„Mér fannst þetta verkefni þreytandi, en ekki óyfirstíganlegt. Ég átti alls ekki von á að heyra að staðan væri orðin verulega alvarleg eftir svona stuttan tíma.“
Síðastliðin tíu ár hefur Súsanna Sif Jónsdóttir barist við að skapa sér eðlilegt líf. Eftir að hafa flosnað síendurtekið upp úr námi, ýmist vegna eiturlyfjaneyslu eða geðrænna vandamála, sneri hún blaðinu við og hefur verið á beinu brautinni undanfarin sex ár en hún útskrifaðist sem sjúkraliði um síðustu áramót. Í fyrra mætti Súsanna þó óvæntri hindrun þegar hún greindist með blóðkrabbamein. Áskorun sem hún tekst á við með mikilli yfirvegun enda segir hún að eðlilegt líf sé eflaust ekkert fyrir sig.
Það sem byrjaði sem útbrot og kláði á handlegg var greint sem Non-Hodgkins Lymphoma, sjaldgæft en viðráðanlegt krabbamein.
„Í hvert skipti sem ég spurði var mér sagt að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því, að 90% þeirra sem greinast á fyrsta stigi færu aldrei yfir á næsta stig og lifðu bara eðlilegu lífi. Það er rétt samkvæmt opinberum tölum, en ég hefði gjarnan viljað vita hvað verður um hin 10%. Ég hefði þá kannski getað undirbúið mig betur fyrir það sem kom næst,” segir Súsanna. Meinið stökkbreyttist og þá tók við önnur og verri staða.
„Þetta kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Var ég að fara verða sköllótta stelpan sem maður sér í bíómyndum? Náföla, veika stelpan sem kastar bara upp og líður hræðilega? Nei, það gat ekki verið. Eina sem komst að í huga mér var hvernig ég gæti beðið mömmu að koma með mér án þess að valda henni áhyggjum. Ég vildi ekki að neinn færi fram úr sér áður en allar staðreyndir væru komnar í ljós og ég yrði að vera tilbúin með nokkra jákvæða punkta áður en ég segði henni þetta.“
Við tók meðferð og Súsanna ákvað að takast á við hlutina af yfirvegun og æðruleysi.
„Ég var ekki hrædd við staðreyndirnar, heldur skort á þeim. Læknarnir voru lengi að ræða niðurstöðurnar og jafnvel færustu sérfræðingar heims klóra sér enn í höfðinu vegna annarra sambærilegra tilfella. Ég leyfi mér ekki „hvað ef” hugsanir, enda eru þær tilgangslausar og rætast yfrleitt aldrei. Í stað þeirra einbeiti ég mér að deginum í dag, því það er það eina sem skiptir máli. Að greinast með lífsógnandi sjúkdóm fær mann svo sannarlega til að endurskoða það sem skiptir máli. Ég er þakklát fyrir áminninguna, þó ég óski engum að fá hana á þennan hátt. Ég veit nokkurn veginn hvað ég myndi vilja skilja eftir mig, og hvað ekki. Hugmyndir fólks að hamingjunni eru svo misjafnar, mörgum dreymir um að eignast hús við ströndina eða flytja til Frakklands. En kunna Frakkar að njóta Eiffelturnsins? Taka Spánverjar sólinni sem sjálfssögðum hlut? Þegar uppi er staðið þá veltur allt á viðhorfinu og ekkert land, engin manneskja og enginn lottóvinningur getur gert mann hamingjusaman.“
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Förðun / Björg Alfreðsdóttir