Föstudagur 26. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Hver þarft þú að vera?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nýlega var umfjöllun um leikskólann Laufásborg í Ísland í dag. Leikskólinn er sá flottasti í bænum. Foreldrar keppast um að koma börnunum sínum að. Mörg hundruð börn á biðlista. Foreldrar elska leikskólann, starfsfólk vill aldrei hætta. Það mætti halda að þarna væri um að ræða einhvern heitan klúbb með botnlausum hlaðborðum, prívat nuddurum, sérhannað veðurkerfi innanhúss og sitthvað fleira sem fullorðnu fólki þætti æðislegt. Nánar litið kom í ljós að þarna hafa börnum fræga fólksins verið smalað saman undir eitt þak. Í umfjölluninni var sérstaklega bent á að þarna má sjá nokkuð mörg þekkt andlit.

Eitthvað við þessa umfjöllun lét mig fá smá óbragð í munninn. Blessuð séu börn fræga fólksins og allt það og ekkert hef ég á móti þeim. Né börnum venjulegs fólks nú eða frægu fullorðnu fólki ef út í það er farið. 

Af hverju erum við svona? Með þetta aðgreiningar blæti. Enn og aftur flokkun. Stimplar. Frægt fólk, þekkt fólk, fallegt fólk, ríkt fólk = Betra, gott, vald, gjafir, tækifæri. Hinir = ómerkilegir, fátækir, ljótir, berjast fyrir sömu tækifærum, valdalausir.

Í þessu tilfelli var það leikskóli í öðrum tilfellum er það æðsti stóll ríkisvaldsins. Þá meina ég þessi elítismi. Þessi buddy-buddy-ismi. Harð íslenska frændhyglin. Og hvernig henni er viðhaldið.

En kannski ekki bara það heldur frekar hugmynd og dýrkun á einhverju fólki umfram annað fólk. Frægt fólk vs. venjulegt fólk. Manneskja sem á þennan pabba eða þessa mömmu er áhugaverð. Eða sem á þennan fyrir vin eða vinkonu. Ekki reyna að telja mér trú um að svona séu hlutirnir ekki. Allavega er minn veruleiki fullur af slíkum dæmum og þá á ég við að ég hef bæði gagnast af því sjálfur að þekkja mann og annann sem og séð aðra í kringum mig gagnast af því. Kannski bý ég í mínum eigin veruleika.

Búum við í jafnréttisparadís? Sumir vilja meina það. En er það? Í þessari leikskólaumfjöllun fannst mér allt í einu eins og elítismi væri orðinn eitthvað krúttlegur. En bíðið við, nei, það er ekkert krúttlegt við hann.

- Auglýsing -

Um árið spratt upp umræðan um Nepo babies, Menningarbörnin. Börn sem fæðast inn í tengslanet og eiga þar með greiðari leið að ákveðnum tækifærum innan menningargeirans. Mikið var tekist á um þessa skilgreiningu og réttmæti hennar. Ég myndi ekki segja að það sé eitthvað til að takast á um. Hættum að reyna útrýma einhverju sem er staðreynd. Tökumst frekar á við hana og skoðum hvort hægt sé að skapa meiri jöfnuð í samfélaginu. Ryðja brautir allra jafnt. Niðurfelld skólagjöld er gott dæmi um skrefið í áttina að því. 

Í umræðu um hin svokölluð Menningarbörn er ekki verið að ráðast á hæfileika eins eða neins. Það er ekki skrítið að fólk sem baðar sig í menningartengslum frá barnsbeini eigi erfitt með að skilja raunveruleika þeirra sem gerðu það ekki. En það minnsta sem hægt er að gera er að hlusta, reyna að skilja muninn þarna á og ekki fara í vörn. Eins er það ekki skrítið að þau börn feti í fótspor þeirra sem umlykja þau allt þeirra líf. Þýðir það að þau móti ekki sína eigin hugsun, eigin sýn og eigin list? Það þýðir það alls ekki. Umhverfið þeirra tekur þó beint á móti þeim því þau eru inn í því nú þegar. Þau þurfa að sanna sig, vera með gott stöff en guð minn góður hvað það getur hjálpað að þekkja svona mikið af fólki sem getur litið framhjá skorti á hinum og þessum atriðum sem er ábótavant. Hleypir þér að. Leyfir þér að spreyta þig fyrst þú ert nú sonur Kalla leikskálds eða bara einhvers annars. Ekki satt? Hlýtur að vera.

Hinir, þessir venjulegu, þurfa alltaf fyrst og fremst að finna sér sína leið inn í umhverfið. Það er ekki litið framhjá einu né neinu. Svo ef það tekst að komast inn í umhverfið hefst fyrst baráttan um að komast vonandi að í einhverju. Taka pláss og fá rödd. Halda sér inni. Stöðug vinna sem aldrei má sofna á verðinum yfir. Það er mjög þreytandi.

- Auglýsing -

Staða hliðverðanna sem standa vörð um menningarlíf okkar hafa stórt hlutverk. Og oft hlutverk sem þeir vita ekki að þeir eru að sinna.

En hver ertu? Já, ég hef fengið þessa spurningu í ýmsu samhengi. Stundum beint en stundum óbeint. Tilfelli hafa komið upp þar sem ég ímynda mér hvort það myndi hjálpa mér að vera ekki ég en vera með sömu hugmyndir. Breytir það einhverju hvort ég á þennan pabba eða þekki þennan? Þarf ég að kalla upp nöfn þeirra sem ég þekki? Þarf ég að vera með yfir 3000 fylgjendur á Instagram? Veitir það mér meiri trúverðugleika?

Ég skrifa sem ótengdur, bitur maður á miðjum fertugsaldri. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því. Og ekki á þessi grein að vekja upp samviskubit fólks sem starfar t.d. í menningargeiranum. Mér finnst bara í lagi að hugsa upphátt um þessa hluti og kasta þeim út í kosmósið fyrir okkur til að hugsa um. En ég er samt þreyttur eins og margir aðrir sem ég þekki. Ég er þreyttur á að búa til verkefni, skapa án útkomu. Fá svör hliðverða sem verða að engu, fá vonarneista sem svo dofnar. Því ég er ekki nóg. Það er tilfinningin sem maður er skilinn eftir með. Svo læðist þessi tilfinning að manni: Er ég bara ekki nógu duglegur? Eða það sem verra er, ekki nógu hæfileikaríkur.

Mér var gefið í fæðingargjöf mikinn þorsta fyrir að vera skapandi, sjá það fallega, tjá mig með dansi, tónlist, skrifum. Ég fæddist þannig rétt eins og ég fæddist með kynþorsta fyrir öðrum karlmönnum. Svo var þetta ræktað í mér, áhuginn og hæfileikinn var spottaður og því komið fyrir í fast form með æfingum. Á foreldrum mínum að þakka fyrir það. Þau settu mig í það ferli að setja mig í umhverfið. Svo hefur það verið mín vinna á tánings og fullorðinsárum að koma metnaði og áhuga mínum eitthvert áfram. Þið vitið svo ég geti lifað og dafnað í því að gera það sem ég elska að gera. Enginn í fjölskyldunni var að feta þessa slóð. Akkúrat þessa leið. Enginn í kringum mig. Hver er þessi? Hver er hinn? Mér fannst ég koma svo glær inn í menningarlíf á Íslandi. Ég vissi ekkert og veit svo sem ekki mikið í dag heldur. En ég er að einhverju leyti inn í umhverfinu sem mér var komið fyrir í og sem ég vil vera í. Pínu eins og hauslaus hæna innan um Menningarbörnin, hin börnin, vini mína, hliðverðina, fræga fólkið, venjulega fólkið.

En spyr engu að síður. Skiptir það máli hvaðan við komum inn í það umhverfi sem við höfum fullt erindi í? Þurfum við að vera einhver? Við erum öll venjulegt fólk í grunninn.

Spurningin er hve hæfileikarík við erum náttúrulega, hve mikinn metnað við höfum til að bæta okkur og læra, hversu mikið við erum reiðubúin til að berjast. Það getur ekki verið að þetta sé alltaf spurning um hvern við þekkjum?

Gildir lögmálið ennþá: Survival of the fittest?

Lífsafkoma þeirra hæfustu.

Ég held að það sé ekki þannig. Og það er allt í lagi að pæla í því hvernig við metum hlutina, tækifærin, hæfileika og þegar allt kemur til alls – hvernig við metum fólk.

Friðrik Agni Árnason

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -