Þriðjudagur 20. febrúar, 2024
0.8 C
Reykjavik

Áttu kannski nóg með þig?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Við höfum öll okkar innri baráttur að kljást við. Innri hugsanir, innri ást, innri skýrleika. Svo er það líkami okkar, hreyfing, næring og svefn. Við það bætast svo okkar næsta umhverfi og aðstæður. Makamál, börn og fjölskylda. Heimilið og starfið eða námið. Allur okkar hversdagsleiki stjórnast út frá því að halda öllu þessum atriðum í einhverskonar jafnvægi ekki satt?

Svo er það ytra umhverfið.

Það sem er að gerast fyrir utan okkar nánasta hring. Og jafnvel langt fyrir utan hann. Mjög oft eru þar aðstæður sem við getum ekki stjórnað. Flóknar aðstæður jafnvel sem ná ofar okkar skilningi. Við sem mannfólk höfum eitthvað sem heitir samkennd. Allavega við flest. Nema þeir sem eru siðblindir, því það er til siðblint fólk. Það fólk sér ekki rangt við neitt sem það gerir öðru fólki. Jafnvel þó eymd eða særindi eru bersýnileg. Það fólk er frjálst undan ábyrgðartilfinningu gagnvart öðru fólki og eigin gjörðum. Sem betur fer er ekki mikið af þannig fólki í heiminum en það versta er þó að sumt siðblint fólk á auðvelt með að öðlast völd í gegnum misnotkun á öðru fólki. Og með valdi koma einnig tækifæri til að hafa áhrif. Og hvað gerist þegar siðblint fólk kemst til valda?

Það gerist aftur og aftur í mannheimum að við horfum upp á furðulega og óskiljanlega grimmd eiga sér stað. Í nútímanum virkar allt svo nálægt okkur sem áður var fjarri. Það er þökk sé samfélagsmiðlum. Eða þökk er kannski ekki rétta hugtakið yfir það. Erum við betur sett með allar þessar upplýsingar?

Yfir okkur hellist reiði, viðbragðskerfið fer af stað, samkenndin sýður úr eyrunum á okkur og ábyrgðartilfinningin kraumar. Við mótmælum, við viljum breyta, við viljum bæta og bjarga.

Vanmáttur er oft viðstaddur líka þegar aðstæður virka óyfirstíganlegar. Hvað get ég svo sem gert? Jú, við getum alltaf gert eitthvað. Og við ættum alltaf að gera eitthvað. En gera það sem við ráðum við. Þar liggur kannski tilgangur þessara skrifa í dag.

- Auglýsing -

Að skilja hvenær og hvað. Hvenær á ég að heyja erfiðar baráttur sem eru fyrir utan mitt líf og fyrir hvaða málstað? Hef ég andlegt jafnvægi til að ná utan um aðstæðurnar sem ég er að koma mér í? Skil ég raunverulega málstaðinn sem ég er að berjast fyrir? Er hann þess virði að ég missi tökin á eigin lífi og á ábyrgðinni sem ég hef gagnvart mínum nánustu?

Sumir hugsa kannski alltaf um alla aðra áður en þeir hugsa um sig sjálfa. Er það merki um að vera góð manneskja? Er það að vera ósérhlífin alltaf sama sem og að vera gulls ígildi af mannveru?

Fyrir mér snýst samkennd og hjálpsemi um jafnvægi þess og að geta hugað að sjálfum mér líka í leiðinni. Ef ég til dæmis er að ganga í gegnum mjög mikla erfiðleika heilsufarslega og í sambandsslitum þá er ég kannski ekki í stakk búinn til þess að leggja heiminn á herðar mér í ofanálag. Hve gagnleg verður þá hjálparhöndin mín og hverju fórna ég? Er ég tilbúinn til að fórna mér?

- Auglýsing -

Í heiminum eru þúsundir bardaga sem háðir eru á degi á hverjum af mannavöldum. Stríð, fátækt, kúgun, þrælkun og misnotkun. Af náttúrunnar völdum, flóð, eldgos, skjálftar, þurrkar og óveður. Við lifum í viðkvæmum raunveruleika. Taugakerfið okkar fær litla sem enga hvíld. Nema við byggjum í rafmagnslausum helli einhversstaðar. Þá værum við allavega búin að losa okkur við eitthvað af ytri aðstæðunum og upplýsingaflæðinu. En flest viljum við vera hluti af þessu viðkvæma kerfi. Og þá felst kannski galdurinn í að búa til rafmagnsleysið innan um allt kaosið?

Við verðum að geta valið hvaða baráttur eru okkar og hverjar ekki. Við verðum stundum að treysta því að ábyrgðin verði gripin af öðrum höndum en okkar eigin þegar við eigum nóg með okkur sjálf. Það er áreiti að vera alltaf til staðar og alltaf réttu megin við almenningsálitið.

Ekki má heldur gleyma því að margt smátt gerir eitt stórt. Þó þú gerir eitthvað eitt lítið til að hjálpa þeim málstað sem þú vilt berjast fyrir þá er það nóg. Þú hefur valið að gera eitthvað í staðinn fyrir að gera ekkert.

Þú mátt hlúa að þér þó það gjósi og þó það séu stríð í heiminum. Hjálp þín verður gagnlegri fyrir vikið.

Friðrik Agni Árnason

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -