Föstudagur 11. október, 2024
1.7 C
Reykjavik

Dökk mynd af stöðu sauðfjárræktar á Íslandi – Stór hluti bænda líklegur til að bregða búi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Dregin er upp dökk mynd af stöðu sauðfjárræktar á Íslandi í nýrri samantekt Byggðastofnunar, sem unnin var að beiðni Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra og ráðherra byggðamála. Í samantekinni segir að rekstrarafkoma sauðfjárbúa, fyrir fjármagnsliði og afskriftir, hafi verið neikvæð frá árinu 2018. Ekki væri útlit fyrir að rekstur sauðfjárbúa batni á næstu árum og að óbreyttum tekjum væru forsendur sauðfjárbúskapar brotnar.

Byggðastofnun telur það hafa fjölþætt neikvæð byggðaleg áhrif hætti fólk sauðfjárbúskap. Það geti haft margfeldisáhrif á ákveðnum svæðum, þar sem leitir og önnur sameiginleg verkefni sauðfjárbænda verða þeim sem eftir sitja ofviða. Byggðastofnun nefnir sem dæmi um viðkvæm svæði Reykhólahrepp, Dali, Strandir, Húnavatnssýslur og norðausturhorn landsins.

Í samantekt um mögulegar mótvægisaðgerðir bendir Byggðastofnun m.a. á að tekjur í greininni þurfi að hækka í takt við kostnaðarhækkanir. Það verði annað hvort gert með hækkun á skilaverði afurðastöðva til bænda og þar af leiðandi hækkandi útsöluverði sauðfjárafurða eða með auknum opinberum stuðningi. Einnig verði að skoða leiðir til að lækka framleiðslukostnað en slíkar aðgerðir skili fremur ávinningi til lengri tíma litið, en verði varla til bjargar við núverandi aðstæður. Þá komi til greina að aðstoða bændur við að fara út í aðra starfsemi á jörðum sínum eftir aðstæðum á hverjum stað. Loks er bent á að huga þurfi að andlegri velferð bænda og fjölskyldna þeirra við þessar aðstæður.

Í samantektinni segir að kynslóðaskipti hafi verið fátíð á undanförnum fimm árum. Ríflega þriðjungur sauðfjárbænda með 300 fjár eða meira væri kominn yfir sextugt og er talið að stór hluti þeirra sé líklegur til að bregða búi á næstu árum.

Að mati Byggðastofnunar stefnir í að rekstrarniðurstaða meðalsauðfjárbúsins, sem hlutfall af tekjum, verði neikvæð um allt að 50% og að rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnstekjur og afskriftir verði neikvæð um 25%. Miðað við stöðu mála væri því líklegt að einhverjir sauðfjárbændur hætti búskap haustið 2022. Þeir sauðfjárbændur, sem muni halda áfram geri það í þeirri von að rekstraraðstæður batni. Gerist það ekki megi búast við því að fjölmargir sauðfjárbændur hætti búskap haustið 2023.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -