn til á barnum. „Welcome to politics, Bergþór Ólason.“ Burtséð frá þeim rætnu og fordómafullu samræðum sem þarna fóru fram þá má ekki horfa fram hjá því hvert tilefni fundarins var. Það var að narra þá Ólaf Ísleifsson og Karl Gauta Hjaltason yfir í Miðflokkinn og þannig auka eigin völd á þinginu og um leið fjárframlög frá ríkinu. Til þess skjölluðu þeir þingmennina fram úr hófi og smættuðu konuna sem er ástæða þess að þeir eru yfirhöfuð á þingi. Sem sagt hrein og klár valdapólitík. Inn á milli mátti heyra glefsur af því hvernig þeir stunda þessa valdapólitík sína, svo sem með skipun sendiherra.

Svo eru það viðbrögð „hins óskeikula“. Fyrst var hrópað á samsæri, því næst var Gunnar Bragi Sveinsson sendur út af örkinni til að „fronta“ almenning og þá sem höfðu orðið fyrir barðinu á dónatalinu og loks sameiginleg yfirlýsing þar sem lýst var iðrun en í engu beðist afsökunar. En um leið var tækifærið nýtt til að smætta alla aðra sem á Alþingi sitja með því að segja að svona töluðu allir. Það er lítilmannlegt. Þó ekki eins lítilmannlegt og að hringja í Freyju Haraldsdóttur og reyna að telja henni trú um að þeir félagar hafi bara alls ekki gert grín að fötlun hennar, að uppnefnið Freyja Eyja hafi verið sett fram af góðum hug og að selshljóðin sem þeir ráku upp hafi verið frá stól. Og síðar reiðhjóli að bremsa. Kannski æxlaðist símtalið á þennan veg vegna þess að Freyja er kona og „spilar á karlmenn eins og kvenfólk kann“.

En þessi viðbrögð „hins óskeikula“ – það er algjör skortur á auðmýkt, iðrun og aumar tilraunir til að draga aðra með sér í svaðið – eru mynstur fremur en einstakt tilvik. Ef einhver skyldi hafa gleymt því þá varð Sigmundur Davíð uppvís að því að ljúga til um aflandsfélagið sitt sem upp komst í Panamaskjölunum. Þegar það gekk ekki reyndi hann að rjúfa þing án þess að láta aðra í ríkisstjórninni vita en var hent öfugum út af þáverandi forseta. Hann hrökklaðist frá en kenndi öllum öðrum um nema sjálfum sér, sá eitt risastórt alheimssamsæri. Hann skreið ofan í holu þegar borgarstjórnarframbjóðandi spilaði út rasistatrompinu og stormaði út úr húsi þegar hann hafði tapað formannskosningu í Framsóknarflokknum. Talaði um samsæri og sást varla í Alþingishúsinu lengi vel á eftir.

Hér verður ekki gerð krafa um afsagnir. Þingmennirnir þurfa sjálfir að horfast í augu við þá niðurlægingu sem þeir bökuðu sér. Þeir þurfa að mæta í vinnuna næstu þrjú árin með því fólki sem þeir rökkuðu niður í svaðið og standa skil á orðum sínum gagnvart kjósendum. Það er hins vegar mikilvægt að kjósendur viti að upptökurnar fjalla ekki bara um eitthvert tilfallandi karlagrobb á bar. Þær leiddu nefnilega í ljós fyrir hvað Miðflokkurinn, og hinn óskeikuli leiðtogi hans, stendur fyrir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -