Mánudagur 16. september, 2024
4.3 C
Reykjavik

Megum aldrei sofna á verðinum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Flestir láta sér fátt um finnast þegar réttindabaráttu hinsegin fólks ber á góma og halda því blákalt fram að það sé afgreitt mál og ekki um neitt að tala. Hinsegin fólk njóti allra sömu réttinda og aðrir, sumir ganga meira að segja svo langt að segja það njóta forréttinda. Þetta viðhorf er varasamt, eins og fram kemur í forsíðuviðtali við Hrafnhildi Gunnarsdóttur kvikmyndagerðarkonu í Mannlífi í dag. Kveikjan að viðtalinu eru sjónvarpsþættirnir Svona fólk sem nú eru í sýningu á RÚV þar sem Hrafnhildur fer ítarlega í saumana á baráttu homma og lesbía fyrir sömu réttindum og aðrir borgarar.

Þættirnir voru 27 ár í vinnslu og eru án efa gagngerasta og viðamesta úttekt á baráttu tiltölulega fárra einstaklinga á Íslandi fyrir að teljast gjaldgengir í þjóðfélaginu. Það stóð nefnilega engin fjöldahreyfing að baki þessari baráttu, þetta var framtak tiltölulega fámenns hóps þótt ótölulegur fjöldi einstaklinga hafi síðan notið góðs af þegar mannréttindi hinsegin fólks fóru smátt og smátt að verða viðurkennd í lögum.

„… það er óhugnanleg tilhugsun að það viðmót, mannréttindaskerðing og hatur sem hommar og lesbíur mættu fyrir þessum „örfáu“ árum sé nánast gleymd og það þyki ekki lengur við hæfi að ræða það hvernig brotið var á þeim.“

Það er heldur ekki langt síðan þessi barátta fór fram. Samtökin ’78 eru aðeins rúmlega fertug, eins og nafnið bendir til, og það er óhugnanleg tilhugsun að það viðmót, mannréttindaskerðing og hatur sem hommar og lesbíur mættu fyrir þessum „örfáu“ árum sé nánast gleymd og það þyki ekki lengur við hæfi að ræða það hvernig brotið var á þeim. Mannréttindi eru ekki tryggð í eitt skipti fyrir öll, eins og sagan kennir okkur, og þess vegna er nauðsynlegt að vera meðvituð um það sem á undan er gengið til að hægt sé að greina hættumerkin og sporna við óheillavænlegri þróun í tíma. Í þeirri baráttu eru þættir Hrafnhildar ómetanlegt framlag.

Íslendingum hættir til að miklast af eigin ágæti og telja sig fremsta meðal þjóða þegar kemur að réttindum minnihlutahópa, en er það raunin? Þrátt fyrir endalausar skipanir nefnda og fögur loforð er fullum réttindum ýmissa hópa undir regnhlífinni ekki enn náð. Á síðustu tíu árum hafa flest þau lönd sem við berum okkur saman við tekið fram úr okkur í ýmsum lögum sem tryggja réttindi hinsegin fólks og það er morgunljóst að sjálfshól og bakklapp vegna þess hvað Íslendingar standi sig nú vel gagnvart réttindum hinsegin fólks er ansi vanhugsað og skammsýnt. Við erum kannski ekki komin aftur á þann stað sem við vorum á fyrir fjörutíu árum hvað þessi mál varðar en þróunin í nágrannalöndum okkar, þaðan sem fréttir berast af endurteknum árásum á hinsegin fólk á götum úti, sýnir að það er örstutt í bakslag og að það er lífsspursmál að sofna ekki á verðinum.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -