Miðvikudagur 28. febrúar, 2024
0.8 C
Reykjavik

„Ekkert hræddur um að móðga fólk“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Halldór Halldórsson, sem flestir þekkja einfaldlega sem Dóra DNA, er einn af landsins bestu grínistum. Dóri hefur í nægu að snúast þessa dagana en hann er nýlega kominn aftur til starfa eftir að hafa verið heima með Flosa, yngsta son sinn, í 18 mánuði.

„Þegar maður á þrjú börn þá er tíminn sem þau eru á sínum menntastofnunum ómetanlegur og það hefur kennt mér að nýta og skipuleggja hann vel. Síðan Flosi byrjaði á leikskóla hef ég notið þess að vinna skipulagðan vinnudag,“ segir Dóri. „Venjulegur dagur hjá mér hefst á því að ég fer á kaffihúsið Bismút klukkan níu, kjafta við gesti og gangandi í um hálftíma. Þaðan fer ég svo á skrifstofuna og skrifa en ég er með margvísleg verkefni í gangi. Ég er að vinna að gerð ýmissa handrita og verkefna með Hafsteini Gunnari, skrifa uppistandsefni, skáldsögu og fleira. Það að skrifa er uppáhaldið mitt. Mér líður aldrei betur, ekkert finnst mér auðveldara og ekkert liggur jafnvel fyrir mér. Svo reyni ég að enda alla daga á einhverri hreyfingu, hlaupum, lyftingum eða hnefaleikum. Síðustu ár hef ég notað september og október til að gera tilraunir á mataræði. Núna er ég á ketó-mataræðinu í þriðja sinn og ætla að skipta yfir í 20/4 í október.“

Ekkert bannað og ekkert mun verða bannað

Eins og margir vita er Dóri hluti af Mið-Íslandi hópnum, teymi sem samanstendur af nokkrum bestu grínistum landsins. „Mið-Ísland er alltaf jafn vel sótt. Við tökum þetta ár frá ári og sýnum þar til fólk hættir að mæta. Við hefjum haustin á því að halda prufusýningar þar sem við prófum efni sem við höfum párað hjá okkur. Svo mótum við það betur og frumsýnum í janúar. Við eigum tíu ára starfsafmæli í ár, sem er nettur skellur.“

Síðustu misseri hefur átt sér stað ákveðin umræða varðandi grín og að „ekkert megi“ lengur. Sjálfur segist Dóri ekki finna mikinn mun á viðhorfi fólks varðandi þetta.
„Ég get ekki sagt það. Það er ekki endilega það að fólk sé orðið viðkvæmara, það er bara ekki móttækilegt fyrir ákveðnu gríni. Sérstaklega gríni sem er á kostnað minnihlutahópa eða gríni sem fer nálægt eða yfir landamæri kynbundins ofbeldis. En það er ekkert vandamál hjá okkur, við höfum alltaf verið smekklegir, að mér finnst. Aldrei stuðað neinn svo harkalega að honum hefur fundist það tilefni til að segja það upphátt. Þannig erum við bara, sumt grín er bara best í lokuðum hópi. Það er einhver bylgja núna af sérstaklega karlmönnum sem finnst allt bannað. Það er ekkert bannað og ekkert mun verða bannað. Fólk er bara duglegra við að láta heyra í sér, þegar því finnst eitthvað ekki í lagi. Þegar einhver segir að eitthvert grín sé ófyndið eða óviðeigandi eru það ekki ritskoðunartilburðir, alls ekki. Að vera ósáttur við eitthvað er ekki að banna það eða krefjast þess að það sé bannfært. Ég segi oft brandara sem eru á mörkum þess að vera ósmekklegir, í húmor þá elska ég þessi landamæri. Og ef þeir ganga fram af fólki, þá hætti ég að segja þá og biðst afsökunar er þess þarf. Það er hressandi að hafa rangt fyrir sér og svo má ekki gleyma að brandarar eru bara brandarar.“

Dóri segir þá félaga í Mið-Íslandi ekki vitund hrædda við að móðga fólk. „Það væri heldur takmarkaður grínisti sem lifir við þann ótta. Við leyfum okkur að grínast með hvað sem er, sérstaklega okkar á milli. En enginn okkar hefur áhuga á því að vera ósmekklegur eða ógeðslegur. Sjálfum leiðist mér þessi tilhneiging í ákveðnum grínistum að reyna ganga fram af fólki. Sumir elska þannig grín og gjöri þeim svo vel – það er eitthvað fyrir alla og það er æðislegt. En eins og staðan er núna er enginn okkar og enginn af þeim grínistum sem eru í okkar mengi á þeim skónum.“

- Auglýsing -

Leiklistarbaktería á háu stigi

Dóri verður að eigin sögn aldrei stressaður fyrir sýningar. „Ekki ef ég veit að efnið sem ég er að flytja er gott. Að koma fram hefur aldrei vafist fyrir mér, oft líður mér best þannig, ótrúlegt en satt. En það er mjög stressandi að fara fram með nýtt efni sem þú veist ekkert hvernig verður tekið, en það er líka uppáhaldið mitt. Maður hefur stundum dottið í gír, þar sem allt verður fyndið og heilinn á manni fer á milljón. Ég hef samið heilu brandarana af fingrum fram, flókna brandara með „call-backs“ á sviði, það er ótrúleg tilfinning. Ég hef einnig yfirgefið sviðið í vígahug til þess að gera út um áhorfanda sem var með frammíköll og dónaskap. Hræðilegt. En þú manst alltaf best eftir því þegar þú hefur skitið á þig. Og ég hef skitið vel á mig í uppistandi. Man eftir sérstaklega einu giggi á árshátíð kvikmyndagerðarfólks fyrir löngu. Það var ömurlegt. Fyrsta skiptið sem ég bombaði – mun aldrei gleyma því.“

Dóri hefur ekki aðeins látið til sín taka í uppistöndum og grín-sketchum, heldur einnig á hvíta tjaldinu. Hann lék nokkuð stórt hlutverk í vinsælustu kvikmynd landsins þessa dagana, Lof mér að falla. Hann er að eigin sögn kominn með leiklistarbakteríu á háu stigi, seint og löngu eftir listaháskólaárin. „Mig langar mikið til að leika meira, bæði grín, drama og hvað sem er. Mér fannst ótrúlega gaman að leika í Lof mér að falla. Leika persónu af húð og hári og pæla í því hvernig hún er og hvað hefur mótað hana. Vonandi fæ ég fleiri svoleiðis verkefni upp í hendurnar,“ segir Dóri DNA að lokum.

- Auglýsing -

 

Viðtalið birtist upphaflega í Vikunni.

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Myndir: Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -