Sunnudagur 16. júní, 2024
10.8 C
Reykjavik

Aðskildir sem ungbörn – hittust fyrir tilviljun eftir nítján ár

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Saga af þríburum sem sífellt varð skrítnari.

„Eddy, Eddy, hæ, Eddy, hvernig hefurðu það,“ hljómaði um skólann þegar hinn 19 ára Bobby Shafran hóf þar nám árið 1980. Þetta var fyrsti dagurinn hans í þessum skóla og hlýjar móttökurnar greinilega ætlaðar einhverjum öðrum. Þetta var upphafið að magnaðri sögu af endurfundum bræðra sem höfðu verið aðskildir sem ungbörn og óvæntum uppgötvunum.

Eddy Galland hafði flosnað upp úr námi og ætlaði ekki að koma aftur í Sullivan Community College. Það vissi vinur hans, Michael Domnit, sem drap á dyr hjá Bobby í heimavistinni. Michael byrjaði á því að spyrja hvort Bobby hefði verið ættleiddur. Svarið var játandi og þegar í ljós kom að hann átti afmæli sama dag og Eddy, þurfti ekki frekar vitnanna við. „Þú átt tvíburabróður,“ sagði Michael. Hann lét ekki staðar numið, heldur hringdi heim til Eddys sem brá í brún þegar hann heyrði í Bobby og röddin hljómaði eins og hans. Spjall í síma dugði ekki, bræðurna langaði til að hittast svo Bobby og Michael óku heim til Eddys strax eftir símtalið.

„Þegar dyrnar opnuðust sá ég mitt eigið andlit stara á mig, allt varð eins og í móðu og aðeins við Eddy þarna,“ sagði Bobby síðar.

 

Sagan þótti svo mögnuð að hún rataði í fjölmiðla. Nokkru seinna sat David nokkur Kellmann og las grein um endurfundina. Ég er ekki frá því að ég sé sá þriðji, hugsaði hann. Eddy og Bobby líktust honum ekki aðeins mjög í útliti og höfðu verið ættleiddir eins og hann, heldur deildu þeir með honum fæðingardeginum 12. júlí 1961.

Saga bræðranna þótti svo mögnuð að hún rataði í fjölmiðla.

Í ljós kom að David, Eddie og Bobby voru eineggja þríburar og höfðu verið ættleiddir hálfs árs gamlir hver til sinnar fjölskyldu sem fékk ekki að vita að sonurinn ætti bræður.

- Auglýsing -

Óaðskiljanlegir

Bræðurnir urðu strax óaðskiljanlegir. Þeir voru vinsælt umfjöllunarefni í fjölmiðlum og birtust m.a. í spjallþáttum í sjónvarpi og fengu meira að segja lítið aukahlutverk í kvikmyndinni Desperately Seeking Susan (1985) þar sem þeir áttu að brosa til Madonnu áður en hún gekk inn í byggingu. Þeir leigðu saman íbúð í Queens í New York-borg og árið 1988 stofnuðu þeir veitingastað í Soho, Triplets Roumanian Steakhouse. Bobby hætti samstarfinu nokkrum árum síðar og árið 2000 var staðnum lokað.

Bræðurnir hittu lífmóður sína í eitt skipti, snemma á níunda áratugnum, en hún sýndi ekki áhuga á að hitta þá aftur.

- Auglýsing -

Dullarfulla rannsóknin

Drengirnir fæddust á Hillside-sjúkrahúsinu í Glen Oaks í New York-ríki. Móðir þeirra var mjög ung, hafði orðið ófrísk eftir útskriftarballið (e. prom). Þeir voru aðskildir sex mánaða gamlir og ættleiðingarstofan Louise Wise Servises fann þeim heimili. Áður en væntanlegir foreldrar fengu þá í hendur var þeim sagt að drengirnir yrðu þátttakendur í nokkurs konar rútínukenndri sálfræðirannsókn og sterklega gefið í skyn að þátttakan væri skilyrði fyrir ættleiðingunni.

Þeir ólust upp í New York-ríki, í aðeins rúmlega 100 kílómetra fjarlægð hver frá öðrum. Næstu árin fengu drengirnir og foreldrar þeirra reglulega heimsóknir frá rannsóknarteymi undir stjórn dr. Peters Neubauer barnasálfræðings sem vann m.a. náið með Önnu, dóttur Sigmund Fraud. Þeir voru látnir púsla og teikna, þrautir lagðar fyrir þá og fylgst með þroska þeirra og getu. Allt var vandlega skráð og kvikmyndað. Enginn vissi að þetta væri yfirgripsmikil rannsókn á fjölburum sem voru aðskildir og ættleiddir hver í sínu lagi. Rannsóknin hélt áfram eftir að drengirnir eltust en þá var meira fylgst með þeim úr fjarlægð.

Foreldrar þríburanna voru ólíkir og sennilega valdir til að hægt væri að rannsaka áhrif mismunandi uppeldis á drengina. David ólst upp hjá Kellman-hjónunum sem töldust vera af verkamannastétt. Faðir hans rak matvöruverslun og var sérlega hlýr og ástríkur maður sem tók bræðrum Davids sem sínum eigin. Bobby var ættleiddur af Shafran-hjónunum úr efri millistétt en faðir hans var læknir sem sýndi honum fálæti. Galland-hjónin, úr millistétt, ólu Eddy upp en í æsku upplifði hann litla umhyggju, að minnsta kosti af hendi föðurins sem var algjör andstæða hins hlýja föður Davids.

Allir áttu bræðurnir við hegðunarvandamál að stríða frá upphafi. Þeir tóku vanlíðunarköst og börðu þá höfðinu í rimlana í barnarúmum sínum. Án efa stafaði það af aðskilnaðarkvíða, vill einn bróðirinn meina. Þeir voru jú saman fyrstu sex mánuði lífsins. David og Eddy voru lagðir inn á geðdeild nokkrum sinnum á unglingsárum og Bobby var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi árið 1978 í tengslum við rán og morð.

„Fólkið sem rannsakaði okkur horfði aðgerðalaust á vandamál okkar verða stærri og meiri og gerði ekkert til að hjálpa. Ég er reiðastur yfir því,“ sagði David í viðtali. „Þau hefðu getað hjálpað okkur en gerðu það ekki.“

Fátt um svör

Á meðan þríburarnir nutu lífsins og samvistanna ákváðu foreldrar þeirra að leita svara við þeim fjölmörgu spurningum sem höfðu vaknað. Þau heimsóttu ættleiðingarstofuna og kröfðust skýringa. Þeim var sagt að ástæða þess að drengirnir voru aðskildir hafi verið sú að erfiðara hefði verið að koma þeim á eitt heimili en þrjú. Faðir Davids svaraði því til að ef þeim hjónum hefði boðist að ættleiða alla þrjá hefðu þau tekið því fagnandi. Að öðru leyti var lítið um svör og foreldrarnir voru afar ósáttir þegar þeir yfirgáfu stofuna.

Bræðurnir fengu lítið aukahlutverk í kvikmyndinni Desperately Seeking Susan (1985).

Pabbi Bobbys gleymdi regnhlíf sinni og fór aftur inn til að sækja hana. Þegar hann kom inn í fundarherbergið sá hann að forsvarsfólk stofunnar hafði opnað kampavínsflösku og var að skála hvert við annað, eins og það hefði einhvern veginn sloppið með skrekkinn.

Foreldrarnir vildu ekki gefast upp og reyndu að fá aðstoð frá fleiri en einni lögmannsstofu til að komast til botns í málinu en án árangurs. Mikil leynd hvíldi og hvílir enn yfir þessari fjölburarannsókn. Niðurstöðurnar voru aldrei birtar, heldur innsiglaðar til ársins 2065 í Yale-háskóla. Þá verða liðin 104 ár frá fæðingu þríburanna.

Líklegt verður að teljast að fólk sem ættleitt var á svipuðum tíma og þríburarnir og aðskilið sem hluti af rannsókninni, eigi sér systur eða bróður einhvers staðar þarna úti.

Ástir, gleði og sorgir

Þríburarnir stofnuðu hver sína fjölskyldu með tímanum. David giftist Janet og þau eiga dæturnar Ali og Reyna. Bobby og Ilena eiga dótturina Elyssu og soninn Brandon, og Eddy og Brenda eignuðust dótturina Jamie.

Eddy fór ekki bara verst út úr uppeldinu af bræðrunum, heldur virtist hann hafa haft mestu þörfina fyrir bræðurna. Eftir að hann hitti Bobby og David leit hann á þá sem alvörufjölskyldu sína og vildi vera með þeim öllum stundum. Hann glímdi við andleg veikindi og árið 1995 svipti hann sig lífi á heimili sínu. Við þetta áfall fjarlægðust Bobby og David hvor annan. Við gerð heimildamyndar um sögu þeirra, Three Indentical Strangers (2018) hittust þeir eftir langan aðskilnað og samband þeirra lagaðist í kjölfarið.

Við gerð heimildamyndar um sögu þeirra, Three Indentical Strangers (2018) hittust þeir eftir langan aðskilnað og samband þeirra lagaðist í kjölfarið.

Bobby er lögmaður í Brooklyn. David er nýlega fráskilinn og vinnur sjálfstætt sem tryggingasölumaður. Hann hefur haldið góðu sambandi við ekkju Eddys og dóttur. Báðir eru bræðurnir afar ósáttir yfir því að hafa verið tilraunadýr í rannsókn sem miðaði að því að aðskilja þá og rannsaka áhrif þess og mismunandi uppeldis sem hafði án nokkurs vafa sterk áhrif á líf þeirra.

Eftir langa og stranga baráttu fengu þeir loks send skjöl úr rannsókninni en þar var í raun ekkert sem gat varpað ljósi á nokkuð. Þetta voru mest meinlausar athugasemdir og myndbrot og þess gætt að það sem hvor bróðirinn fékk tengdist aðeins honum einum. Bobby og David hafa ekki gefist upp og vona að heimildamyndin verði til þess að fleiri spurningum verði svarað.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -