Föstudagur 29. mars, 2024
2.8 C
Reykjavik

„Alltaf verið að reyna að laga mig“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Signý Rós Ólafsdóttir hlaut verðlaun sem Outstanding woman director á kvikmyndahátíðinni Winter Film Awards International Film Festival í New York í vor fyrir útskriftarverkefni sitt úr Kvikmyndaskóla Íslands, aðeins tvítug að aldri. Fyrir nokkrum árum hefði hana þó ekki grunað að hún yrði á þessum stað í tilverunni því hún passaði engan veginn inn í skólakerfið og segist í grunnskóla sífellt hafa fengið þau ósögðu skilaboð að hún væri heimsk. Í tíunda bekk kom í ljós að hún er með lesblindu og athyglisbrest, sem í dag er greint ADHD sem hafði verið ógreint öll þessi ár og það breytti ýmsu.

Spurð hvort viðmótið sem hún mætti í skólakerfinu hafi brotið sjálfsmynd hennar segir Signý Rós engan vafa leika á því.
„Já, það gerði það,“ segir hún hugsi. „Af því manni fannst maður alltaf vera að klúðra öllu og mamma og pabbi voru á endalausum foreldrafundum út af mér. Það var alltaf verið að reyna að laga mig til að ég passaði inn í rammann. Skilaboðin voru: Þú mátt vera eins og þú vilt svo lengi sem það hentar okkur og passar inn í formið okkar. Það var bara ekkert vit í þessum misvísandi skilaboðum.

„Það var alltaf verið að reyna að laga mig til að ég passaði inn í rammann.“

Svo kom maður heim og átti að læra einhverja stærðfræði sem öllum fannst svo auðveld en fyrir mér voru þetta algjör geimvísindi, ég sat bara og starði á bækurnar. Og þegar allir aðrir segja að þetta sé auðvelt þá finnst manni maður auðvitað bara vera heimskur að geta það ekki en á þeim tíma hefði ég vel geta talið upp alla leikmenn í ensku deildinni og þá sérstaklega í Liverpool, það var eitthvað sem ég hafði áhuga á. Annars hafði ég lengi lifað í þeirri trú að ég væri vitlaus og heimsk áður en ég byrjaði í Kvikmyndaskólanum.“

Til liðs við Geðhjálp

Nú hefur Signý Rós gengið til liðs við Geðhjálp og mun þegar COVID-19 ferðast milli grunnskóla landsins og segja sögu sína til að hvetja og styrkja þau börn sem verða út undan í skólakerfinu. „Ég var að vinna fyrir ADHD-samtökin, eins og ég sagði áðan og leitaði til alls konar fólks sem veit meira um það málefni en ég,“ útskýrir Signý Rós. „Ég sendi meðal annars skilaboð á Héðin Unnsteinsson formann Geðhjálpar til að fá spjall við hann. Við hittumst og áttum mjög gott spjall og svo var hann bara búinn að bóka fund með Grími framkvæmdastjóra hjá Geðhjálp. Þegar til kom mætti Héðinn hins vegar ekki á fundinn og við Grímur höfðum aldrei hist þannig að við vissum eiginlega ekki hvernig við ættum að nálgast umræðuna, en svo kom í ljós að þeir höfðu verið að ræða það að fá mig með sér í ferð í skóla hringinn í kringum landið til að segja mína sögu af skólakerfinu og að það sé hægt að ná langt þótt maður nái ekki að leysa jöfnur og að það sé hægt að gera góða hluti þótt maður sé ekki góður í dönsku og funkeri ekki alveg í átta til þrjú skólakerfi.

Þetta er flókið og það eru allir að gera sitt besta, ég hef alla vega aldrei hitt manneskju sem er eitthvað að reyna að standa sig illa, þetta er greinilega bara það stórt vandamál sem aðeins þarf að hrista upp í og skoða í kjarnann. Það eru nefnilega ekki allir eins og sama kerfi og hugmyndafræði hentar ekki öllum.“

- Auglýsing -

Lestu viðtalið í heild sinni.
Viðtalið má líka nálgast í blaði Geðhjálpar

Sjá einnig www.39.is. Þar getur þú skrifað undir áskorun þess efnis að setja geðheilsu í forgang í samfélaginu.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Einnig er hægt að leita til Píeta samtakanna og síminn opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan www.pieta.is.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -