Þriðjudagur 27. febrúar, 2024
1.8 C
Reykjavik

Þorði ekki að segja frá klikkuninni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Undirstaðan í snyrtivörunum frá Beauty by Iceland eru gulrætur og rófur úr blómlegum sveitum Suðurlands.

Erna Hödd Pálmadóttir ólst upp í sveit á Suðurlandi þar sem grænmetisframleiðsla hefur staðið í miklum blóma í áratugi og varð fyrir vikið snemma meðvituð um næringargildi grænmetis. Það vakti athygli hennar á unga aldri hversu mikið af grænmetisframleiðslu fjölskyldunnar var sent til baka frá verslunum og um leið hversu mikið af grænmeti fékk aldrei að fara úr vöruhúsinu vegna útlitsgalla.

„Á þessum árum var ég farin að huga meira að heilbrigði húðarinnar og sá þá möguleikann sem var beint fyrir framan mig öll þessi ár, þ.e. að framleiða snyrtivörur úr íslensku og næringarríku grænmeti sem er útlitsgallað og ekki talið söluhæft. Fjölskyldan ræktar gulrætur og rófur sem eru ríkar af vítamínum og ég sá tækifæri í að framleiða snyrtivörur úr þeim.“

Hún ákvað því að leggja allt undir og setti á fót fyrirtækið Beauty by Iceland samhliða námi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands.

Búa yfir mikilli hollustu

Í fyrstu hóf Erna að afla sér heimilda erlendis frá þar sem rannsóknir hafa verið gerðar á hráefninu og sá þá betur hvernig hún gæti hagað framleiðslu sinni. „Ég viðurkenni það alveg að ég þorði ekki að segja neinum frá þessari klikkun til að byrja með. Mögulega hafði ég ekki trú á sjálfri mér en einnig hafa íslenskir snyrtivöruframleiðendur ekki notast mikið við matvæli í framleiðslu sinni, utan sjávarfangs, eftir því sem ég best veit.“

Undirstaðan í framleiðslunni eru gulrætur og rófur sem búa yfir mikilli hollustu að hennar sögn. „Gulrætur eru ríkar af andoxunarefnum en þau vítamín sem við varðveitum í vörunum eru A-, C- og E-vítamín auk fosfórs en þessi efni eru nauðsynleg fyrir heilsu húðar, hárs og taugar líkamanns.“

- Auglýsing -

Rófurnar eru ekki síðri að hennar sögn en þær innihalda m.a. natrín, kalín, sykrur, A-, C- og D-vítamín, kalsín, magnesíum og járn. „Þegar C-vítamíni er bætt við daglega umhirðu húðar jafnar það húðlit og ver hana fyrir sýnilegum áhrifum mengunar auk þess að bæta rakastig og viðhalda unglegri húð.“

Ótrúlega þakklátar

- Auglýsing -

Í dag starfa tveir starfsmenn hjá fyrirtækinu. Utan Ernu, sem gegnir stöðu framkvæmdastjóra, er Bóel Guðlaugsdóttir fjármálastjóri og saman vinna þær að vöruþróun. „Við höfum einnig fengið inn fagaðila að ólíkum verkefnum, t.d. efnafræðing, hönnuð og annað fagfólk á snyrtivörumarkaði.“

Hún segir þær alls ekki hafa búist við því að komast inn í viðskiptahraðalinn þegar þær skiluðu umsókninni. „Því erum við svo ótrúlega þakklátar fyrir að fá að taka þátt. Við höfum sett okkur mælanleg markmið í þróun á vörunum en þar sem framleiðslan er árstíðabundin nýtum við hraðalinn til að byggja upp markaðssetningu og vöruþróun. Það hefur verið ómetanlegt að fá innsýn í alla þá vitneskju sem þetta stórkostlega fólki býr yfir sem kemur að hraðlinum og er að aðstoða okkur. Fyrstu vikurnar hafa sannarlega farið fram úr væntingum okkar.“

Skemmtileg samkeppni

Erna segir grunngildi fyrirtækisins snúa að því að allir eigi rétt á því að líða vel með sjálfan sig og húð sína. „Því erum við fyrst og fremst að horfa til þeirra hópa sem eiga við húðvandamál að stríða. Vörur okkar munu innihalda þessi vítamín sem ég minntist á áðan en engum óæskilegum aukefnum er bætt við. Flestir vita að grænmeti er hollt og því ættu allir að geta borið það á sig líka, jafnvel borðað það.“

Mjög mikil samkeppni ríkir á snyrtivörumarkaði en Erna lítur ekki á hana sem ógn heldur segir hana bara vera skemmtilega. „Þau fyrirtæki sem eru í snyrtivöruframleiðslu á Íslandi eru mörg hver að gera stórkostlega hluti. Því tel ég að Beauty by Iceland geti einnig lært mikið af þeim í stað þess að líta á þau sem ógn, því neytandinn er að leita að mismunandi vörum sem hægt er að blanda saman.“

Margir tilbúnir að hjálpa

Aðspurð um framtíðarhorfur segir Erna stefnu fyrirtækisins vera að fá sem flesta grænmetisbændur hérlendis í lið með sér og þróa bestu snyrtivörur sem völ er á. „Til þess munum við nota hráefni sem aðrir sjá ekki tækifæri í að nota, þar með talið aðrar tegundir grænmetis sem hafa frábæra kosti fyrir húðumhirðu. Alþjóðlegur markaður er stór og ef við tökum nágrannaþjóðir okkar þá er sóun matvæla enn stærra vandamál þar. Þetta hráefni viljum við nýta í okkar framleiðslu á næstu árum.“

Hún segir íslenskt samfélag vera að vakna til meðvitundar um hversu mikils virði landbúnaður sé í raun og veru. „Þau fyrirtæki sem hafa farið í gegnum svona viðskiptahraðal eru að gera frábæra hluti og ég tel að frumkvöðlaumhverfið sé mjög opið fyrir frábærum hugmyndum. Ekki má heldur gleyma að nefna hversu margir eru tilbúnir að aðstoða með hugmyndir og vísa manni á réttan stað. Það er sannarlega mikils virði og mun leiða til enn frekari verðmætasköpunar fyrir íslenskt samfélag til framtíðar.“

Stúdíó Birtingur í samstarfi við Til Sjávar og Sveita.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -