Föstudagur 6. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Einmanaleiki á myrkasta tíma ársins – Langbesta jólagjöfin

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Birtingarmynd jólanna er knús, kósí og kræsingar. Hendum inn á settið ástvinum, fjölskyldu og upptendruðum arni. Staðreyndin er samt sú að hópur fólks samsamar sig ekki þessari glansmynd. Kannski stundum en ekki alltaf. Margir kvíða jólunum, þau eru áminning þess sem upp á vantar. Splundraðar fjölskyldur, veikindi, andlát nákomins, fjárhagskröggar og aðrir þættir ýfa upp sárin og minna á allt sem upp á vantar. 

Innpakkaður einmanaleiki

Á meðan óskalistar jólabarnanna eru uppfylltir og pappírstunnur heimilanna fylltast er hópur fólks sem á sér enga ósk heitari en að tilheyra og tengjast. Einmanaleikinn þyrmir yfir og engin gjöf gæti slegið á þá tómu tunnu sem innra með þeim ríkir. 

Fjölskyldan vill hittast og margir eiga í kappi við að keyra á milli matarboða. Slíkt getur verið streituvaldur, ekki síst þegar að uppstrílað bros og hamingja sæta skyldumætingu.

„Hva, eru ekki allir í jólaskapi?“

Allir skulu gleyma ágreiningi, ósætti, árekstrum og aldagamalli úlfúð milli ættingja. Allt í nafni góðra og gleðilegra jóla, sem myndast vel og eru birtingahæf á samfélagsmiðlum. Innpökkuð hamingja – í þykjustunni. Það er ósanngjarnt að ætlast til þess af fólki að því eigi að líða vel eftir klukku. Í því er lítil sem engin samkennd.

- Auglýsing -

Besta jólagjöfin

Ef einmanaleiki hrjáir getur hann orðið ærandi í margmenni. Vert er því að muna Skúli er ekki endilega sá fúli ef hann mætir ekki í jólaboðið. Kannski er Heiða með langvinnan leiða og einfaldlega meikar ekki að setja á sig gleðigrímu í dag – þrátt fyrir að í dag er jóladagur.

Langbesta gjöfin í ár kostar ekki krónu. Heldur er hún fólgin í því að leyfi fólki að líða, teygja sig til þeirra og spyrja:

- Auglýsing -

„Hvernig get ég verið til staðar fyrir þig – ekki bara í dag heldur alla hina dagana líka?“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -