Miðvikudagur 9. október, 2024
3 C
Reykjavik

Raðmorðinginn Carroll Edward var klæddur í stúlknaföt og misnotaður í kynsvallsveislum móður sinnar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Raðmorðinginn hafði fullyrt að framlenging á lífi hans væri lítið annað en sóun á peningum skattborgara. Hann hafði verið sakfelldur fyrir að myrða fimm konur og lá njörvaður niður á borði með mjúku yfirlagi í breyttum gasklefa í öryggisfangelsi í Nevada í Bandaríkjunum.

Nál hafði verið sett í annan handlegg hans og senn mundi renna um æðar hans lyfjakokteill sem samanstóð af þremur lyfjum. Raðmorðinginn, 47 ára að aldri, blikkaði augunum ótt og títt en sýndi engar tilfinningar á meðan hann beið þess sem verða vildi. Hann hafði reyndar fengið róandi skömmu áður til að hindra einhver átök þegar á hólminn væri komið.

Sautján fréttamenn fylgdust með í gegnum glugga á herberginu. Einnig voru þar átta skipuð vitni sem flest tengdust dómstólum eða löggæslunni. Reyndar var það svo að þegar raðmorðinginn leit í gegnum gluggann þá virtist hann aðeins taka eftir nærveru tveggja vitna, hjóna frá Las Vegas, Mike og Judy Newton, en þau voru þá að skrifa ævisögu hans.

Í gegnum gluggann sáu hjónin að raðmorðinginn hreyfði varirnar þegar hann horfði á hann. Síðustu orð hans til þeirra voru; „Þetta er allt í lagi.“

Andartaki síðar rann lyfjablandan inn í æð raðmorðingjans. Hann lokaði augunum, hóstaði og virtist fá krampa og tók andköf. Næstu andartökin þandist brjóstkassinn út og höfuðið sveigðist aftur. Munnurinn opnaðist lítillega og hann rifaði augun.

Að lokum lá hann hreyfingarlaus – það tók hann fimm mínútur að deyja.

- Auglýsing -

Bernska raðmorðingjans, Carrolls Edwards Cole, var ömurleg og líkt og hjá mörgum drengjum sem voru að komast á legg á fimmta áratugnum, litaðist hún af heimsstyrjöldinni síðari.

Carroll Edward fæddist 9. maí, árið 1938, í Sioux City í Iowa-ríki í Bandaríkjunum. Hann var annar sonur LaVerne og Vestu Cole og árið 1939 fæddist systir hans. Skömmu síðar fluttu LaVerne og Vesta til Kaliforníu þar sem LaVerne fékk vinnu í skipasmíðastöð. Síðan skall heimsstyrjöldin síðari á.

LaVerne gekk í bandaríska herinn og var sendur á blóðuga vígvelli þess hildarleiks sem þá ríkti um veröld alla. Allur gangur var á því sem á gekk heima á meðan bandarískir karlmenn gerðu það sem þeir gátu til að stöðva Þjóðverja og bandamenn þeirra víða um lönd.

- Auglýsing -

Móðir Carrolls Edwards var ekki hin dyggðum prýdda húsmóðir sem beið heimkomu eiginmannsins þolinmóð og trygg. Nei, því fór fjarri.

Á meðan faðir hans barðist á vígstöðvunum stundaði móðir hans kynlíf af miklum móð með hinum og þessum karlmönnum og oft og tíðum var Carroll með í för. Móðir hans neyddi son sinn til að horfa á meðan hún „skemmti“ karlkyns vinum sínum og með barsmíðum tryggði hún að hann hefði ekki orð á hegðun hennar.

Heimsstyrjöldinni síðari lauk og faðir Carrolls Edwards kom heim, en litlum sögum fer af ástandi hans. En jafnvel eftir að hann sneri heim frá vígvöllunum breyttist lítið hjá Carroll Edward og þaðan af síður hjá móður hans. Vesta hélt einfaldlega áfram uppteknum hætti, hvort heldur sem var með tilliti til ástalífs hennar eða þess líkamlega ofbeldis sem hún beitti Carroll Edward. Hvenær sem var mátti sonur hennar eiga von á barsmíðum og niðurlægingu af hálfu móður sinnar og reyndi eftir fremsta megni að fela sig fyrir henni. Einnig átti hann til að fá „black-out“ og í eitt slíkt skipti þegar hann kom til sjálfs sín hafði hann vafið streng um leikfangabangsann sinn.

Klæddur í stúlknaföt

Til að bæta gráu ofan á svart sætti drengurinn einelti í skóla og var honum stöðugt strítt vegna „stelpulegs“ nafns síns, enda Carroll óþægilega líkt kvenmannsnafninu Carol..

Carroll Edward var með háa greindarvísitölu, kom síðar í ljós, 152. En honum gekk ekki vel í skóla. Heima fyrir lét móðir hans sér ekki nægja að berja Carroll Edward í tíma og ótíma. Hún tók einnig upp á því að klæða Carroll Edward upp í stúlknaföt og síðan mátti hann þola að vera nýttur sem þjónn vina móður sinnar í kynsvallsveislum sem hún hélt.

Vinkonur Vestu fengu líka aðgang að drengnum og varð hann leiksoppur þeirra í kvalalostapartíum sem Vesta hélt iðulega. Í þeim uppákomum léku vinkonurnar sér að „mömmustelpunni“ hennar Vestu og höfðu af mikið gaman.

Með tíð og tíma ágerðist hjá Carroll Edward sú fullvissa að hann væri í raun samsekur móður sinni í framhjáhaldi hennar og kynlífsrugli. Fyrir vikið varð hann þjakaður af samviskubiti og sektarkennd. Í beinu framhaldi af því varð móðir hans ímynd alls sem hann hataði og fyrirleit.

Fyrsta morðið

Dag einn, þegar Carroll Edward var átta ára, fékk hann sig fullsaddan af tuddaskap og einelti eins jafnaldra síns. Sá var bekkjarbróðir Carrolls Edwards, Duane að nafni. Carroll Edward gerði sér lítið fyrir og drekkti Duane í stöðuvatni í Richmond í Kaliforníu.

Yfirvöld úrskurðuðu að um slys hefði verið að ræða, en sannleikurinn kom síðar í ljós þegar Carroll Edward hóf ritun ævisögu sinnar í fangelsi.

Í viðtali sagði hann þetta um atvikið: „Ég var innstilltur á þetta, ég hafði andlega skuldbundið mig til að jafna metin við móður mína, og þetta einfaldlega magnaðist sífellt og varð að þráhyggju.“

Eftir að Carroll Edward komst upp með fyrsta morðið jókst þörfin fyrir viðlíka útrás. Morðið á Duane hafði veitt honum þá tilfinningu að hann væri við stjórnvölinn, að hann væri öflugur, og hann vildi finna þá tilfinningu aftur. Carroll Edward yfirfærði takmarkalaust hatur sitt á móður sinni, og reyndar einnig ótta við hana, á annað fólk. Hann var sannfærður um að þegar fram liðu stundir mundi hann myrða hana, og engan annan, þegar hann murkaði lífið úr einhverjum öðrum.

En enn átti eftir að líða einhver tími þar til það gerðist. Cole hrökklaðist úr skóla og á unglingsárunum fetaði hann stigu smáþjófnaða og innbrota. Hann var iðulega handtekinn fyrir smáþjófnaði, drykkjuskap og læti. Eitt sinn þegar hann var handtekinn var hann sendur rakleiðis á þann stað sem hann óttaðist og hataði hvað mest í lífinu; heim til móður sinnar. Hún veitti honum ærlega ráðningu, ekki fyrir afbrotið, heldur fyrir að hafa látið hanka sig. En Carroll Edward átti eftir að verða handtekinn mörgum sinnum fyrir smáglæpi næstu árin.

Carroll Edward gekk í herinn, en árið 1958, eftir að hafa orðið uppvís að því að stela skammbyssum var honum sagt að taka pokann sinn. Árið 1960 réðst Carroll Edward á par sem lét vel hvert að öðru í bíl sem hafði verið lagt við „elskendastíg“ í Richmond. Hann lét þó ekki eitt par nægja því annað par sem var á umræddum stíg á sama tíma lenti einnig í honum.

Gerði sér grein fyrir ástandi sínu

En Carroll Edward virðist hafa gert sér grein fyrir þeirri hættu sem af honum stafaði. Skömmu síðar fór hann til lögreglunnar og upplýsti hana um að hann væri þjakaður af fantasíum um að svívirða konur og myrða þær. Hann lagði áherslu á að hann vildi helst kyrkja þær. Í kjölfarið var hann settur á geðsjúkrahæli.

Næstu þrjú árin dvaldi Carroll Edward á hinum ýmsu geðsjúkrahúsum. Hann greindur sem siðblindur og andfélagslegur, en annars heill á geði. Á því síðasta, Stockton State-sjúkrahúsinu, skrifaði læknir sem meðhöndlaði hann: „Hann virðist óttast konur og getur ekki haft samræði við þær fyrr en hann er búinn að bana þeim.“ Engu að síður samþykkti umræddur læknir útskrift Carrols Edwards af sjúkrahúsinu í apríl 1963, þrátt fyrir að hann hefði verið greindur hvort tveggja andfélagslegur og siðblindur.

Þegar Carroll Edward losnaði af geðsjúkrahúsinu flutti hann til Dallas í Texas þar sem bróðir hans bjó. Þar hitti hann Billie Whitworth, strippara sem glímdi við áfengissýki, og kvæntist henni. En hvað varðaði sýn hans á konum varð engin breyting.

Hjónabandið entist í tvö ár, en þá bar Carroll Edward eld að móteli sem þau gistu á. Ástæðan var sú að hann var þess fullviss að Billie héldi framhjá honum með öðrum karlmönnum.

Hann fékk fangelsisdóm fyrir íkveikju. Skömmu eftir að hann fékk frelsið að nýju reyndi hann að kyrkja ellefu ára stúlku í Missouri. Hann var handtekinn enn á ný og fékk fimm ára fangelsisdóm.

Að afplánun lokinn endaði Carroll Edward í Nevada. Þangað kominn gerði hann tilraun til að kyrkja tvær konur. Sennilega leist honum ekkert á blikuna því hann leitaði sjálfur á geðdeild. Læknar þar tóku eftir og skráðu áðurnefndar morðfantasíur sem hann burðaðist með. Hvað sem þeim leið þá þótti þeim ekki ástæða til að halda honum á geðsjúkrahúsinu og hann var útskráður og fór í þetta sinn til San Diego.

Myrðir „ótrúar“ konur

Að lokum fór svo að Carroll lét undan þörf sinni og ímyndun hans varð að veruleika.

Fyrsta fórnarlamb Carrolls var Essie Louise Buck. Hann hafði tekið hana á löpp á bar í San Diego í Kaliforníu 7. maí 1971. Carroll kyrkti hana í bifreið sinni og eftir að hafa ekið um með líkið í farangursrými bílsins í einhvern tíma losaði hann sig við það. Nokkrum vikum síðar myrti hann óþekkta konu og gróf lík hennar í skóglendi sem enn þann dag í dag er ekki vitað hvar er.

Síðar sagði hann að umræddar konur hefðu orðið uppvísar að ótryggð í hjónabandi og því minnt hann á móður hans. Því hefðu þær verðskuldað að deyja.

Hann leitaði fórnarlamba sinna á vertshúsum og þó margar slyppu lifandi frá kynnum við hann myrti hann hiklaust þær sem honum fannst vera „of lauslátar“. Hann hafði að eigin sögn sérstakan viðbjóð á kvæntu kvenfólki sem daðraði á börum, því það minnti hann á hans eigin móður.

Gengur í hjónaband

Árið 1973 kvæntist hann Díönu Pashal. Díana var alkóhólisti og hjónaband þeirra einkenndist af mikilli drykkju og átökum. Carroll Edward átti til að hverfa svo dögum skipti. Þá daga nýtti hann til morða og sagt er að hann hafi jafnvel snætt hluta af einu fórnarlamba sinna á þeim tíma.

Síðla árs 1979 gekk Carroll af eiginkonu sinni dauðri. Eftir tilkynningu frá áhyggjufullum nágranna mætti lögreglan á svæðið. Þrátt fyrir að lögreglan fyndi lík Díönu vafið inni í teppi og troðið inn í skáp var úrskurðað að hún hefði dáið af völdum eigin ofdrykkju! Carroll Edward var, að lokinni yfirheyrslu, sleppt úr haldi og hann ekki ákærður.

Hann yfirgaf San Diego í kjölfarið og þvældist um. Árið 1979 hitti hann konu að nafni Marie Cushman á bar í Las Vegas. Þau fóru saman á mótel þar sem þau höfðu samfarir og að þeim loknum kyrkti hann hana.

Carroll Edward fór síðan aftur til Dallas. Þar kyrkti hann þrjár konur í nóvember árið 1980. Hann var á meðal þeirra sem grunaðir voru um annað morðið, en það hafði þó engar afleiðingar fyrir hann. Lögreglan gat staðsett hann á vettvangi þriðja morðsins. Hann var þá handtekinn og settur í varðhald. Einhverra hluta vegna komst lögreglan síðan á þá skoðun að ekkert saknæmt hefði átt sér stað hvað dauða þeirra konu áhrærði.

Nánast var búið að afskrifa Carroll Edward sem morðingja í því tilviki þegar hann upp úr þurru játaði á sig það morð og hin morðin að auki.

Handtaka og málalok

Það var engu líkara en flóðgáttir himins opnuðust. Játningarnar flæddu af munni Carrolls Edwards og hann fullyrti að hann hefði framið að minnsta kosti fjórtán morð síðastliðin níu ár. Reyndar sagði hann að ekki væri útilokað að fórnarlömbin væru fleiri, en hann hreinlega myndi það ekki því hann hefði iðulega verið ofurölvi þegar hann stundaði iðju sína.

Þann 9. apríl, 1981, var Carroll Edward sakfelldur fyrir þrjú morð sem hann framdi í Texas. Hann fékk þá lífstíðardóm sem hann skyldi afplána í Huntsville-fangelsi.

Árið 1982 áformaði hann flótta úr fangelsinu, en hætti við árið 1984 eftir að honum barst bréf þar sem sagði að móðir hans væri farin yfir móðuna miklu. Þá breyttist viðhorf hans og hann samþykkti að horfast í augu við frekari ákærur í Nevada, þrátt fyrir að það gæti endað með dauðarefsingu.

Carroll Edward velktist ekki í vafa um að hans biði dauðadómur ef hann yrði fundinn sekur, en eftir að hann fékk tíðindin af láti móður virtist hann ekki sjá ástæðu til að streitast á móti því sem verða vildi. Í Nevada var hann sakfelldur fyrir að kyrkja tvær konur, aðra árið 1977 og hina 1979. Þegar dauðadómurinn var kveðinn upp sagði hann: „Þakka þér fyrir, dómari.“ Hann áfrýjaði ekki dauðadómnum sem kveðinn var upp yfir honum og skeytti engu um mannréttindahópa sem vildu tala máli hans.

Síðasta máltíð hans samanstóð af steiktum risarækjum, frönskum kartöflum, salati með franskri sósu og rjómalagaðri Boston-soppu. Kvöldið áður hafði hann beðið um Kentucky Fried Chicken, en fékk kjúklinganagga því matur á beini var bannaður í fangelsinu.

Carroll Edward eyddi síðustu stundum lífs síns með því að taka í spil með fangelsisprestinum.

Þann 6. desember árið 1985 var hann tekinn af lífi með banvænni sprautu vegna sextán morða sem sannað þótti að hann hefði framið.

Sem fyrr segir tók dauðastríðið fimm mínútur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -