Miðvikudagur 9. október, 2024
3 C
Reykjavik

Raðmorðinginn sem gróf fórnarlömbin í eyðimörkinni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á árunum 1957 og 1958 var Los Angeles-borg í greipum óttans. Einkum og sér í lagi voru ungar konur, sem hugðu á frama í kvikmyndum, með böggum hildar því í borg englanna gekk lausum hala morðingi einn sem haldinn var miklum kvalalosta. Hann lagði einkum snörur sínar fyrir ungar konur, þóttist vera ljósmyndari og sagðist geta opnað þeim leið inn í heim kvikmynda og frægðar með því að taka af þeim myndir sem síðar mundu birtast í tímaritum. Einnig átti hann til að auglýsa í einkamáladálkum dagblaða og óska eftir stefnumóti.

Morðinginn fékk viðurnefnið „glanspíubaninn“, en hann hét Harvey Glatman.

Það var litlu láni að fagna hjá grunlausum konunum sem festust í snöru Harveys því í stað myndatöku eða stefnumóts þá voru þær bundnar og þeim stillt upp fyrir glansmyndatöku að hætti Harveys sem síðan beitti þær kynferðislegu ofbeldi. Þegar hann var búinn að fá nóg af þeim kyrkti hann þær til dauða og losaði sig að lokum við líkin úti í eyðimörkinni.

Það virtist ljóst frá upphafi að Harvey Glatman gekk ekki heill til skógar í andlegu tilliti. Harvey fæddist 1927 í Bronx en ólst upp í Denver í Colorado. Ungur að árum hóf hann að misþyrma sjálfum sér með ýmsum hætti og beindist athygli hans að mestu leyti að eigin kynfærum. Í framhaldsskóla byrjaði Harvey tilraunir með sjálfkæfingu til að ná meiri kynferðislegri fullnægju, en þrátt fyrir þessar undarlegu hneigðir tókst honum að fá ágætis einkunnir og ekki bar á agavandamálum svo neinu næmi. Reyndar var talið að þessi sjálfkæfing hafi byrjað þegar Harvey var fjögurra ára.

Innbrot og veskjastuldur

Þessi hegðun fór reyndar ekki fram hjá foreldrum hans og hófst þegar Harvey var um þriggja ára gamall. Móðir hans, Ófelía, sagði: „Þegar hann [Harvey] var þriggja ára, tók eftir nokkrum tilfellum undarlegrar hegðunar,“ og bætti við að hann hefði sýnt tilhneigingu til sadómasískra kynferðislegra athafna.

- Auglýsing -

Síðar sagði Harvey sjálfur í ævisögu sinni, sem Michael Newton skrifaði: „Það virðist sem ég hafi alltaf verið með reipispotta á milli handanna þegar ég var strákur. Ég giska á að ég hafi verið einhvern veginn heillaður af reipi.“

Eftir að fjölskylda Harveys flutti til Denver tók móðir hans eftir því að hann var afskaplega feiminn við stúlkur. Honum var oft strítt í skóla en með tímanum tók Harvey upp undarleg „áhugamál“. Þeirra á meðal voru innbrot og einnig tók hann upp á því að stela veskjum af konum og ráðast á þær ef sá var gállinn á honum.

Að sögn var Harvey aðeins tólf ára þegar hann hóf að elta konur heim og neyða þær síðan til að hleypa honum inn, jafnvel með því að veifa skammbyssu. Þegar hann var kominn inn batt hann þær og níddist á þeim.

- Auglýsing -

Harvey handtekinn

Þessa iðju stundaði Harvey á unglingsárum sínum auk innbrota og annarra smáglæpa.. Hann braust inn í íbúðir kvenna, fjötraði þær og áreitti og tók af þeim ljósmynd til minja. Árið 1945 var hann handtekinn fyrir að hóta konu með skammbyssu og skipa henni að afklæðast. Harvey var ákærður fyrir tilraun til innbrots, en sleppt gegn tryggingu þar til mál hans yrði tekið fyrir. Þetta bakslag hafði ekki mikil áhrif á Harvey og hann lét sér atvikið ekki að kenningu verða. Á meðan hann beið réttarhaldanna svipti hann aðra konu frelsi og áreitti hana með fyrrgreindum hætti áður en hann sleppti henni. Í þetta sinn var Harvey dæmdur til átta mánaða fangelsisvistar.

Harvey var iðulega handtekinn, en sat aldrei lengi inni fyrir afbrot sín. En meðan á einni fangelsisdvöl hans stóð var um hann sagt að hann væri „siðblindur persónuleiki og geðklofinn og afbrigðilegar kynferðislegar hvatir hans væru grunnurinn að glæpum hans.“

Þegar einni afplánun Harveys lauk, flutti hann til Albany í New York og árið 1947 var hann handtekinn þar fyrir að hafa í fleirgang rænt fólk á götum úti. Hann var dæmdur til fimm til tíu ára fangelsisvistar í Sing Sing-fangelsinu, og gert að sæta geðrannsókn. Niðurstaða geðlækna var að Harvey væri geðvillingur, en engu að síður var hann fyrirmyndarfangi og var að lokum sleppt úr fangelsi 1956. En þrátt fyrir sálfræðiaðstoð fór því fjarri að Harvey væri læknaður og ferill hans var rétt að hefjast. Eflaust má til sanns vegar færa að afbrigðilegar hvatir hans hafi eflst þann tíma sem hann var á bak við lás og slá. Árið 1957 flutti Harvey til Los Angeles í Kaliforníu og þess var skammt að bíða að hvatir hans tækju öll völd.

Þóttist vera glamúrljósmyndari

Það var í Los Angeles sem Harvey fór að stunda ljósmyndun af einhverju viti og einnig sá hann sér farborða með því að gera við sjónvörp – og glæpir hans urðu sífellt alvarlegri. Það var í Los Angeles sem Harvey tók upp á því að þykjast vera glamúrljósmyndari og narra ungar konur sem hugðu á frama í kvikmyndum eða fyrirsætuferil.

Fyrsta fórnarlambið var 19 ára fyrirsæta, Judy Ann Dull að nafni. Harvey hitti Judy Ann fyrst þegar hann kom á heimili hennar, sem hún deildi með öðrum ungum konum, til að gera við bilað sjónvarpstæki. Hann spurði Judy hvort hún hefði áhuga á að vera fyrirsæta vegna ljósmynda fyrir sakamálatímarit. Þannig var mál með vexti að einmitt á þeim tíma var Judy Ann á kafi í kostnaðarsamri forræðisdeilu við eiginmann sinn. Þau voru skilin að borði og sæng en á milli hjónanna var bitbeinið sem þau rifust um; barnung dóttir sem var orðin þungamiðjan í hatrammri deilu foreldra sinna.

Tvö fórnarlambanna: Shirley Ann Bridgeford og Judy Ann Dull.

Harvey hafði samband við Judy Ann Dull í kjölfar sjónvarpsviðgerðarinnar og spurði hvort hún hefði áhuga á að sitja fyrir í myndatöku vegna forsíðu á bók, ástarsögu nánar tiltekið. Judy Ann þurfti ekki að hugsa sig lengi um þegar „ljósmyndarinn“ bauð henni 50 bandaríkjadali fyrir vikið, enda munaði hana um allan aur.

Judy Ann sló til.

Þegar Harvey kom til að sækja Judy Ann vegna myndatökunnar vakti hann engan ótta eða grun hjá samleigjendum Judy Ann – lítil hætta virtist stafa af þessum litla gleraugnaglámi.

Allt virtist með eðlilegum hætti fyrst eftir að Harvey og Judy Ann komu á heimili Harveys. Í ljósi þess að myndatakan var fyrir reifara var Judy Ann ekkert hissa þegar Harvey batt hana á höndum og fótum, en þess var skammt að bíða að atburðarásin tæki aðra og óhugnanlegri stefnu.

Óttinn heltók Judy Ann og ekki að ástæðulausu því Harvey nauðgaði henni ítrekað og misþyrmdi á fleiri vegu.

Harvey var 29 ára þegar þarna var komið sögu og að sögn missti hann sveindóminn þar og þá.

Að lokum ók Harvey með Judy Ann á afvikinn stað í eyðimörkinni fyrir utan Los Angeles. Þar kyrkti hann hana og gróf líkið. Sagan segir að Harvey Glatman hafi skreytt veggi svefnherbergis síns með ljósmyndum af Judy Ann, en hann hungraði í meira og var aldeilis kominn á bragðið.

Fann fórnarlömb í gegnum smáauglýsingar

Harvey nýtti sér smáauglýsingar til að finna næsta fórnarlamb sitt. Einn smáauglýsingaflokkurinn var ætlaður „einmana sálum“ og í gegnum hann rak á fjörur Harveys, sem notaði dulnefnið George Williams, 24 ára, fráskilda konu og fyrirsætu, Shirley Ann Bridgeford.

Shirley Ann samþykkti að fara á stefnumót með Harvey og þegar hún settist upp í bifreið hans gerði hún ráð fyrir að áfangastaðurinn væri notalegt veitingahús eða dansstaður. Sú varð ekki raunin og á hana runnu tvær grímur þegar hún sá að leiðin lá út í eyðimörkina.

Þegar á áfangastað var komið beið Harvey ekki boðanna heldur fjötraði Shirley Ann, tók af henni ljósmyndir, níddist á henni kynferðislega þar til hann var búinn að fá nægju sína og kyrkti hana að því loknu.

Síðar sagði Harvey við lögregluna: „Ég lét þær krjúpa. Það var eins með þær allar. Ég hélt þeim í skefjum með skammbyssunni og batt saman ökklana á þeim. Síðan gerði ég lykkju á reipið og setti það um hálsinn á þeim. Síðan stóð ég yfir þeim og togaði í endann þar til þær hættu að brjótast um.“

Harvey hafði ekki einu sinni fyrir því að grafa líkið af Shirley Ann heldur skildi það eftir þannig að það varð skepnum og veðrum að bráð.

Mistókst, en reyndi aftur

Í gegnum fyrirsætuumboð fann Harvey sitt næsta fórnarlamb, Ruth Mercado, 24 ára að aldri. Ruth hafði auglýst eftir fyrirsætustörfum og Harvey rak augun í auglýsinguna og setti sig í samband við hana.

Þegar Harvey kom til að sækja Ruth á fyrirfram ákveðnum tíma sagði Ruth að hún væri hálfslöpp og treysti sér ekki í myndatöku sökum þess. Harvey varð frá að hverfa. Hann gat þó ekki hugsað sér að Ruth slyppi og sneri því aftur að heimili hennar nokkrum klukkustundum síðar.

Í það skiptið hringdi hann ekki dyrabjöllunni heldur braust inn og á meðan hann nauðgaði henni ítrekað hótaði hann henni með skammbyssu sem hann rakk upp í andlitið á henni. Þannig gekk það sem eftir lifði dagsins og alla næstu nótt. Þá neyddi Harvey Ruth út í bíl og ók síðan út í eyðimörkina þar sem hann myrti hana með hefðbundnum hætti.

Það sorg- og kaldhæðnislega við morðin á Judy Ann, Shirley Ann og Ruth var að myndir af þeim birtust á síðum glæpasagnatímarita. Enginn sem sá þær myndir gerði sér grein fyrir að um var að ræða ljósmyndir af fórnarlömbum vitstola morðingja, og að engin þeirra hafði þurft að kemba hærurnar að ljósmyndun lokinni.

Um morðið á Ruth Mercado sagði Harvey síðar: „Hún var sú sem ég kunni afar vel við. Þess vegna sagði ég henni að við værum að fara á fáfarinn stað úti í eyðimörkinni þar sem ég gæti tekið fleiri myndir án þess að við yrðum ónáðuð. Við ókum út til Escondido og vörðum lunganum úr deginum þar í eyðimörkinni. Ég tók ótal myndir og reyndi að finna út hvernig ég gæti sleppt því að myrða hana. En ég fann ekkert svar við þeirri spurningu.“

Sú síðasta slapp með skrekkinn

Harvey hélt að hann væri kominn með óbrigðula leið til að stunda óhugnanlega iðju sína, en annað átti eftir að koma í ljós.

Harvey hafði samband við 28 ára fyrirsætu, Lorraine Vigil, í gegnum umboðsskrifstofu og þau sammæltust um að hittast vegna myndatöku í júlí, árið 1958. Lorraine settist upp í bifreið Harveys, en fljótlega vöknuðu hjá henni grunsemdir og áhyggjur því Harvey ók ekki í átt til Hollywood heldur í gagnstæða átt. „Ég varð þó ekki alvarlega áhyggjufull fyrr en við komum á Santa Ana-þjóðveginn og hann jók hraðann allverulega. Hann svaraði engum af spurningum mínum og leit ekki einu sinni á mig,“ sagði Lorraine síðar.

Hvort það var út af eilífum spurningum Lorraine eða hluti af ráðagerð Harveys þá tók hann þá ákvörðun skyndilega að aka út í vegkant. Fullyrti hann að það hefði sprungið dekk. Vart hafði bifreiðin stöðvast þegar Harvey dró upp byssu úr pússi sínu og miðaði beint á Lorraine á meðan hann reyndi að koma á hana böndum.

Lorraine Vigil: Tókst á við morðingjann og slapp.

Lorraine var ekki á þeim buxunum og náði taki á skammbyssuhlaupinu og reyndi að ná byssunni af Harvey. Þetta kom Harvey í opna skjöldu og hann lofaði að sleppa Lorraine og leyfa henni að lifa ef hún léti af þessum átökum.

En Lorraine var ekki fædd í gær og lét ekki blekkjast. Í átökunum hljóp skot úr byssunni. Skotið fór í gegnum pils Lorraine og straukst við annað læri hennar.

Þessum slagsmálum lauk þegar Lorraine beit í hönd Harveys og náði þannig af honum byssunni. Leikurinn hafði snúist við og skyndilega horfði Harvey beint inn hlaup eigin skammbyssu.

Lorraine til mikils happs þá átti vegalögreglan leið þarna hjá og henni tókst að vekja athygli á ógöngum sínum.

Játaði allt

Lögreglan handtók Harvey fyrir árásina á Lorraine og einhverra hluta vegna játaði hann á sig morðin þrjú, á Judy Ann, Shirley Ann og Ruth.

Svo fór að Harvey sýndi lögreglunni hvar hann geymdi áhaldatösku sem innihélt margt sem tengdist ódæðum hans. Þar á meðal voru ljósmyndir af fórnarlömbum hans og aðrir minjagripir á borð við skilríki og nærfatnað.

Úti í eyðimörkinni: Glatman vísar lögreglunni á gröf.

Harvey talaði opinskátt um glæpi sína og síðar, þegar réttað var yfir honum, lýsti hann sig sekan og krafðist þess ítrekað að hann yrði dæmdur til dauða. Hann reyndi meira að segja að koma í veg fyrir að allir þeir sem hlotið hefðu dauðadóm í Kaliforníu fengju sjálfkrafa heimild til áfrýjunar.

Hvað sem því líður þá varð Harvey Glatman að ósk sinni því hann var tekinn af lífi í gasklefa í San Quentin-fangelsinu þann 18. september, 1959, og þar með lauk óhugnanlegum ferli „glanspíubanans“.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -