Fimmtudagur 5. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Hanna og Anders reka Mýranaut: Áhersla lögð á geðgóða nautgripi og gæðavöru

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á Leirulæk, skammt fyrir utan Borgarnes við ósa Langár, reka hjónin Hanna Sigríður Kjartansdóttir og Anders Larsen Mýranaut. Þau rækta úrvals nautgripi til kjötframleiðslu sem þau selja svo beint til neytenda. 

Mýranaut varð til þegar hjónin fluttu til Íslands frá Danmörku, var boðið að vera með í að fara út í nautgriparækt. Þau létu slag standa og hófu reksturinn árið 2007. Anders hafði alltaf viljað verða bóndi, þó að hann hafði kannski ekki séð fyrir sér að verða bóndi á Íslandi.

Þau eru fjölskyldurekið fyrirtæki. Auk hjónanna eru börnin þeirra með uppbrettar ermar með þeim. Nóg er að gera hjá þeim og gott betur en það. Hanna er kennari samhliða þjónustuhluta rekstursins og bústörfunum.

Í dag eru um 180 holdanaut hjá þeim i nautafjósinu. Nautakjötið frá Mýrarnaut er sér á parti en fóðurgjöfin skiptir þar sköpum. Kýrnar og kvígurnar bíta niðri við árósana og nærast þar meðal annars þangi og þara. Þess utan fá þær frjálsan aðgang að heyi og heilfóðri. Þau leggja mikið upp úr því að halda geðgóða nautgripi sem fæst með umhyggju og ræktun. Einstaklingar í stofninum sem sýna af sér óæskilega hegðun eru fjarlægðir og fyrir vikið geta þau rekið dýrin með hestum og klórað þeim bakvið eyrun án þess að eiga það á hættu að verða fyrir árás. Kýrnar sem ala kálfana fá að hafa þá hjá sér í allt að 9 mánuði sem skilar sér í hamingjusamari og rólegri dýrum.  

Framleiðslan snýst öll um að selja vöruna beint frá býli og hefur verið frá árinu 2009. Hanna vill geta átt í beinum samskiptum við sína viðskiptavini og þannig tryggt ánægju þeirra sem kaupa hjá þeim kjöt. Þau selja helst stærri einingar eins og heila skrokka eða hluta úr skrokkum en selja allt niður í poka af hakki ef því er að skipta.

- Auglýsing -

Gripirnir eru sendir til Hellu í slátrun og vinnslu. Þaðan er kjötið svo sent til höfuðborgarsvæðisins þar sem Hanna tekur á móti því og keyrir það út til viðskiptavina sinna þar, vikulega. Þess utan senda þau sínar pantanir um land allt.

Árið 2013 komu hjónin að stofnun verslunarinnar Ljómalindar í Borgarnesi sem selur vörur beint frá býli, til að mynda kjöt, osta, sultur og svo handverk. Síðan þá hafa þau komið að rekstrinum að nokkru leyti og er Ljómalind eini staðurinn sem þau selja vöruna sína í smærri einingum, enda hafa sælkerar áttað sig á að þar má fá gæðavörur. Þau hafa kosið að hafa annars enga milliliði þegar kemur að dreifingu þeirra kjöts því þannig geta þau sjálf ábyrgst ánægju sinna viðskiptavina. Fyrst og fremst afgreiða þau pantanir á þessum stærri einingum og bróðurpartur sölunnar gerist í gegnum www.myranaut.is, Facebook síðu Mýranauts [Mýranaut – nautakjöt | Facebook] og svo tekur Hanna símtölin í síma 868-7204

- Auglýsing -

Hanna er oft spurð út í meðhöndlun á kjötinu, geymsluaðferðum og matreiðslu og því fylgja hér nokkur af hennar bestu ráðum.

Ef nautahakk er ætlað í hamborgara er rakið dæmi að búa þá til fyrst og frysta þá svo því þá er auðvelt að grípa í þá og henda þeim beint á pönnuna eða grillið.

Best er að láta steikurnar meyrna í ísskáp í 10-14 daga áður en þær eru frystar. Það er líka ágætt að taka nautasteikurnar úr frysti 6-7 dögum áður en þær eru eldaðar og láta þær þiðna í ísskáp. Við það halda þær áfram að meyrna og verða mjúkar og safaríkar við eldun.

Það er best að elda nautakjöt þegar það er við stofuhita. Þess vegna er gott að taka það út úr ísskápnum minnst tveimur tímum áður en það er eldað. 

Við mælum með að steikurnar flatsteik og klumpur séu steiktar í heilu lagi. Fyrst brúnaðar á pönnu og svo steiktar í ofni eða á grilli. Séu þær grillaðar er gott að snöggsteikja þær á háum hita allan hringinn og síðan slökkva undir á öðrum helmingi grillsins og leggja steikina þar. Miða má við að 1 kíló af kjöti þurfi um það bil 30 mínútna steikingu eða þangað til kjötmælirinn sýnir 52-55°C.

Þegar nautasteikur eru steiktar í heilu lagi er best að láta þær hvíla í um það bil 10-15 mínútur eftir steikingu, áður en þær eru skornar. Gott er að leggja yfir þær álpappír og viskastykki á meðan beðið er og gæta þess að hafa eitthvað undir skurðarbrettinu þegar þær eru að lokum skornar til að grípa kjötsafann.

Það er ekki sama hvernig kjötið er skorið. Það á alltaf að skera nautakjöt þvert á vöðvaþræðina. Í flestum steikum liggja vöðvaþræðirnir langsum eftir allri steikinni en þessu þarf að gefa gaum.

 

Oso bucco frá Önnu.

Osso buco er ítalskur réttur, nánar tiltekið frá Mílanó. Þar er hann oft borinn fram með risotto a la Milanese en góð kartöflumús hentar líka vel sem meðlæti.

3 – 4 sneiðar af oso bucco (beinið og mergurinn gerir gæfumuninn)

Hveiti til að velta kjötinu upp úr

Smjör og ólífuolía til að steikja upp úr

1 laukur

Nokkur hvítlauksrif (eftir smekk)

1 stór gulrót

1 bolli af þurru hvítvíni

1 bolli af kjötsoði

1 dós niðursoðnir tómatar

Salt og pipar

Veltið osso buco sneiðunum upp úr hveiti og brúnið á báðum hliðum í smjöri og ólífuolíu. Takið af pönnunni á meðan laukurinn og hvítlaukurinn eru mýktir. Setjið í pott ásamt gulrótum og hvítvíni og látið malla í tíu mínútur. Þá er tómötum og kjötsoði bætt í pottinn, saltað og piprað og soðið við vægan hita í um það bil eina og hálfa klukkustund. Ausið vökvanum yfir bitana annað slagið ef þörf krefur.

Gott er að bera réttinn fram með góðri kartöflumús og gremolata sem er reyndar alveg ómissandi. Gremolata er sáldrað yfir réttinn þegar henn er kominn á diskinn.

Gremolata.

Hálfur til einn bolli söxuð steinselja

Marin hvítlaukur, 2-3 rif

Rifinn börkur af einni góðri sítónu

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -