Fimmtudagur 16. maí, 2024
7.8 C
Reykjavik

Gerir leikna heimildarmynd um íslenskar kaffihúsakonur: „Þar sem frásagnarmátinn er töfraraunsæi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leikna heimildarmyndin Draumar, Konur og Brauð eftir Sigrúnu Völu Valgeirsdóttur og Svanlaugu Jóhannsdóttur verður frumsýnd í Bíó Paradís þann 20. apríl næstkomandi.

Draumar, Konur og Brauð er leikin heimildarmynd þar sem farið er á töfrandi hringferð um Ísland þar sem áhorfendur kynnast harðduglegum konum sem reka einstök kaffihús með ómótstæðilegum veitingum. Þar er einnig söngkona sem er í óðaönn að skrifa leikrit og samferðakona hennar.

Mannlíf ræddi við annan leikstjóra myndarinnar, Sigrúni Völu Valgeirsdóttur, um gerð myndarinnar. „Þetta er svona blandað format,“ segir Sigrún um heimildarmyndina og heldur áfram: „Þetta er svona hybrid, heimildarmynd og svo einnig skrifaður söguþráður, mjög sérstök mynd. Þetta er leikin heimildarmynd þar sem frásagnarmátinn er töfraraunsæi.“

En um hvað er myndin?

Sigrún Vala: „Þetta er um tvær ólíkar konur sem fara saman í ferðalag. Þær hittast fyrir tilviljun á kaffihúsi. En í grunninn er myndin um konur sem reka kaffihús á landsbyggðinni, fimm kaffihúsakonur en upphaflega hugmyndin kom hjá mér vegna þess að ég fór að vinna á kaffihúsi þegar ég kom úr námi í heimildarmyndagerð í Prag, á meðan ég var að finna út hvað ég vildi gera næst. Þá áttaði ég mig á því hvað það er ofboðslega mikil vinna sem þær leggja á sig en þetta er svo mikið framlag sem þær gefa til bæði síns nærsamfélags því þetta er svo mikill samkomustaður samfélagsins og þjónusta við fólkið á ýmsa vegu og svo líka til ferðaþjónustunnar í heild, því það er ekkert smá sem þær gera með sleifina í annarri og bakkann í hinni og eru þá að segja frá landi og þjóð, nærumhverfi og svo fram vegis og svo framvegis. Og þetta eru kannski þeir staðir sem fólk man eftir þegar það kemur heim. Eins og þegar við erum að ferðast og hittum lókal fólk. Mér fannst þetta allt í einu svo verðmætt en ég er sagnfræðingur í grunninn og þetta er náttúrulega kvennasaga sem lítið hefur verið skrifað um eins og allir vita. En þetta er líka sú menning sem ég er alin upp við. Þannig að mig langaði að skila þessu einhvern veginn út í samfélagið og passa að þetta væri skráð.“

En myndin er um miklu fleira líka.

- Auglýsing -

Sigrún Vala: „Þetta er líka um drauma og dagdrauma þessara kvenna. Og það er til dæmis eitt rannsóknarefni sem ekki hefur verið mikið skoðað. En við sem sagt gerum þessu skil en förum ekki mikið á dýptina en þetta átti líka að vera mynd sem væri skemmtileg. Ég held að okkur hafi alveg tekist það. Þetta var svona tilraun til þess að gera skemmtilega heimildarmynd, sem væri samt eins og bíómynd.“

Aðspurð um tökustaði myndarinnar sagði Sigrún Vala að farin hafi verið hringferð um landið í tveimur áföngum en síðustu atriðin voru tekin upp í janúar og er nú verið að leggja lokahönd á myndina. „Við vorum með crew að hluta til frá Egyptalandi en ég lærði í Prag og kynntist þar egypskri stelpu sem er rosalega brilljant og flott ung kona og mig langaði svo að hafa konu á vélinni en svo var líka mjög flottur maður, Jón Már Gunnarsson sem tók við af henni.“

Sigrún Vala segist notast við brellur í heimildarmyndinni og að þar sé einnig mikið um söng. Segir hún að sú sem skrifi handritið og leikstýri með henni myndinni, Svanlaug Jónsdóttir, sé söngkona. „Hún er söngkona og hefur samið leikrit. Við leikum allar sjálfar í myndinni en við ýkjum persónurnar þannig að við sækjum svolítið í reynslu okkar úr áhugaleikhúsum og þorrablótum, það er svo mikill húmor. Við erum svona nett að gera grín að okkur sjálfum í leiðinni.“

- Auglýsing -

Draumar, Konur og Brauð verður frumsýnd í Bíó Paradís 20. apríl næstkomandi klukkan 15:00.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -