Föstudagur 13. september, 2024
5.1 C
Reykjavik

Læknirinn sem naut þess að kvelja fólk til dauða

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þó Neill Cream hafi verið menntaður læknir hafði hann lítinn áhuga á að bjarga mannslífum. Hann aflaði fjár með því að framkvæma ólöglegar fóstureyðingar. Hann var veikur fyrir vændiskonum og margar þeirra sem hann setti sig í samband við sáu ekki framar nýjan dag. Hann notaði striknín til ódæðisverkanna og naut tilhugsunarinnar um þær kvalir sem fórnarlömb hans upplifðu fyrir dauðann.

Neill Cream fæddist í Glasgow í Skotlandi 1850, en foreldrar hans fluttu til Kanada þegar hann var ungur að árum og þau höfðu ráð á að koma honum til náms. Námsferill Creams hófst í Kanada og hann lauk síðan læknanámi í London á Englandi og í Edinborg í Skotlandi, árið 1878.

Áður en lengra er haldið er vert að minnast á Floru Brooks. Flora þessi og Cream stungu saman nefjum árið 1876, þegar Cream stundaði læknanám í Quebec í Kanada.

Flora Brooks varð barnshafandi og Cream lofaði að kvænast henni, en áður en til þess kom reyndi hann að eyða fóstrinu. Það gekk ekki sem skyldi og Flora veiktist alvarlega í kjölfarið.

Cream hugðist þá stinga af til Montreal, en faðir Floru hafði hendur í hári hans áður og neyddi hann til að kvænast Floru. Daginn eftir giftinguna hélt Cream til Englands til frekara náms í læknisfræði. Brooks-fjölskyldan sá hvorki tangur né tetur af Cream þaðan í frá.

Af Floru er það að segja að hún dó úr berklum árið 1877.

- Auglýsing -

Opnaði lækningastofu án leyfis

Árið 1876, eftir að hafa stungið af frá Kanada, útskrifaðist Neill Cream sem læknir frá virtum skóla í London og sótti, sem fyrr segir, síðan frekari menntun í skurðlækningum í læknaskóla í Edinborg árið 1878.

Cream flutti síðar til Bandaríkjanna og stundaði lækningar um stutt skeið í Des Moines í Iowa. Þaðan fór hann síðan til Ontario í Kanada. Þar hófst Cream handa á röngum enda og opnaði lækningastofu án þess að verða sér út um leyfi til þess fyrst. Hann var ákærður fyrir vikið að játaði sig sekan. Þetta varð þó ekki til þess að draga úr starfseminni hjá honum því fjöldi fólks kom til hans í von um bót sinna meina.

Svo virðist sem tími Creams í Ontario hafi verið tíðindalítill … ef frá er talinn dauði Catharine Hutchinson Gardner, barnshafandi konu sem fannst látin á kamri fyrir aftan lækningastofu Creams. Banamein hennar var of stór skammtur af klóróformi.

- Auglýsing -

Cream hafði að sögn neitað að hjálpa Catharine með fóstureyðingu, en hvatt hana til að saka þekktan kaupsýslumann um faðernið.

Cream fullyrti að Catharine hefði hótað að fremja sjálfsmorð þegar hann neitaði henni um fóstureyðingu og að hún hefði skrifað bréf þar sem hún nafngreindi barnsföðurinn. Fjölskylda Catharine vísaði fullyrðingu Creams til föðurhúsanna og í ljós kom að undirskrift og rithönd á umræddu bréfi átti ekkert skylt við rithönd Catharine. Þrátt fyrir vísbendingar um aðild Creams að dauða konunnar var ekkert aðhafst og málið var aldrei leyst.

Fóstureyðingar og fjárkúganir

Morðferill Creams hófst vestan Atlantshafsins, en hann hafði flutt til Chicago og komið á laggirnar læknastofu, ekki langt frá rauða hverfinu þar sem vændiskonurnar héldu til. Á stofu sinni bauð hann upp á fóstureyðingar, en þær voru ólögleg en arðbær starfsemi. Í apríl 1880 Cream sætti lögreglurannsókn vegna dauða konu að nafni Mary Anne Faulkner sem kom til hans í fóstureyðingu, en ekkert var gert vegna skorts á sönnunargögnum. Í desember sama ár lést önnur kona, frú Stack, eftir að hafa leitað lækninga hjá Cream. Cream reyndi þá að kúga fé út úr lyfsalanum sem hafði skrifað upp á lyfið sem frú Stack hafði fengið.

Í júlí 1881 dó maður að nafni Daniel Stott af striknín-eitrun. Cream hafði útvegað Stott striknínið og sagt það geta haft áhrif á flogaveiki sem Stott glímdi við. Aftur reyndi Cream að kúga fé út úr lyfsalanum. Í kjölfarið var Cream handtekinn ásamt eiginkonu Stotts, Juliu Abbey, sem þegar þar var komið sögu var orðin ástkona Creams. Julia Abbey, sem hafði fengið eitrið hjá Cream, ákvað að semja við ákæruvaldið og skildi Cream eftir í súpunni. Hann var dæmdur til lífstíðarfangelsis en var sleppt eftir tíu ára afplánun. Sagan segir að Cream hafi fengið náðun eftir að bróðir hans talaði máli hans og að umtalsvert fé hafi skipt um hendur í þeim samningaumleitunum.

Fé sem Cream hafði erft eftir föður sinn, sem lést 1887, gerði honum kleift að flytjast til Englands. Hann kom til Liverpool í byrjun október árið 1891 og leið hans lá til London, þar sem hann tók á leigu húsnæði við Lambeth Palace-veg, en á þeim tíma var Lambeth-hverfið undirlagt af fátækt, smáglæpum og vændi.

Aðdáun á Kobba kuta

Það er kaldhæðnislegt að Cream framdi sín verstu ódæði eftir að hafa verið sleppt úr lífstíðarfangelsi fyrir morð.

Cream leitaði fórnarlamba á sömu slóðum og Kobbi kuti eða Jack the Ripper eins og hann var nefndur í Bretlandi, en þá voru um þrjú ár liðin frá því að Jack the Ripper hafði látið að sér kveða. Lítt upplýst stræti Lambeth í Lundúnum voru kjörin til að finna fórnarlömb sem svalað gætu kvalalosta Creams, hann var því kunnugur frá námsárum sínum. Einn kunningja Creams lýsti honum sem „úrkynjuðum manni með sóðalegar þrár og starfsaðferðir“. Cream Neill hafði fylgst með ferli Kobba kuta og naut þess að ganga um á þeim slóðum þar sem Kobbi kuti hafði framið ódæði sín. Cream var einnig veikur fyrir vændiskonum og gumaði oft og tíðum af því að hafa verið með tveimur í einu, eða heimsótt þrjár á einu og sama kvöldinu. En hann var veikur fyrir ýmsu öðru og hann gaf vændiskonunum gjarna pillu eftir að hafa legið með þeim. Sagði hann að pillan myndi laga andlitsbletti. Pillan var að sjálfsögðu striknín og Cream yljaði sér við tilhugsunina um þær óhugnanlegu kvalir sem stúlkurnar upplifðu áður en þær gáfu upp öndina.

Ein sú fyrsta sem vitað er um hét Ellen Donworth, 19 ára. Hún hafði fengið bréf frá Cream, reyndar tvö, og féllst á að hitta hann 13. október, árið 1891. Hann bauð henni vín úr flösku, en eitthvað hefur verið görótt við þann drykk því Ellen varð heiftarlega veik um nóttina og andaðist að lokum. Niðurstaða krufningar sýndi striknín-eitrun.

Áður en Ellen skildi við tókst henni að lýsa manninum sem hafði gefið henni vín. Sá hefði verið tileygður með gullspangagleraugu og silkihatt á höfði. Einnig hefði maðurinn verið með viðamikið yfirvararskegg.

Undarleg bréf

Nokkrum dögum síðar, 20. október, fylgdust tvær vændiskonur, Elizabeth Masters og Elizabeth May, með Cream, út um gluggann á vistarverum sínum, þar sem hann gekk í átt til þeirra og töldu þær sig eiga viðskipti vís. En áður en hann komst alla leið fékk hann tilboð frá annarri næturdrottningu, Mathildu Clover, og fór með henni til híbýla hennar í Lambeth-stræti. Tveimur tímum síðar lést Mathilda með miklum kvölum, en þegar hún fannst nær dauða en lífi, tókst henni þó að stynja upp að maður að nafni Fred hefði gefið henni eitraðar pillur. Læknir hennar, sem einnig annaðist hana vegna áfengissýki, setti í skýrslu sína að hún hefði dáið af eðlilegum orsökum.

Neill Cream fylgdi þessum morðum sínum eftir með forvitnilegum orðsendingum. Undir fölskum nöfnum sendi hann dómsmálaráðherranum, Charles Russell lávarði, og William Broadbent, virtum taugasérfræðingi og lækni, bréf þar sem hann sakaði þá báða um morðið á Mathildu. Cream krafðist 2.500 punda af Broadbent, annars yrði hann afhjúpaður. Broadbent var með hreina samvisku og fór með bréfið til lögreglunnar, en fjárkúgarinn gerði ekki frekar vart við sig. Cream skrifaði einnig til réttarlæknisins sem hafði haft Ellen Donsworth á sinni könnu og sagðist hafa upplýsingar sem hann vildi selja fyrir 300.000 pund. Undir bréfið skrifaði hann G. O‘Brian leynilögreglumaður, en lögreglan setti bréfið í bjánamöppu sína sem geymdi ýmsar lítt trúverðug bréf og upplýsingar sem töldust bull. Hvað vakti fyrir Cream með þessum bréfaskriftum varð aldrei ljóst, en líklega vildi hann eingöngu stríða þeim sem eltust við hann.

Reynir að varpa sök á annan

Cream Neill sigldi til Kanada 1892, en sneri fljótlega aftur til Lundúna og fyrr en varði ráfaði hann um Lambeth-stræti í leit að fórnarlömbum.

Ein vændiskona, Louise Harvey, slapp með skrekkinn. Cream lét hana fá tvær pillur og sagði henni að gleypa þær í snarhasti. Louise fylltist grunsemdum og þóttist gleypa pillurnar, en kastaði þeim í raun í Tempsána.

Í apríl sængaði hann hjá tveimur vændiskonum, Emmu Shrivell og Alice March, í einu. Um klukkan tvö um nóttina yfirgaf hann stúlkurnar, en hafði áður gefið þeim þrjár pillur hvorri. Dauðdagi stúlknanna um nóttina var hroðalega kvalafullur.

Meðan á rannsókninni stóð fór hrollur um borgarbúa, sem voru þess fullvissir að Jack the Ripper hefði ekki sagt sitt síðasta orð. En í ljós kom að banamein stúlknanna var striknín-eitrun. Venju samkvæmt gat Cream ómögulega á sér setið. Hann skrifaði bréf til læknis að nafni Harper og sakaði son hans, sem var læknanemi, um verknaðinn. Krafðist Cream 1.500 sterlingspunda fyrir að halda vitneskjunni fyrir sig. Harper fór með bréfið til lögreglunnar. Lögreglan hafði undir höndum bréf frá Cream sjálfum, sem átti að hafa verið sent til Emmu og Alice, þar sem þær voru varaðar við Harper lækni og sagt að Harper hefði myrt Mathildu Clover og Lou Harvey, sem Cream greinilega hélt að hefði látist eftir að hafa gleypt pillurnar sem hann gaf henni. Rithöndin var sú sama og Cream var ákærður fyrir tilraun til fjárkúgunar.

Cream handtekinn

Í millitíðinni hafði lík Mathildu Clover verið grafið upp, og þá komu í ljós mistök læknisins. Mathilda hafði dáið vegna striknín-eitrunar. Cream hafði orðið ber að alvarlegum mistökum; aðeins morðingi Mathildu hefði getað vitað að hún hefði verið myrt. Cream hafði sakað annan um ódæðið í bréfi sem lögreglan hafði undir höndum, og þannig varpað sök á sjálfan sig. Elizabeth Masters og nafna hennar May voru báðar reiðubúnar að bera vitni um að hafa séð Neill Cream í félagsskap Mathildu skömmu fyrir dauða hennar. Lögreglan taldi sig vera með pottþétt mál í höndunum, en einni spurningu var þó ósvarað: Hver var þessi Lou Harvey? Cream var handtekinn 3. júní 1892 og ákærður fyrir morð. Seinna kom í ljós að Lou Harvey var sennilega Louise Harvey, sú eina sem hafði sloppið lifandi frá Cream.

Neill Cream gat ekki viðhaft miklar varnir vegna þeirra saka sem á hann voru bornar. Þær voru studdar af framburði Elizabeth Masters, Elizabeth May og Louise Harvey. Apótekari staðfesti að Cream hefði keypt af honum grænmeti sem striknín var unnið úr og til að fullkomna allt saman fann lögreglan flöskur sem innihéldu striknín í híbýlum Creams. Það tók kviðdóminn aðeins tólf mínútur að komast að niðurstöðu og þann 21. október, 1892, var Cream sakfelldur fyrir að myrða Mathildu Clover, Ellen Donworth, Alice Marsh og Emmu Shrivell auk tilraunar til að myrða Louise Harvey og tilrauna til fjárkúgunar. Þar sem Cream Neill stóð við gálgann þann 15. nóvember, 1892, gerði hann, að sögn böðulsins, undarlega játningu. Cream fullyrti að hann væri Kobbi kuti, Jack the Ripper. Hvað vakti fyrir honum er ekki vitað, en hins vegar er ljóst að Cream gat með engu móti verið sá frægi morðingi því þegar ógnartíð hans stóð hvað hæst, 1888, hafði Cream óhrekjanlega fjarvistarsönnun; hann var í grjótinu í Chicago.

Óstaðfest fullyrðing

Böðullinn sem sá um hengingu Creams, James Billington, fullyrti að Cream hefði sagt: „Ég er Jack the …“, en ekki náð að klára setninguna. Billington auglýsti þetta sem sönnun þess að hann og enginn annar hefði afrekað að taka af lífi þann alræmda raðmorðingja Jack the Ripper.

Þessi fullyrðing var aldrei sönnuð og enginn sem var viðstaddur aftökuna gat staðfest að Cream hefði sagt nokkuð þessu líkt. Auk þess sem Cream var í fangelsi þegar Jack the Ripper framdi ódæði sín.

Einn „Ripper-fræðingur“, Donald Bell, varpaði þeirri kenningu fram að Cream hefði á sínum tíma mútað embættismönnum í Chicago og því losnað fyrr úr fangelsi þar en opinberlega var talið. Lögmaðurinn sir Edward Marshall-Hall, samtímamaður Creams, velti þeim möguleika upp að tvífari Creams hefði í raun afplánað dóminn sem hann fékk í Bandaríkjunum.

Ekkert hefur komið fram sem styður þessar kenningar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -