Miðvikudagur 8. maí, 2024
5.8 C
Reykjavik

Brynjar ætlar ekki að bjóða sig fram: „Ég er of truntulegur til að gegna svona embætti“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Brynjar Níelsson ætlar ekki að bjóða sig fram til forseta Íslands.

Háðfuglinn og varaþingmaðurinn Brynjar Níelsson segist hafa fengið áskorun í beinni útsendingu á Bylgjunni um að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. „Gamall kollegi og félagi gerði mér þann óleik í beinni útsendingu á Bylgjunni að skora á mig í framboð til forseta Íslands. Áhrifamáttur fjölmiðla er mikill og nú hellast yfir mig áskoranir. Af því að það hentar mér illa að liggja undir feldi dögum saman þá ætla ég ekki að bíða með tilkynningu. Hún er sú að ég ætla ekki í framboð til forseta Íslands.“

Brynjar tiltekur svo helstu ástæðurnar fyrir ákvörðun sinni:

„Ástæður eru þessar helstar:

Ég er alþýðustrákur úr Hlíðunum, sem breyttist í götustrák eftir að ég byrjaði í stjórnmálum. Allt snobb, sérstaklega menningarsnobb á illa við mig, sem og hvers kyns tildur. Ég er í grunninn mannafæla og líður best í felum bak við lyklaborð. Ég hef fallið í öllum kúrsum í fágunarskóla Soffíu og skortir allar fínessur, sérstaklega þegar kemur að framkomu og klæðaburði. Ég er of truntulegur til að gegna svona embætti.
Pólitískir andstæðingar mínir, oft nefnt góða fólkið, hefur haldið því fram að mig skorti alla samkennd og mannúð og manngæska sé mér framandi. Ég vil nú mótmæla því og fullyrði að þeir sem þekkja mig taki undir þau mótmæli. En meginástæðan fyrir þvi að ég ætla ekki í framboð er sú að ég vil halda hjónabandinu gangandi eitthvað lengur.“

Þá segir hann að eiginkona hans væri betri kostur í embættið en hann.

„Það væri miklu nær að menn skoruðu á Soffíu í framboð. Hún hefur allt að bera sem prýtt gæti einn forseta. Hún hefur aldrei gert neitt af sér í lífinu, ekki einu sinni farið yfir á rauðu gönguljósi. Hún er vel að sér um hlutverk og skyldur forseta. Hún er með diplómu úr öllum bestu fágunarskólum heims. Að auki er hún afskaplega hlýleg og elskuleg og hvers manns hugljúfi. Ég vil samt ekki sjá svipinn á henni þegar hún kemst að þessari færslu.“

Að lokum segist Brynjar ekki vilja lýsa yfir stuðningi við ákveðinn frambjóðanda.

„Ég ætla ekki að lýsa yfir stuðningi við ákveðinn frambjóðanda, það yrði bjarnargreiði. Ætla samt að vona að þessar kosningar verði ekki eins og hver önnur Júróvisjónkosning þar sem umbúðirnar skipta meira máli en innihaldið.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -