Sunnudagur 8. desember, 2024
6.8 C
Reykjavik

Sjórinn er upphaf alls lífs

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Urta Islandica þróar jurtabragðbætt, kolsýrt og steinefnaríkt drykkjarvatn úr köldum jarðsjó. Fimm fjölskyldumeðlimir koma að rekstrinum og hlakka þau til að takast á við næstu áskoranir.

Fyrirtækið Urta Islandica er í startholunum með að framleiða jurtabragðbætt, kolsýrt og steinefnaríkt drykkjarvatn sem er unnið úr köldum jarðsjó. Stofnandi þess er Þóra Þórisdóttir en hún ólst upp fyrir vestan og norðan þar sem tengslin við náttúruna voru mikil í barnæsku.

Vegna fámennis og fábreytni hófu hún og systur hennar snemma að nýta allt sem þær fundu í fjöru og á landi sem efnivið í allskonar föndur og leiki. Þessir æskuleikir áttu vafalaust stóran þátt í þeim verkefnum sem hún tók þátt í síðar á lífsleiðinni, ekki síst með þróun jurtafyrirtækisins Urta Islandica sem sérhæfir sig í framleiðslu á jurtatei, jurtasalti og jurtasírópi sem matargjafavörur á ferðamannamarkað. „Árið 2013 stofnaði ég formlega eignarhaldsfélagið Urta Islandica ehf. með fjölskyldu minni og við höfum unnið saman í fyrirtækinu síðan. Tveimur árum eftir stofnun þess fluttum við framleiðsluna til Keflavíkur. Við létum bora holu ofan í hraunið á lóðinni til að fá upp ferskan sjó sem við létum rannsaka og í ljós kom að hann var hreinn, tær og ómengaður. Upphaflega hugmyndin var að framleiða bað- og spavörur úr steinefnunum úr sjónum. Fljótlega var ljóst að það yrði mikið magn afgangs af steinefnaríku afsöltuðu sjóvatni og eftir nokkra rannsóknarvinnu ákváðum við að fara í nýtt þróunarverkefni til að nýta þetta vatn og markaðssetja sem drykkjarvatn.“

„ … næringarsérfræðingar, m.a. hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO, telja að það sé veruleg heilsubót af því að drekka steinefnaríkt vatn frekar en steinefnasnautt.

Hlaðið steinefnum
Hugmynd teymisins er að selja sjóvatnið í þremur styrkleikum, bæði kolsýrt og ókolsýrt, bragðbætt með jurtum og hreint, og pakka því í endurvinnanlegar glerflöskur. „Það sem vatnið hefur fram yfir venjulegt íslenskt vatn er að það er hlaðið steinefnum úr sjónum en steinefnin í sjónum eru í sömu hlutföllum og steinefnin í blóði okkar. Því ætti sjóvatnið að vera góður kostur fyrir þá sem vilja ekki rugla í steinefnabúskapnum sínum með því að taka inn stök steinefni. Sjóvatnið vökvar líkamann vel og margir næringarsérfræðingar, m.a. hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO, telja að það sé veruleg heilsubót af því að drekka steinefnaríkt vatn frekar en steinefnasnautt. Þá eru margir á því að steinefnaríkt vatn sé auk þess bragðbetra.“

Góð samvinna
Það er óhætt að segja að samvinna fjölskyldunnar einkenni fyrirtækið en fimm meðlimir fjölskyldunnar starfa þar með einum eða öðrum hætti. „Utan mín má fyrst nefna Sigurð Magnússon eiginmann minn sem er iðnaðartæknifræðingur og snillingur í tölvum, tækjum, smíði og reddingum. Hann lætur hlutina gerast, verkstýrir og heldur utan um ferla og skráningar.“

Stjórnarformaður fyrirtækisins er Guðbjörg Lára dóttir þeirra sem hefur að sögn Þóru yfirumsjón með allri hönnun og markaðsmálum en þessi tvö svið eru samofin hjá fyrirtækinu að hennar sögn. „Lára er með næmt fagurfræðilegt auga, hugmyndarík og með ómetanlegt innsæi inn á markaðinn. Hún er hamhleypa til verka, góð í samskiptum og mun stýra því hvernig jarðsjóvatnið okkar mun líta út og verða markaðssett.“

Kolbeinn Lárus, sonur þeirra hjóna, er nýútskrifaður flugvélaverkfræðingur og segir Þóra hann smellpassa í verkefnið. „Hlutverk hans er að halda utan um og aðlaga þá tækni sem við munum nota við að afsalta sjóinn, setja upp og prófa vinnslulínu ásamt því að gera tilraunir og búa til prótótýpurnar.“

- Auglýsing -

Yngsti sonurinn heitir Þangbrandur Húmi sem Þóra segir vera þann allra fjölhæfasta í hópnum. „Hann vinnur með okkur á öllum sviðum verkefnisins, hefur umsjón með gæðamálum og birgðamálum. Hann sér einnig um að finna tæki, tól og umbúðir til vinnslunnar.“

Áskorun að treysta
Hún segir þátttökuna í hraðlinum gefa þeim tækifæri til að opna hugmyndina fyrir öðrum, stækka tengslanetið og miðla af þekkingu sinni til annarra í leiðinni. „Helsta áskorunin í byrjun er að treysta og segja frá því hvað við erum að gera því við erum öll „intróvertar“ og höfum hingað til verið svolítið út af fyrir okkur. Fyrst og fremst vonast ég eftir ólíkum sjónarhornum og góðum ráðum sem munu nýtast okkur við framleiðsluna og markaðssetninguna.“

Bjartsýn á framhaldið
Mögulegir viðskiptavinir er breiður hópur segir Þóra og nefnir m.a. alla þá sem vilja fá meiri heilsuávinning úr flöskuvatni eða gosi. „Ef við reynum að sérhæfa okkur þá liggur beinast við að skoða ferðamannamarkaðinn þar sem við erum fyrir með vörur okkar og einnig veitingahúsin. Þá eru markhópar eins og líkamsræktarfólk og hlauparar sem þurfa að endurhlaða steinefni eftir æfingar, veikt fólk og börn sem hafa misst vökva.“

- Auglýsing -

Hún er bjartsýn á framhaldið og segir teymið stefna að því að verkefnið verði orðið sjálfbært, skapi vinnu og skili hagnaði innan tveggja ára. „Á svipuðum tímapunkti viljum við líka vera byrjuð í útflutningi og vera í þeirri stöðu að varan okkar hafi vakið alvöruathygli innanlands sem erlendis, vegna einstakra eiginleika hennar og uppruna. Við bindum því miklar vonir við að þátttaka okkar í Til sjávar og sveita, hjálpi okkur að ná þeim markmiðum okkar.“

Myndatexti: Þóra Þórisdóttir og Sigurð Magnússon og börn þeirra Guðbjörg Lára, Kolbeinn Lárus og Þangbrandur Húmi.

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Til sjávar og sveita.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -