Föstudagur 6. desember, 2024
-3.2 C
Reykjavik

Flateyringar kveðja Sigurð Hafberg:„Eitthvað mjög óraunverulegt við að Siggi sé horfinn af sviðinu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Söknuður þorpsbúa og vina Sigurðar er mikill, en mestur er þó söknuður fjölskyldunnar, það er þyngra en tárum taki að horfa á eftir manni eins og Sigurði Hafberg á besta aldri,“ skrifar Guðmundur Jón Sigurðsson til minningar um félaga sinn, Sigurður Jóhann Hafberg, athafnamann sem jarðsunginn verður frá Flateyrarkirkju í dag.  

Sigurður varð 64 ára í byrjun mánaðarins. Hann lést eftir stutta baráttu við krabbamein. Sigurður ólst upp á Flateyri og bjó þar með stuttum hléum allt sitt líf.

„Hann skilur eftir skarð sem ég átta mig ekki á að verði fyllt, ekki af einhverjum einum manni. Það var allan tímann bara einn Siggi Habb. Gegnheill, hjálpsamur og oftast til í allt,“ skrifar Guðmundur.

Hann rifjar upp að sem formaður íþróttafélagsins Grettis lét Sigurður steypa hlaupabraut mikla sem hefur dugað vel. 

„En nýjasta og merkasta afrek Sigurðar á þessari vegferð er að vera forystumaður í að gera gott skautasvell á Flateyri. Það hefur verið gaman að sjá hvernig svellið hefur laðað til sín fólk og fjölskyldur, það verður meira að segja stemning á Netinu þegar sýndar eru myndir frá svellinu fullu af fólki og annað fólk að útbýta heitu kakói fyrir gesti. Þá saknar maður þess að geta ekki staðið á skautum en lætur duga að hrífast með liggjandi í sófanum með tölvuna í fanginu, svona eins og sannkristinn fótboltaáhugamaður“.

Guðmundur rifjar upp að Sigurður varð ungur áhugamaður um pólitík og lagði 12 ára gamall sitt að mörkum í stuðningi sínum við Hannibal Valdimarsson. Hann gekk í  hús á Flateyri og seldi blað framboðsins og gaf alla sína þóknun í kosningasjóð.

- Auglýsing -

„Síðar varð Sigurður eldheitur Alþýðubandalagsmaður, keypti Þjóðviljann og las spjaldanna á milli. Fór ekki einu sinni á klósettið öðruvísi en að hafa blaðið með. Man eftir fyrir kosningar 1987 í prófkjörsvinnu fyrir Karvel Pálmason reyndi ég að fá Sigga til að taka þátt, því honum og Karvel var prýðilega til vina, en Siggi hélt sig við sitt Alþýðubandalag. Ég meira að segja fékk Svavar Gestsson þáverandi formann Alþýðubandalagsins til að tala við hann en Siggi var sem fyrr gegnheill Allaballi og hafnaði algjörlega að taka þátt í þessu prófkjöri“.

Guðmundur rifjar þegar þeir félagar buðu fram við fram til hreppsnefndar á Flateyri ásamt mörgu góðu fólki.

„Það var skemmtileg reynsla og Siggi naut sín til fulls, var frjór og átti fjölda góðra hugmynda um stefnumál enda vildi hann eyrinni sinni allt það besta og gaf enga afslætti frá því. Síðar varð Sigurður afhuga pólitík og gekk til liðs við Framsóknarflokkinn“.

Árum saman var bílskúr þeirra hjóna einskonar félagsmiðstöð

- Auglýsing -

Fjölskylda Sigurðar stóð lengu í rekstri ferðaþjónustu., Grænhöfði ehf. fyrirtæki fjölskyldunnar eignaðist mikinn fjölda kajaka og skipulagði ferðir um Önundarfjörð með ferðafólk. Stundum var komið við í einhverri fjörunni hvar beðið var með grill og steik fyrir róðrafólk.

„Það var því sorglegt að fjölskyldan skyldi missa allan sinn útveg í snjóflóðinu stóra 2020. Í kjölfar flóðsins kom sveit skælbrosandi ráðherra vestur og lofaði að allt yrði bætt, hafi ég skilið ummæli þeirra rétt. En eitt er að tala og annað að segja eitthvað. Eftir þetta áfall fór Siggi að sýsla við sitthvað eins og gengur, meðal annars stofnaði fjölskyldan kaffihús á Flateyri sem naut strax mikilla vinsælda. Þá hafa þau hjónin verið í fararbroddi að halda árlega götuveislu á Flateyri síðustu 20 ár eða lengur. Það er viðburður sem hefur dregið fjölda manns á staðinn á hverju sumri. Siggi var mikill gleðimaður í allri merkingu þess orðs, hvar menn hittust var hann ævinlega hrókur alls fagnaðar,“ skrifar Guðmundur Jón og rifjar upp að allt frá því í barnaskóla var Siggi aðdráttarafl í mannlífsflórunni.

„Árum saman var bílskúr þeirra hjóna einskonar félagsmiðstöð þar sem kallarnir komu saman og leystu lífsgátuna, spiluðu borðleiki, átu harðfisk og lögðu mat á bragðgæði bjórdrykkja þó ég haldi að þeim hafi þótt vænst um prósenturnar. Það er eitthvað mjög óraunverulegt við að Siggi sé horfinn af sviðinu fyrir fullt og fast, það mun líða langur tími þar til ég átta mig á því til fulls“.

Streymi er frá athöfninni í Flateyrarkirkju í dag: https://www.facebook.com/events/575632123981866/?ref=newsfeed

Grein Guðmundar Jóns Sigurðssonar á Facebook er að finna hér.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -