Föstudagur 19. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Helga hjá Andlegri heilsu ræðir um geðheilsu og leiðir til að hlúa að henni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Helga Arnardóttir, eigandi Andlegrar heilsu kom í viðtal við blaðamann Mannlífs og útskýrði fyrir okkur hennar nálgun á því sem við kemur andlegum málefnum.

Helga segir að forsaga þess að hún fór út í þetta hafi verið mikill áhugi hennar á sálfræði frá því að hún var unglingur. ,,Ég barðist sjálf við mikla vanlíðan á unglingsárum auk þess að eiga fjölskyldumeðlim með geðrænar áskoranir. Þetta varð til þess að ég fékk mikinn áhuga á geðheilsu og leiðum til þess að bæta hana“.

Helga er menntuð í sálfræði og er með mastersgráðu í félags-og heilsusálfræði og vann á geðsviði Landspítalans í nokkur ár áður en hún fór í framhaldsnám í félags- og heilsusálfræði annars vegar og í jákvæðri sálfræði hins vegar. Eftir að framhaldsnámi lauk langaði hana til að miðla því sem hún hafði lært um andlega heilsu og leiðir til að hlúa að henni og bjó sér í raun til vinnu í kringum þessa ástríðu með því að stofna fyrirtækið Andleg heilsa.

,,Ég byrjaði á því að vera með fyrirlestra á vinnustöðum fyrir starfsfólk og það gekk mjög vel en ég fann að mig langaði til að kafa dýpra og vinna með fólki í lengri tíma sem varð til þess að ég fór að þróa og kenna ýmiss konar námskeið um gagnreyndar leiðir til að hlúa að andlegri heilsu“.

Helga hefur helst verið að vinna með fullorðnu fólki á öllum aldri og þá sem eru í endurhæfingu af margskonar ástæðum, eða að vinna í eigin bataferli vegna geðrænna áskorana.

 

- Auglýsing -

Vellíðan út frá nálgun jákvæðrar sálfræði, núvitundar og sjálfsumhyggju

Ljósmyndari: Hildur Ársælsdóttir

Undanfarin ár hefur Helga aðallega unnið með námskeið um andleg heilsu og vellíðan út frá nálgun jákvæðrar sálfræði, núvitundar og sjálfsumhyggju. Hún hefur unnið mikið með fólki sem er í endurhæfingu af margskonar ástæðum og með fólki sem er að vinna í eigin bataferli vegna geðrænna áskorana. Einnig hef hún undanfarin ár starfað við ráðgjöf hjá Geðhjálp þar sem hún hittir aðallega einstaklinga sem eru að glíma við geðrænan vanda eða andlega vanlíðan sem og aðstandendur þeirra. Auk þess hefur hún verið að fara á vinnustaði og halda fyrirlestra fyrir starfsfólk um aðferðir sem allir geta nýtt sér til að auka andlega vellíðan og hlúa að geðheilsunni. Hún sinnir einnig aðstoðarkennslu í jákvæðri sálfræði hjá Endurmenntun HÍ.

,,Mér finnst skipta mestu máli að einstaklingurinn sjálfur hafi sem mest að segja um hvernig lífi hann vill lifa og að þeir sem veiti þjónustu á sviði geðheilsu vinni að því að aðstoða einstaklingin við að efla eigin lífsgæði á hans forsendum“.

- Auglýsing -

,,Nálgunin sem helst hefur verið unnið út frá á geðsviðinu er að greina vandann út frá þeim einkennum sem einstaklingurinn sýnir og meðferðin snýst svo aðallega um að draga úr þessum einkennum og láta þar við sitja. Það er þó þannig að þó að einkenni geðsjúkdóms minnki eða jafnvel hverfi er ekki þar með sagt að lífsgæði einstaklingsins séu betri. Ég sá mörg dæmi um þetta þegar ég vann á geðsviðinu, stundum tókst að draga verulega úr eða jafnvel að losa einstakling við einkenni geðsjúkdóms með lyfjagjöf en lífsgæði hans voru oft ekki betri þrátt fyrir það. Þar að auki er ekki alltaf hægt að losna við einkenni geðsjúkdóms en það má þó alltaf vinna að því að auka lífsgæði einstaklinga hvort sem þeir lifa með einkennum geðsjúkdóms eða ekki“.

Helga segir þó að auðvitað finnist henni mikilvægt að draga úr einkennum sem valda einstaklingum þjáningu, málið er að það ætti ekki að láta þar við sitja heldur að verja að minnsta kosti jafn miklu púðri í leiðir til að bæta lífsgæði og vellíðan. Það er munur á því að vinna að því að losna við eitthvað neikvætt eins og vanlíðan, kvíða o.fl. annars vegar og að nálgast eitthvað jákvætt eins og vellíðan og hugarró hins vegar.

Nálgunin sem Helga vinnur út frá snýst um að hjálpa fólki að efla eigin lífsgæði óháð því hvað einstaklingurinn er að glíma við. Henni finnst mikilvægt að fólk kynnist mismunandi aðferðum til að hlúa að eigin geðheilsu og að hver og einni finni það sem virkar fyrir hann.

Þær aðferðir sem Helga hefur helst stuðs við á sínum námskeiðum eru núvitund, sjálfsumhyggja og aðferðir jákvæðrar sálfræði. Í stuttu máli þá hjálpar núvitundin okkur að sjá okkur sjálf í skýrara ljósi, að samþykkja okkur eins og við erum og að þekkja betur inn á huga okkar og tilfinningar. Sjálfsumhyggjan kennir okkur að sættast við eigin ófullkomleika og sýna sjálfum okkur meiri mildi, umhyggju og þolinmæði. Hún hjálpar okkur sérstaklega mikið á meðan við göngum í gegnum erfið tímabil og erfiðar tilfinningar. Aðferðir jákvæðrar sálfræði kenna okkur leiðir til að rækta með okkur jákvæðar tilfinningar og sinna sálfræðilegum þörfum okkar svo okkur líði betur.

Við getum haft mikil áhrif á okkar líðan

Helga segir að henni finnist mikilvægt að við áttum okkur á því að við getum haft mikil áhrif á okkar líðan og það er margt sem við getum gert sjálf til að bæta stöðuna, en hér koma nokkrir punktar sem henni finnast mikilvægir að hafa í huga varðandi þessi mál.

  • ,,Í fyrsta lagi finnst mér gagnlegt að líta á erfiðar og sársaukafullar tilfinningar sem eðlilegan hluta af því að vera mannvera en ekki alltaf merki um sjúkdóma eða raskanir. Stundum þjóna erfiðar tilfinningar tilgangi og láta okkur vita að eitthvað er ekki að ganga upp hjá okkur og að að við þurfum að breyta einhverju í lífi okkar. Mér finnst við sem samfélag hallast of mikið í þá átt að líta á sársaukafullar tilfinningar sem neikvæðar og slæmar og að við þurfum bara að losna við þær. Þetta ýtir undir að við deyfum okkur með ýmsum leiðum, t.d. með áfengi, mat, sætindum, kaupum á ýmsum óþarfa o.s.frv. í stað þess að hlusta á sársaukann og reyna að finna út hvað hann er að reyna að segja okkur“.
  • ,,Í öðru lagi finnst mér mikilvægt að við hlúum að mismunandi þörfum sem við höfum öll eins og t.d. þörfin fyrir hreyfingu, félagslega samveru, nægan svefn og hvíld, góða næringu, áhugamálum o.s.frv. Það hefur neikvæð áhrif á lífsgæði okkar þegar við vanrækjum þarfir okkar og þegar við förum að sinna þeim betur fer okkur yfirleitt að líða betur. Þetta tengist því sem ég talaði um hér að ofan því óþægilegar tilfinningar þjóna oft þeim tilgangi að láta okkur vita að við erum að vanrækja þarfir okkar og þurfum að hugsa betur um okkur“.
  • ,,Í þriðja lagi finnst mér mikilvægt að vinna markvisst með ákv. æfingar eða aðferðir sem hafa góð áhrif á geðið okkar. Þetta getur t.d. verið að stunda hugleiðslu, gera þakklætis-æfingar, rækta vináttubönd, leiða hugann að því góða í kringum okkur, greina styrkleika okkar o.s.frv. Þessir hlutir ýta undir jákvæðar tilfinningar og vellíðan“.

 

Hvað úrræði finnst þér vanta?

Í starfi Helgu hjá Geðhjálp hittir hún fyrir marga sem eru að leita að viðeigandi úrræði fyrir sig eða aðstandanda sinn. Það kemur því stundum upp að það vantar ákveðin úrræði. Samfélagið okkar býr þó yfir ýmsum úrræðum fyrir mismunandi hlutum sem fólk þarf aðstoð með, svo það er ýmislegt sem er vel gert varðandi þetta.

Helgu finnst helst vanta úrræði sem fólk getur leitað í þegar það er í mikilli geðrænni krísu og treystir sér ekki til að vera eitt heima meðan hún gengur yfir. Eins og staðan er núna er það í raun bara bráðamóttaka geðsviðs sem sinnir þessu, en þangað leita margir og ekki nærri því allir sem fá þjónustu þar sem óska eftir henni.

Þar er spítalinn ekki alltaf heppilegasta úrræðið fyrir fólk þegar það er að ganga í gegnum mikla tilfinninga- eða geðræna krísu. Þar er talsverð áhersla lögð á lyfjagjafir og meðan þær gagnast fólki oft amk. tímabundið, þá geta svona krísur liðið hjá án lyfja auk þess sem margir vilja ekki taka inn geðlyf en myndu samt gjarnan vilja fá aðstoð.

Hún myndi því vilja sjá fleiri tegundir af úrræðum fyrir einstaklinga sem eru að ganga í gegnum tímabundna erfiða krísu þar sem hægt er að fá ákv. utanumhald, hlýju og umhyggju án þess að krísan sé túlkuð sem sjúkdómsástand.

 

Þeir einangra sig mikið félagslega

Ljósmyndari: Hildur Ársælsdóttir

Annað sem Helga hefur orðið vör við í starfi sínu hjá Geðhjálp er að talsvert er um það að unglingsstrákar og ungir menn einangri sig inni í herbergi oftast í tölvu og hellast úr lestinni í lífinu. Þeir einangra sig félagslega, hætta í skóla og treysta sér ekki í vinnu.

Þetta vindur svo upp á sig þannig að með tímanum verður erfiðara og erfiðara að brjóta upp þetta munstur og fara aftur út á meðal fólks. Þetta er ósýnilegur vandi í samfélaginu þar sem við sjáum þá ekki, en þeir virðast vera talsvert margir með þennan vanda og vonandi kemur fjótlega eitthvað úrræði sem væri til að hjálpa þeim út úr þessum vítahring, helst úrræði sem væri mótað af einstaklingum með reynslu af því að hafa verið á þessum stað sjálfir.

Mjög mikilvægt er líka aðgangur að sálfræðingum fyrir fólk sem hefur ekki efni á að borga um 20.000 kr. fyrir hvern tíma, en það er enn ekki búið að útfæra hvernig ríkið mun koma að niðurgreiðslu sálfræðinga. Einnig má nefna aukinn aðgang að úrræðum fyrir þá sem búa á landsbyggðinni með einhverjum hætti. Það er eflaust ýmislegt fleira sem mætti nefna en þetta er það sem kemur upp í hugann núna.

 

Hann var kominn í geðrof

Á þeim árum sem Helga vann á geðsviðinu kom ýmislegt upp og á hún margar minningar af bæði góðum og slæmum atburðum. Ein minning er af manni sem lagðist reglulega inn á deildina sem hún vann á, ca 1-2 sinnum á ári. Maðurinn kom þá yfirleitt inn vegna þess að hann var kominn í geðrof og kom af fúsum og frjálsum vilja.

Einn daginn var Helga að spjalla við hann og hann sagði að það sem honum fyndist gagnast honum mest við að koma inn á deildina var ramminn sem hann fékk og samskipti við annað fólk. Þarna var einhver sem sagði góða nótt við hann á kvöldin og vakti hann daginn eftir kl. 8, sagði góðan daginn og bauð honum að koma fram í morgunmat, svo voru máltíðir yfir daginn, farið í göngutúra o.fl. Hann sagði að þessir hlutir næðum honum oft niður á jörðina hvort sem hann væri byrjaður að taka lyf aftur eða ekki. Þetta minnir mann á að þetta þarf ekki að vera svo flókið, félagsleg tengsl og ákveðin strúktúr á deginum getur hjálpað einhverjum út úr erfiðu geðrænu ástandi.

 

Hlustað af samkennd og hlýju

Í fyrsta lagi skyldum við ekki vanmeta hversu dýrmætir góðir vinir og fjölskyldumeðlimir geta verið. Oft þarf einstaklingur í vanda á því að halda að hlustað sé á hann af samkennd og hlýju og að einhver sé til staðar fyrir hann á erfiðum tímum. Að vera góður vinur og að leyfa sér að leita til vina sinna þegar maður þarf á að halda er mikilvægt.

Það ætti þó ekki að stoppa fólk í að leita lengra og í raun hvetur Helga fólk til að prufa sem flest af því sem stendur til boða, því við vitum oft ekki fyrr en á reynir hvað gagnast okkur best. Það getur t.d. verið sálfræðingur eða samtök sem vinna með ákveðnar tegundir af vanda eða vanlíðan. Til að fá yfirlit yfir þau úrræði sem í boði eru er t.d. hægt að skoða vefsíðu Geðhjálpar eða 112.is. Flestir sem vinna í svona úrræðum eru hlýir og góðir einstaklingar sem eru þarna vegna þess að þeim langar til að hjálpa, svo við ættum ekki að vera feimin að leita til þeirra, segir Helga.

Heilandi að koma saman í hóp

Það sem kom Helgu mest á óvart er hvað það getur verið heilandi fyrir einstaklinga að koma saman í hóp og ræða málefni sem tengjast andlegri heilsu. Hver hópur myndar ákveðna heild á meðan á námskeiðinu stendur og andrúmsloftið í hópnum verður oft svo skemmtilegt og einkennist oft af samkennd, húmor og virðingu.

Það getur verið sérstaklega gaman þegar mjög ólíkir einstaklingar kynnast á þessum námskeiðum og fólk fær smá innsýn í líf annarra og finnur fyrir tengslum og getur speglað sig í hvort öðru. Það er þessi sammannlegi þáttur; það að finna að við erum öll í þessu saman, öll ófullkomin en viljum öll lifa góðu lífi, þetta skapar eitthvað heilandi andrúmsloft sem verður til í hópnum en næst ekki fram í einstaklingsvinnu; segir Helga.

Tala meira um okkar tilfinningar

Helga vill að lokum ítreka það sem hún talaði um fyrr um tilfinningar og hvernig við nálgumst þær. Henni finnst mikilvægt að við lærum að þola betur erfiðar tilfinningar án þess að þurfa stöðugt að reyna að hlaupa í burtu frá þeim eða deyfa þær. Auðvitað er erfitt að upplifa sárar tilfinningar en við getum þjálfað upp færni í að þola þær betur t.d. með núvitund og sjálfsumhyggju. Það hvernig við nálgumst erfiðar tilfinningar getur breytt svo miklu fyrir andlega heilsu okkar. Hana langar líka að ítreka að það er svo margt sem við getum gert sjálf til að bæta eigin geðheilsu, t.d. að sinna þörfum okkar vel, rækta vináttusambönd og rækta meðvitað með okkur eiginleika sem ýta undir vellíðan eins og þakklæti, velvild og bjartsýni. Stundum ráðum við þó ekki við að rétta okkur af sjálf og við ættum ekki að hika við að leita okkur aðstoðar til fagaðila og samtaka eftir því sem við á.

Ljósmyndari: Hildur Ársælsdóttir

 

Lestu allt um málið og meira til í brakandi fersku helgarblaði Mannlífs hér eða flettu blaðinu hér fyrir neðan: 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -