Mánudagur 17. júní, 2024
7.8 C
Reykjavik

Shaker-hönnun í nútímalegum búningi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

The Shakers eins og þeir eru yfirleitt kallaðir hafa löngum verið skilgreindir sem fyrstu mínimalistarnir og hafa hönnuðir ósjaldan litið til þeirra í leit að innblæstri. Áherslur Shaker-trúarinnar voru einfaldleiki, skírlífi, heiðarleiki og vinna og var flokkurinn þekktur víðsvegar fyrir einstaklega mikla vandvirkni og fallegt handbragð í allri sinni smíði. Verkefnið Furnishing Utopia var sett á laggirnar árið 2017 og er einskonar óður til þessara fyrstu mínimalista.

Það var unnið í nánu samstarfi við tvö vel varðveitt Shaker-samfélög í Bandaríkjunum, Mt. Lebanon Shaker Museum í uppsveitum New York ríkis og Hancock Shaker Village í Berkshires-hálendinu í Massachusetts. Þeir hönnuðir og hönnnunarteymi sem valin voru til þátttöku í verkefninu hófu ferlið á vikulangri vinnustofu á svæðum fyrrnefndra Shaker-samfélaga. Þar höfðu hönnuðir ótakmarkaðan aðgang að gagnagrunni sem inniheldur alla skrásetta hluti smíðaða af Shakerunum, og gátu þeir jafnframt átt mikilsverðar samræður við sýningarstjóra safnanna sem búa yfir mikilli þekkingu um sögu og menningu trúflokksins.


Í framhaldi vinnustofunnar bjuggu hönnuðurnir til hversdagslega hluti, allt frá kústum og körfum yfir stærri muni eins og stóla, borð og bekki. Leitast var svara við því hvernig Shakerarnir þróuðu svo tímalausa, afturhaldssama og nútímalega hönnun á blómatíma sínum og reyndu hönnuðir að túlka hugvitsemi og siðfræði Shaker-stílsins í hlutum sem myndu passa inn í daglegt líf í nútímanum.


Þrjár sýningar undir formerkjum Furnishing Utopia hafa verið haldnar nú þegar og hefur markmið verkefnisins verið að skapa nútímalega innanstokksmuni innblásna af hinum upprunalegu Shaker-munum, sem og að varpa ljósi á þau áhrif sem Shaker-trúflokkurinn hefur haft á samtímahönnun. Hver sýning hefur haft sitt þema eða ramma sem hönnuðir vinna út frá og í þeirru nýjustu, „Furnishing Utopia 3.0: Hands to work“, var unnið með húsverk og þá muni sem þeim tengjast.


Verkefnið hefur vakið gríðarmikla athygli og verið sýnt á Stockholm Furniture & Light Fair, Sight Unseen Offsite á tískuvikunni í New York og í Hancock Shaker Village í Massachusetts í samhengi við hina upprunalegu Shaker-hluti. Meðal þeirra hönnuða sem tekið hafa þátt í Furnishing Utopia má nefna; Andersen & Voll, Hallgeir Homstvedt, Ladies & Gentlemen Studio, Studio Gorm, Norm Architects, Pat Kim, Bertjan Pot, Earnest Studio og svo lengi mætti telja. Hver einasti hlutur sem sýndur hefur verið á Furnishing Utopia varpar ljósi á þau áhrif sem Shaker-trúflokkurinn hefur haft á samtímahönnun.

Shaker-trúin náði hápunkti á árunum 1820-1860
Shaker-trúflokkurinn var fyrst um sinn þekktur undir nafninu „Shaking Quakers“ og var það tilkomið vegna tryllingslegs dans sem stundaður var við athafnir þeirra. Saga flokksins hófst snemma á 18. öld og á rætur sínar að rekja til Englands. Stuttu fyrir aldamótin 1800 flutti hann og settist að í efri byggðum New York-ríkis. Shaker-trúflokkurinn breiddi úr sér og árið 1826 var vitað um 18 Shaker-samfélög í átta ríkjum Bandaríkjanna en í dag er aðeins vitað um tvo eftirlifandi meðlimi trúarinnar. Shaker-trúin náði hápunkti sínum á árunum 1820-1860 og var það þá sem húsgagnahönnun þeirra og -smíði fór að vekja athygli. Húsgögnin áttu það sameiginlegt að vera meðfærileg og látlaus, þá helst úr ljósum og léttum við eins og hlyn eða furu. Fúnksjónalisminn var í hávegum hafður og var ávallt leitað sniðugra lausna til að sníða húsgögnin eftir þörfum hverju sinni. Mikilvægt var að sem flestir innanstokksmunir gætu verið hengdir upp á einskonar snagabretti sem lágu um veggina endilanga og voru einkennandi í híbýlum þeirra, en það að hengja hlutina upp á þennan hátt sparaði bæði pláss og auðveldaði þrif. Fjölmargar uppfinningar hafa verið kenndar við Shakerana, m.a. fyrsta þvottavélin, hringsög, flatur kústur og þvottaklemman. Stólarnir þeirra voru þekktastir og vinsælastir en þeir eru tiltölulega auðþekkjanlegir; setan ofin og bakið svipar til stiga enda kallaðir „ladderback chairs“. Áhrif Shaker-stílsins má greina víða, t.d. í skandínavískum viðarhúsgögnum eftirstríðsáranna. Það má með sanni segja að þessi litli trúflokkur hafi haft veruleg og langvarandi áhrif á hönnunarsöguna.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -