Fimmtudagur 28. mars, 2024
0.8 C
Reykjavik

Skjólið felst í frelsinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir / Hönnu Katrínu Friðriksson

Það er skjól í hversdagsleikanum, í þessu venjulega. Ekki síst á átakatímum. Þá er þægilegt að falla inn í hópinn, ekki kalla á athygli, ekki vera til vandræða. Í þessum einfalda sannleika felast ýmsar hættur. Fyrir einstaklinga, fyrir hópa og fyrir samfélög. Jafnvel fyrir lýðræðið.

Heimsbyggðin hefur tekist á við fjölmargar áskoranir í tengslum við kórónufaraldurinn. Það segir sitt um alvarleika málsins að gamalgróin lýðræðisríki hafa mörg hver gripið til aðgerða sem einhvern tíma hefðu þótt óhugsandi, að minnsta kosti á friðartímum. Stór hluti íslensku þjóðarinnar hugsaði sig ekki tvisvar um áður en smitrakningarforrit stjórnvalda var tekið í notkun. Til viðbótar virðast margir þeirra sem þó hikuðu, hafa komist að þeirri niðurstöðu að tilgangurinn helgaði meðalið. Og þetta var alls ekki stórt stökk, því við vitum að samfélagsmiðlarnir vita allt um okkur sem þeir vilja vita. Heiðarlegt, venjulegt fólk þarf ekki að hafa nokkrar áhyggjur af öllu þessu eftirliti. Eða hvað?

Það er ekki spurning að vilji fólks til að aðstoða við að vinna bug á kórónuveirunni skipti hér höfuðmáli. En við erum líka orðin helst til of værukær og leggjum litla áherslu á að standa vörð um þau grundvallarréttindi okkar sem felast í friðhelgi einkalífsins og almennri persónuvernd.

„Það er gömul saga og ný að stjórnvöld eiga það til að búa til sameiginlegan óvin almennings þegar það hentar. Samfélagsmiðlar og vaxandi eftirlitsiðnaður geta reynst öflug tæki á þeirri vondu vegferð.“

Okkur ber hins vegar ekki aðeins skylda til að vernda réttindi og hagsmuni þeirra sem fylgja lögum og reglum og skera sig ekki úr fjöldanum. Annað hlutverk samfélagsins og sannarlega engu ómerkilegra, er að vernda hag þeirra sem falla ekki í hópinn. Sama af hvaða ástæðum það er. Kannski með því að brjóta gegn viðurkenndum reglum. Kannski bara með því að vera öðruvísi.

Það er gömul saga og ný að stjórnvöld eiga til að búa til sameiginlegan óvin almennings þegar það hentar. Samfélagsmiðlar og vaxandi eftirlitsiðnaður geta reynst öflug tæki á þeirri vondu vegferð. Dæmin eru víða. Í Bandaríkjunum vinna stjórnvöld hratt og örugglega að því að eyða áunnum réttindum trans fólks og í Póllandi versnar ástandið sífellt, hvort sem um er að ræða aðför að hinsegin fólki eða herta þungunarrofslöggjöf. Alls konar aðrir minnihlutahópar eiga víða undir högg að sækja. Mótmælin í Bandaríkjunum, þau mestu frá því að Martin Luther King var myrtur árið 1968, eiga sér ekki stað í tómarúmi. Þegar allt er lagt saman, þá er stór hluti þjóða ekki lengur „venjulegur“ og sannarlega ekki í skjóli.

- Auglýsing -

Hið eiginlega skjól felst í því að við stöndum alltaf vörð um áunnið persónufrelsi. Gefum það ekki eftir baráttulaust, sama í hversu smáu það er. Um það hlýtur hin endanlega sátt samfélags að ríkja. Ekki aðeins þegar vegið er að okkar frelsi, heldur líka þegar vegið er að frelsi annarra. Við getum verið í þeirra sporum á morgun.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.

Viltu birta pistil á man.is? Sendu okkur línu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -