Fimmtudagur 5. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Ástin – geggjun eða hormónaójafnvægi?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Auðvitað viljum við trúa því að hjartað ráði för þegar við hittum ástina í lífi okkar en hormónar spila þar víst stórt hlutverk. Samkvæmt líffræðirannsóknum er það að verða ástfanginn lífeðlisfræðilega mjög svipað því og að veikjast af geðsjúkdómi.

Sjúkdómar eins og t.d. áráttu- og þráhyggjuröskun eru taldir orsakast af ójafnvægi á seratónínmagni líkamans og hafa rannsakendur fundið út að bæði þeir sem þjást af þráhyggju og ástfangið fólk hafi lágt seratónínmagn eða um 40 prósent lægra en telst eðlilegt.

Skýringu þess að þessi mikli ástarbrími rennur af okkur með tímanum gæti verið að finna í starfsemi heilans og hvernig hann bregst við dópamíni sem fylgir ástríðunni og fyllir okkur vellíðan. Í réttum hlutföllum eykur dópamín orku og vellíðan og hjálpar til við einbeitingu. Það er ástæða þess að þegar þú ert nýorðin/n ástfangin/n geturðu vakað allar nætur, skokkað upp um fjöll og firnindi og nýtt hæfileika þína til hins ýtrasta. Ástin gerir þig hugrakkari og hressari og gerir það að verkum að þú tekur meiri áhættu.

Ef þetta hormónaójafnvægi ástarinnar sem líkist hvað helst geðsjúkdómi myndi halda áfram yrðum við án efa fyrir sálrænum skaða. Svo ekki sé minnst á praktísku vandamálin sem kæmu upp þegar þú drægist aftur úr í vinnunni, svæfir ekki nóg og fylgdist ekki með klukkunni. Að öllu gríni slepptu þá er þessu tímabili tryllingslegrar ástar ekki ætlað að endast.

En það er engin ástæða til að örvænta þótt þú og ástin þín verðið ekki alltaf svífandi um á bleiku skýi alsælunnar því svo virðist sem hamingjusömum pörum í langtímasambandi hafi tekist að færa sig frá ofskammtinum af dópamíni á fyrstu stigum sambandsins yfir í djúpa tengingu sem ræðst fremur af oxýtósíni sem er sæluörvandi hormón sem eykur á tengingu ykkar á milli og samkennd. Þetta hormón leysist úr læðingi við brjóstagjöf, faðmlög og kynferðislega fullnægingu. Út frá líffræðilegu sjónarmiði þá eru þau pör sem eru dugleg að finna leiðir til að auka oxýtósínmagnið hvort hjá öðru líklegri til að lifa hamingjusöm til æviloka.

Hvernig getið þið aukið oxýtósínmagnið?
1. Faðmist oftar.
2. Horfið í augu hvort annars þegar þið talið saman eða eruð í ástaratlotum.
3. Gerið skemmtilega hluti saman, heimsækið nýja staði, farið í ræktina saman, farið í fallhlífarstökk eða í rússíbana.
4. Hlæið saman.
5. Nuddið hvort annað reglulega (hvaða líkamshluta sem er).
6. Þegar spenna myndast ykkar á milli, skuluð þið stöðva hana áður en hún stigmagnast. Tengist saman líkamlega, haldist í hendur, faðmist o.s.frv. Andið saman í nokkrar mínútur og talið svo saman.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -