Miðvikudagur 8. maí, 2024
4.8 C
Reykjavik

Ertu mamma allra?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Af hverju getum við ekki sleppt tökum á því að við stjórnum ekki hvernig aðrir upplifa heiminn? Af hverju erum við að vanda okkur svo mikið og gera allt í okkar valdi til að fyrirbyggja það að einhver verði óánægður með eitthvað sem við erum að gera?

Ég er með fréttir: Það verður alltaf einhver ósammála þér. Það verður alltaf einhver óánægður. Það mun alltaf einhver kvarta yfir einhverju.

Meira að segja í tilfelli þeirra sem okkur finnst virka hafa allt á hreinu og fullkomið þá er einhver í þeirra lífi sem finnst þau ekki vera að standa sig vel og setur út á þau. Við sjáum tónlistarkonu slá í gegn og hugsum að hún geri aldrei feilspor, hún er bara fullkomin. Nei, hún er það ekki. Það er það enginn.

Ekki stjórna öðrum það mikið að þú ferð að bera ábyrgð á öllu því sem þeir upplifa. Þá ertu að mála þig út í horn. Þá mun einnig hamingja þín og virði þitt alltaf ráðast út frá upplifun annarra á því sem þú gerir. Það hlýtur að vera þreytandi að leita að hamingju þannig.

Og það er uppskrift fyrir vonbrigði því sama hvað þú gerir þá mun alltaf einhverjum ekki finnast þú gera hlutina vel. 

Galdurinn felst í að heyra og hlusta þegar fólk hrósar þér og kunna að taka gagnrýni þegar hún er uppbyggjandi – en svo loka eyrunum þegar fólk er að kvarta í þér yfir einhverju sem þú getur ekki mögulega stjórnað. Við þurfum ekki að taka það til okkar þó að einhverjum finnist maturinn í veislunni okkar ekki góður. Ef þú ert með þrjátíu manns í veislu og aðeins einn kvartar yfir hvað laxinn sé vondur þýðir það þá að hann sé það? Líklega ekki. Þýðir það að þú sért vonlaus?

- Auglýsing -

Bara alls ekki.

Við getum ekki borið ábyrgð á upplifun og tilfinningum annarra. Hvað þá ákvörðunum. Það er ótrúleg stjórnsemi og pressa sem við setjum á okkur. Við myndum aldrei sofa ef við værum alltaf að hugsa um hvernig við þóknumst öllum, í öllum aðstæðum. Gerum bara hlutina vel í hvert sinn sem okkur er falið eitthvað og látum þar við sitja.

Munum að jafnvel þó við stöndum okkur vel þá er einhverjum sem finnst við ekki kúl, flott eða með þetta á hreinu. Þannig við verðum sjálf að klappa fyrir okkur. Við þurfum að sjá þegar við höfum gert okkar besta og vitum að við hefðum ekki getað gert neitt öðruvísi. Hvernig aðrir sjá það er  í raun þeirra mál. Þeirra túlkun út frá þeirra forsendum og þeirra sýn á lífið. Fullorðið fólk ber oftast ekki ábyrgð á öðru fullorðnu fólki.

- Auglýsing -

Verum góðir foreldrar, gerum okkar besta fyrir börnin okkar, vísum þeim leiðina, höldum í höndina þeirra en í guðs bænum ekki fara halda í hendurnar á öllum sem koma nálægt okkar lífi. Leyfum fólki að vera fólk. Fólk má vera ólíkt og hafa ólíkar skoðanir.

Við þurfum ekki að stjórna því. 

Við erum ekki foreldrar hvers annars.

Og þess fyrir utan myndum við aldrei vilja stjórna skoðunum og upplifun barna okkar. Eða hvað? Við getum ekki stjórnað því að þau upplifi aldrei neitt slæmt eða finnist alltaf allt skemmtilegt og frábært. Það væri örugglega aldrei neitt frábært og skemmtilegt ef við hefðum ekki samanburðinn. Við verðum að þekkja þegar okkur finnst matur vondur til að vita hvað okkur finnst gott.

Hættum að hegða okkur eins og við berum ábyrgð á því að öllum líði vel, alltaf. Fólki finnst við ekkert merkilegri eða duglegri þó að við sofum ekki neitt af því að við vorum áhyggjur af einhverju. Flestir kenna þá frekar í brjósti um okkur og segjast vona að við getum slakað á næstu nótt. Það er enginn að fara klappa fyrir þínum andvökunóttum. Vá hvað þú ert dugleg og samviskusöm í að hafa áhyggjur! Meira að segja á næturna. Vel gert þú!

Treystu því að fólk velji sjálft hvað það vill og hvað það vill ekki út frá eigin tilfinningu og upplifun. Fólki má finnast þú hallærisleg. Því út frá þeirra sýn og túlkun þá fellur þú þar undir. Og hvað með það? Finnst þér þú hallærisleg  bara af því einhverjum öðrum finnst þú vera það?

Þú berð ábyrgð á þér. Það skiptir máli hvað þér finnst um þig og það sem þú gerir.

Það sem öðrum finnst skiptir svo eiginlega ekki máli, án gríns. 

Því þér fannst þú hafa staðið þig vel. Þú ert ánægð. Það skiptir máli.

Við verðum aldrei ánægð ef við erum alltaf að sækjast í að öðrum finnist við vera æðisleg. Verum bara æðisleg án þess að fá leyfi annarra fyrir því.

(Ég skrifa þvers og kruss hvað varðar kynnotkun til að festast ekki í einu eða öðru. Ég skrifa til allra og vona að öll geti hrífst með og tengst viðfangsefninu sama hvaða kyn ég nota).

Friðrik Agni Árnason

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -