Laugardagur 27. apríl, 2024
6.8 C
Reykjavik

Af hverju átt þú skilið sjálfsmildi?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Byrjum á því að segja að ég er pro sjálfsmildi. Ég elska líka þetta orð. Það er fallegt og mjúkt. Sjálfselska hefur fengið slæma túlkun og nú er þetta fína fallega orð komið sem þýðir ekki það sama og sjálfselska, eða hvað?  Hvað er verið að meina með sjálfsmildi?

Eða væri kannski áhugverðara að tala um hvað sjálfsmildi er ekki? Ég hef nefnilega smá áhuga á því líka.

Segjum það bara, að vera gott við sig, leyfa sér, mega og eiga þetta og hitt skilið er “IN”. Það brennur á allra vörum. Lífstílsþjálfarar keppast um að vera bestir í að draga fólk niður í mildi, í rúmið, undir sængina, í ró, í öndun. Gera minna, sem minnst. Því allir eru svo uppteknir alltaf og að brenna út. 

En er það endilega málið alltaf og er sjálfsmildi fyrir alla? Erum við öll alveg ofboðslega hörð við okkur? Rúllandi upp þrjú hundruð störfum, í ræktinni á hverjum degi, að sjá um fjögur börn, hund og kött, í blússandi félagslífi og á öllum viðburðum og með pólitík líðandi stundar á hreinu? Að klára eitt verkefni og huga að því næsta? Ef þú tikkar í alla þessa lýsingu, þá í fyrsta lagi, plís anda, leita aðstoðar við að finna tíma til að slaka á. Þú átt skilið og þarft nauðsynlega einhverskonar sjálfsmildi myndi ég halda allavega. Það er mjög mikil sjálfspressa og fullkomnunarárátta í gangi hjá þessari týpu sem er alltaf alls staðar með hundrað bolta á lofti í einu. Kannski finnst henni það vera lífið. Það eru samt miklar líkur á að margt sem þessi týpa gerir stjórnast af ytri hvata og áhrifum. Af pressu utan frá.

Mögulega eru sumar af þessum týpum fullkomlega í jafnvægi á sama tíma og þær eru út um allt. Þá hefur þeim tekist að finna út galdurinn í sjálfsmildi vs. metnaður.

Þetta orð sjálfsmildi er notað óspart um þessar mundir og já ég er einn af þeim. Og aftur já, þetta er af hinu góða. Það sem sjálfsmildi gefur okkur er jafnvægi og ró. Það að sýna sér virðingu yfir daginn með fallegum hugsunum í eigin garð sama hvað bjátar á er hollt og á við um alla. Sama hvað.

- Auglýsing -

EN.

Það kemur nefnilega en.

Sjálfsmildi er ekki hipp og kúl hugtak eða afsökun til þess að klukka sig úr lífinu og að takast ekki á við andleg málefni eða sleppa við ábyrgð. Sjálfsmildi er einmitt að taka sig af rassinum og díla við erfiðleikana af alúð. Sjálfsmildi er ekki að segjast vera gott við sig með því að borða óhollt, hreyfa sig ekki og fara aldrei út úr húsi. Sjálfsmildi gæti verið þannig í algjöru hófi hins vegar ef þú ert almennt alltaf á fullu, að borða hollt og að hreyfa þig. Þá kannski felst sjálfsmildin í að sýna sér smá slaka af og til – en passa sig – ef eitt kvöld verður að öllum kvöldum þá er þetta ekki lengur sjálfsmildi heldur óhollt líferni og einmitt alls ekki að vera gott við sig. Eða að eyða pening sem man á ekki í óþarfa og segjast vera gott við sig. Ef það er gert á hverjum degi þá er það ekki sjálfsmildi heldur peningasóun.

- Auglýsing -

Ef sjálfsmildi felst í því að hlusta á eigin líkama og hugsanir og hvoru tveggja segir alltaf: Vertu gott við þig í dag og fáðu þér pizzu og kók, þú þarft ekki að díla við þetta eða þennan. Þú ert nóg eins og þú ert. Hinir eru vondir og þú ert gott. Viltu ekki díla við þennan dag? Flott, sýndu þér sjálfsmildi og klukkaðu þig út í dag.

Ef þetta er það sem fer fram í kollinum ALLA daga þá er það varla lengur sjálfsmildi. Eða?

Hvað er þá sjálfsmildi?

Er það jafnvægið þarna á milli og ræðst þá eftir hvar viðkomandi er staddur hverju sinni hvort það eigi vel við? Eigum við ekki bara öll sýna okkur sjálfsmildi óháð öllu?

Jú, alveg í rauninni. En mögulega ekki. Allir ættu að temja sér þann hugsunarhátt að vera í sátt og mildi við sitt sjálf.

Fólk sem gerir samt ekki annað en að kvarta út af öllum öðrum í kringum sig, fólki eða aðstæðum, gerir ekkert alla daga þó það gæti það, vill ekki leggja á sig mikla vinnu til að ná markmiðum eða láta hlutina gerast, það fólk hefur ekkert endilega gott af því að hugsa of mikið um sjálfsmildi í þessum skilningi. Það myndi eflaust gagnast þeim betur að finna leið og innblástur til þess að breyta því sem það getur breytt sjálft, læra að skipuleggja og forgangsraða, koma sér af stað í að skoða af hverju allt er öllum öðrum að kenna, finna leið til að opna augun og díla við fortíðina jafnvel. Í þessu tilfelli væri sjálfsmildin einmitt falin í því. Það að díla við hluti er ekki dæmi um einhverja hörku eða að taka lífið á hnefanum. Ekki þegar það er gert meðvitað, yfirvegað, leitandi og með aðstoð. Mér finnst fólk oft mistúlka það þegar einhver er ákveðinn í að standa sig og gera vel. Það er hægt að gera það án þess að vera í keppni eða hörku.

Sjálfsmildin sem er mikið verið að tala um í dag er sjálfsmildin sem fólk í kulnun ætti að taka til sín. Hún felst mikið í því að sýna sér mildi og minni fullkomnunaráráttu, sýna sér meiri slaka. En það eru auðvitað ekkert allir í kulnun. 

Sálfræðingurinn minn sagði við mig um daginn. Ég myndi ekkert segja við alla. Þú MÁTT og ÁTT SKILIÐ að slaka á. Sumir þurfa ekkert að heyra þetta því þeir gera ekkert allan daginn hvort sem er. Þeir þurfa annars konar skilning og hvatningu. Þeir þurfa sjálfsmildi sem felst í virkni.

En þessi sjálfsmildi í formi slök á við um þá sem eru að allan daginn frá morgni til kvölds. Rakka sig niður fyrir hver einustu mistök. Þurfa að hafa allt fullkomið. Hafa enga pásu í skipulagi dagsins. Fyrir þessa týpu er fullkomlega eðlilegt að sjálfsmildi þýði að hún eigi og ætti að slaka aðeins á. Hún má slökkva á síma, lesa bók og gera ekkert annað og hefði sennilega mjög gott af því. Fyrir utan það að sú týpa ætti einnig að glíma við það sem býr að baki. 

Þannig að við erum komin með einhverja niðurstöðu? Þetta er fólgið í jafnvægi og ólíku sjónarhorni, séð hvaðan þú ert að nálgast hugtakið. Sjálfsmildi á við alltaf en getur þýtt mismunandi hluti. Hún er almennt eitthvað sem allir ættu að tileinka sér en á ólíkan hátt eftir aðstæðum. Sjálfsmildi er ekki það sama og að leyfa sér heldur frekar að hlusta og skilja hvað sjálfið þarf til að komast á betri stað, í áttina að betri líðan.

Kunna að sleppa tökum þegar komið er í hart, stál í stál. Vefja ull yfir stálið, klappa því og taka svo einn góðan lúr til að huga að næstu skrefum. 

Friðrik Agni Árnason

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -