Sunnudagur 15. september, 2024
6.6 C
Reykjavik

Ásthildur bæjarstjóri: „Akureyri er lítil borg með risastórt hjarta“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það var yndislegt að alast upp í fögru umhverfi Snæfellsness og frjálsræðið mikið í því notalega bæjarfélagi sem Stykkishólmur er,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, aðspurð um æskuár sín í Stykkishólmi. Ásthildur er þaulreynd sem bæjarstjóri eftir að hafa um árabil starfað sem slíkur í Vesturbyggð. Við spyrjum hvernig henni hafi verið tekið á Akureyri sem bæjarstjóra að vestan? 

Einarður talsmaður sameiningar

„Mér hefur verið tekið ljómandi vel og er þakklát fyrir það. Hér býr opið og skemmtilegt fólk sem tekur öllum opnum örmum. Og þar fyrir utan nýt ég auðvitað góðs af því að starfa í umboði frábærrar bæjarstjórnar“. 

Er ólíkt að vera bæjarstjóri á Akureyri og í Vesturbyggð?

„Það er mjög mikill munur á því að vera bæjarstjóri í Vesturbyggð og á Akureyri. Stjórnsýslan er auðvitað öll minni í litlu samfélagi en þar eru boðleiðirnar styttri og hlutir geta gerst hraðar. Stærri stjórnsýslueiningar eru hins vegar skynsamlegri og fela í sér umtalsvert hagræði og sparnað á skattpeningum. Ég er því mikill og einarður talsmaður sameiningar sveitarfélaga“.

Börnin helsta áhugamálið

- Auglýsing -

Hvernig eru fjölskylduhagir þínir og hver eru helstu sameiginlegu áhugamál fjölskyldunnar? 

„Ég er gift Hafþóri Jónssyni skipstjóra og útgerðarmanni. Við eigum saman eina dóttur sem er fjögurra ára og stjúpsonur minn er nítján. Við erum öll mjög náin og finnst gott að verja sem mestum tíma saman. Við ferðumst, skíðum, veiðum og förum á sjó“.

En hver eru helstu áhugamál þín?

- Auglýsing -

„Ég stunda skíði og fluguveiði. Svo hef ég mjög gaman af handavinnu og að vera í garðinum og elda mat. Annars eru börnin mín tvö helsta áhugamálið“.

Nærðu að kúpla þig frá starfinu þegar þú átt frí, og ef svo er, þá hvernig?

„Það er nánast ógerlegt að kúpla sig frá bæjarstjóranum. Það er helst að mér takist það með því að gleyma mér við að róta í mold í garðinum eða leggja flugu fyrir fisk einhvers staðar úti í óspilltri náttúrunni, allra helst fyrir vestan“.

Alltaf gott veður á Akureyri

Munurinn í hnotskurn á Akureyri og Vestfjörðum – menning, staðarhættir og stjórnsýsla?  

„Þetta eru tveir ólíkir heimar. Það er ákveðin heiðríkja yfir Eyjafirði en landslagið er hins vegar dramatískara fyrir vestan og veðurfarið allt annað. Og svo er auðvitað alltaf gott veður á Akureyri. Það er erfitt að búa við einangrun og erfiðar samgöngur eins og fyrir vestan en það er mjög lærdómsríkt. Á Akureyri er meira um að vera; leikhús, tónleikar og frábær þjónusta á öllum sviðum. Ég er Snæfellingur en maðurinn minn er Vestfirðingur og ég bjó á Patreksfirði í átta ár. Ég hef mjög sterkar taugar vestur og mér þykir óskaplega vænt um vestrið. Við fjölskyldan verjum venjulega sumarleyfi okkar á Patreksfirði“.  

Blómlegur staður að búa á

Hefur Akureyri margt umfram aðra bæi á Íslandi? Ef svo er, þá hvað?

„Það tæki of langan tíma að telja það allt upp. Sumir segja að allt sé best á Akureyri og að hér sé alltaf gott veður. Kostirnir sem ég man eftir í augnablikinu eru fólkið, veðrið, fegurð fjarðarins, stuttar vegalengdir, frábær þjónusta, blómleg menningin, góð aðstaða til íþróttaiðkunar og barnvænt umhverfi“. 

Myndirðu segja að Akureyringar væru öðruvísi en annað fólk á Íslandi? Eru þeir með ákveðin sérkenni?

„Þeir eru ósköp líkir Hólmurum. Mér finnst ég vera heima hjá mér. Við erum blátt áfram og víðsýn en á sama tíma íhaldssöm og vanaföst“. 

Vilji er allt sem þarf

Framtíð Akureyrar, verður Akureyri borg og hvernig breytir maður bæ í borg? 

„Akureyri er lítil borg með risastórt hjarta. Bæir þróast í að verða borgir en þá er líka mikilvægt að ríkið feli þeim ákveðinn hluta opinberrar stjórnsýslu, ákveðið hlutverk, leggi til fjármagn og horfi með velþóknun til uppbyggingar víðar en á höfuðborgarsvæðinu. Akureyringar vilja axla þá ábyrgð og sinna vel því hlutverki sem felst í að vera hin borgin á Íslandi. Þetta er eins og svo oft áður allt spurning um vilja – vilji er allt sem þarf“.

Innihaldsríkt líf

Telur þú að fólksfjölgun muni verða mikil á Akureyri á næstu árum og ef svo er, hverjar eru helstu forsendurnar fyrir því?

„Já, án efa. Helstu forsendurnar eru nægt framboð lóða og blómlegt atvinnulíf. Fólk vill búa á Akureyri. Hér líður því vel. Ég hef varla tölu á öllu því fólki sem hefur sagt mér að það langi að flytja til Akureyrar. Það myndi einnig flýta mjög fyrir uppbyggingunni hér og stækkun bæjarins ef sveitarfélög við fjörðinn væru sameinuð og ef ríkið myndi skilgreina og staðfesta borgarhlutverk Akureyrar í samráði við fólkið sem hér býr“.

Hvað hefur Akureyri upp á að bjóða fyrir fólk sem er að skoða þann valkost að flytjast þangað?

„Framúrskarandi þjónustu við fjölskyldufólk. Frábært veðurfar. Innihaldsríkt líf í friðsælu umhverfi. Blómlegt íþróttastarf, öflugt menningarlíf, trausta heilbrigðisþjónustu, nefndu það!“.

Ekki leitt hugann að þingi

Þú hefur verið virk í bæjarstjórnarmálum. Stefnirðu á þing í framtíðinni?

„Ég hef varla leitt hugann að því, sannast sagna. Áhuginn hefur því a.m.k. ekki enn vaknað“.

Hverjar eru helstu fyrirmyndir þínar í lífinu?

Foreldrar mínir og systkini, maðurinn minn, Edda og Magnús Gústafsson sem ég bjó hjá á námsárum mínum í Bandríkjunum. Og svo auðvitað Vigdís Finnbogadóttir“.

Skemmtilegasta lífsreynslan?

„Að róa frá Hesteyri að Hlöðuvík á Hornströndum á kajak. Það var magnað“.

Stærsta stund lífsins?

„Að eignast dóttur mína“.

Sárasta lífsreynslan?

„Að missa fólk sem mér er kært“.

Mestu vonbrigðin?

„Að eiga ekki fleiri yndisleg börn til viðbótar við dóttur mína og stjúpson“.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -