Miðvikudagur 21. febrúar, 2024
1.8 C
Reykjavik

Morðingjar í myrkviðum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ógæfa mannkyns er af ýmsum toga. Glæpir eru framdir og persónulegir harmleikir verða til. Ein af stærri ógæfum fólks er að finna í þeim ósköpum sem gerast í myrkviðum samfélagsmiðlanna. Netröllin fara gjarnan hamförum og valda harmleikjum og jafnvel dauða. Taumlaus og vægðarlaus hefndarþorsti ríkir í netheimum.

Nýlegt dæmi er að finna þar sem stúlkubarn varð fyrir einelti annarra krakka. Henni var úthúðað á alla kanta og henni ráðlagt að fyrirfara sér. Börnin sem stóðu fyrir aðförinni gerðu sér væntanlega enga grein fyrir því að í framferði þeirra og illmennsku í skjóli lyklaborðs og skjás fólst manndrápstilraun. Stúlkan gekk í gegnum vítiskvalir sem sviptu hana lífsviljanum. Barnið reyndi að fyrirfara sér. Sem betur fór lifði stúlkan af ofbeldið. Hún kom fram í sjónvarpsviðtali ásamt móður sinni og skyndilega hrökk fólk við. Morðingjar í myrkviðum netsins var eitthvað sem blasti við. Umræðan snerist stúlkunni í hag og hún fékk mikla samúð og hlýju sem vonandi endist til framtíðar.

Grimmd barnanna á samfélagsmiðlum á sér hliðstæðu hjá fullorðnu fólki sem þó ætti að vera búið að taka út þroska. Ítrekað tekur hópur fólks í drápshug upp á því að fara um netið með hrakyrðum, ofstopa og jafnvel hótunum í garð einstaklinga. Mesti æsingurinn er gjarnan í kringum þá einstaklinga sem eru annað tveggja, meint fórnarlömb eða gerendur í svonefndri MeToo-byltingu. Heykvíslarnar beinast gjarnan að báðum málsaðilum. Harðir dómar eru felldir án þess að spurt sé um rétt eða rangt. Það nægir að benda á fólk og síðan hefst aftakan. Það merkilega er að þetta fólk er í kjötheimum dagfarsprútt og ekki líklegt til illverka. Netið gerir það að umskiptingum.

nornaveiðarnar halda áfram

Nýjasta dæmið um árásir af þessu tagi snúa að tónlistarmönnunum Auðunni Lútherssyni og Bubba Morthens sem gerðu lag saman. Takmarkalaus fordæming hefur átt sér stað varðandi Auðunn sem sakaður var um að stíga yfir mörk ungra kvenna fyrir 17 mánuðum síðan. Honum var slaufað. Auðunn hefur lýst því að hann hafi leitað sér aðstoðar og reynt að skilja það sem gerðist og verða betri maður. Það dugar ekki; nornaveiðarnar halda áfram og nú hefur bæst við að Bubbi er fordæmdur fyrir að vinna með honum. Annað dæmi snýr að Helga Jóhannessyni lögmanni sem einnig steig yfir mörk. Hann missti vinnuna og sagði af sér í stjórn hjá Ferðafélagi Íslands. Helgi hefur iðrast og gert yfirbót en fær engin grið. Um myrkviðina læðist fólk sem vill halda áfram að refsa honum út fyrir gröf og dauða og útmálar hann sem illmenni.

Við erum fyrir löngu komin í öngstræti með byltinguna. Svo virðist sem engin leið sé að hætta og refsingin er komin til að vera. Við erum samt ekki nema svo sem einu sjálfsvígi frá því að eldar haturs grípi þá sem harðast ganga fram í refsingum. Sá tími mun koma að við gerum okkur grein fyrir þeim öfgum sem eiga sér stað undir gunnfána byltingarinnar. Við gerðum betur í því að róa málin og gefa fyrirgefningunni pláss þar sem hún á við. Sumt er þó auðvitað ófyrirgefanlegt.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -