Miðvikudagur 24. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Blaðamaður hrapaði til bana á Toupkal – Með íkornum og krákum í 4167 metrum Seinni hluti

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Við hvert skref var eins og fæturnir væru úr blýi. Ég horfði vonleysislega upp snarbratta brekkuna þar sem lokamarkmiðið, Toubkal, 4167, metra hár, blasti við mér. Lafmóður barðist ég áfram upp snarbrattann. 50 skref áfram og svo hvíld. Gamalkunnug aðferð við erfiðar aðstæður sem gjarnan hefur dugað.

Guðrún og Mohamed komin langleiðina upp á Toupkal. Mynd: Reynir Traustason.

Dauðsfall við tindinn

Mánuði eftir að ferðinni lauk vorum við Guðrún aftur komin til Marokkó. Að þessu sinni fengum við beint flug með Heimsferðum til hafnarborgarinnar Agadir. Mohamed hafði strax tekið því vel að leggja aftur í hann og koma mér á tindinn. Hann lét sér ekki muna um að mæta á flugvöllinn í Agadir, 300 kílómetra leið frá Marrakech. Hann kom færandi hendi með kalt vatn á flöskum eins og í fyrra skiptið. En í þetta sinn voru farþegarnir aðeins tveir. Við höfðum rétta þrjá daga til að fara á Toubkal og snúa aftur til Agadir. Mohamad var áhyggjufullur vegna þess að það hafði snjóað í fjöllunum. Við þurftum að hafa með okkur jöklabrodda og ísexi til að vera við öllu búin. Þá bárust okkur þau válegu tíðindi að bresk kona hafði hrapað til bana af tindinum þann 25 október. Hin látna var blaðamaður sem var á ferð ásamt félaga sínum. Atvik voru þannig að hún var á stað sem vinsæll er til myndatöku. Hún hrapaði og lést á slysstaðnum. Þau voru ekki með leiðsögumann með sér, eins og skylda er eftir morðin neðar í dalnum. Örfáum dögum eftir harmleikinn á Toupkal vorum við mætt til að reyna við tindinn í annað sinn.

Fagnaðarfundir

Heimafólk í Armed fagnaði okkur þegar við birtumst á ný til að reyna öðru sinni við tindinn. Þetta var nánast eins og að koma heim. Bros á hverju andliti. Við héldum strax á fjallið. Dagurinn var strembinn. Við gengum 15 kílómetra og hækkuðum okkur um 1500 metra áður en við komum í grunnbúðir. Aðstaðan í fjallaskálanum var til fyrirmyndar þótt maturinn hefði mátt vera betri. Þarna voru góð rúm vatnssalerni og sturtur. Við sváfum ágætlega og fyrr en varði rann toppadagurinn upp.

Fjallaskálinn í grunnbúðunum er stórglæsilegur.

Leiðin upp frá grunnbúðum er öll á fótinn. Það er strax snarbratt. Ég fann fljótlega til svima eftir því sem við komumst hærra. Ég var í jöklaskóm sem eru langt á annað kíló að þyngd. Við brottförina hafði ég fengið hugboð um að skórnir yrðu mér til trafala. Á síðustu stundu stakk ég fjallahlaupaskóm ofan í pokann minn. Smám saman dró af mér. Fæturnir voru sem blý og ég drattaðist áfram, meira af vilja en mætti. Ég gerði samferðafólkinu grein fyrir stöðunni. Guðrún bauðst til þess að bera jöklaskóna ef ég vildi slá hinum undir. Það varð úr og ég fann til léttis.

Við siluðumst upp fjallið. Sviminn fór vaxandi. Í 4000 metrum átti ég á köflum erfitt með að halda jafnvægi. Ef ég hreyfði höfuðið snöggt helltist sviminn og ógleðin yfir mig. Þetta var furðulegt ástand í ljósi þess að 10 árum áður hafði ég toppað Mont Blanc sem er rúmum 600 metrum hærra. Þá fann ég til svima en ástandið þá var ekkert í líkingu við það sem nú var. Þetta var ekki einleikið. Ég bægði frá mér þeirri hugsun að þetta væru álög vegna hauslausa hanans úr síðustu ferð. Ég lagði til að við tækjum 50 skrefa lotur í þeirri von að ég næði upp. Þetta gekk upp og við mjökuðumst nær takmarkinu. Utan í snarbröttu klettabeltinu hafði Mohamad áhyggjur af því ég myndi missa jafnvægið. Ég einbeitti mér að hverju skrefi og við náðum áfallalaust upp á hrygginn þar sem Toubkal blasti við.

Langþráði markmiði náð. Toppurinn á Toupkal. Mynd: Mohamed

Íkornar og krákur

Ég staulaðist áfram seinustu metrana og allt í einu stóð ég á toppnum. Íkornar og krákur börðust um athygli göngufólks í von um brauðbita. Tilfinningin að toppa var ólýsanleg. Markmiðið sem ég setti mér fyrir fimm árum hafði náðst. Sólin brosti við okkur í dauðalogni og tveggja stiga frosti.  Útsýnið yfir Atlas-fjöllin var stórkostlegt. Þetta var næstum eins og maður ímyndaði sér himnaríki. Mér varð hugsað til þess að kannski hefðum við verið heppin að missa af hrakningaferðinni með félögum okkar, rúmum mánuði fyrr.

- Auglýsing -

Niðurleiðin var ljúf. Háfjallaveikin lét undan síga í réttu hlutfalli við það sem við lækkuðum okkur. Um það leyti sem við komum í skálann aftur var sviminn horfinn og heilsan að komast í lag. Lífið var eins og það gat verið best. Eftir góðan nætursvefn var haldið áleiðis til Armed. Fyrst lá leiðin í gegnum þorp þar sem er þjónusta við ferðamenn. Enginn sefur í þorpinu en fólk kemur daglega, ýmist gangandi eða ríðandi á múldýrum til að sinna störfum sínum. Eftir stuttan stans í þorpinu héldum við aftur af stað, seinasta legginn. Við gengum framhjá aftökustaðnum þar sem stúlkurnar tvær höfðu verið aflífaðar með hrikalegum og ómannlegum hætti. Það fór hrollur um mig við tilhugsunina um þann viðbjóðslega glæp sem svo margir höfðu skipulagt og staðið að í nafni trúaröfga.

Loks sáum við Armed, það gamalkunnuga þorp. Mohamed þurfti að fara strax í annað verkefni svo mágur hans skutlaði okkur þessa 300 kílómetra leið til Agadir þar sem okkar beið letilíf næstu dagana í sól og sandi.

Næst á dagskrá er nýtt markmið, nýtt fjall og nýjar áskoranir.

- Auglýsing -

Fyrri hluti frásagnarinnar er hér. 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -