Sunnudagur 8. desember, 2024
9.8 C
Reykjavik

Ekkert lát á endurgerðum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ekkert lát virðist ætla að verða á endurgerðum Hollywood-kvikmyndum á næstunni. Hér er listi yfir nokkrar sígildar.

Ocean’s Eleven, Twelve, Thirteen og nú Ocean’s Eight!
Í hinni upprunalegu Ocean’s 11 mynd mátti sjá hina óviðjafnanlegu Rat Pack, Frank Sinatra, Dean Martin og Sammy Davis Jr. í aðalhlutverkum og myndin fékk á sínum tíma góðar viðtökur. Sagan segir frá Danny Ocean sem vill fremja stærsta rán sögunnar og til þess safnar hann saman ellefu manna úrvalsliði. Þegar ráðist var í endurgerð myndarinnar árið 2001 var öllum ljóst að leikaravalið þurfti að sambærilegt og það tókst svo sannarlega með George Clooney, Brad Pitt og Matt Damon. Þó að sígilda útgáfan sé alls ekki léleg þá verður að viðurkennast að sú nýrri hefur mun meira skemmtanagildi, er bæði fyndnari og meira spennandi, og verður því yfirleitt ofan á í samanburðinum. Nú er von á fjórðu myndinni og þar verða skærustu kvenstjörnur Hollywood í aðalhlutverkum, meðal annars Cate Blanchett, Sandra Bullock og Anne Hathaway.

3:10 to Yuma
Þó svo að sumir ríghaldi með klassísku útgáfunni af 3:10 to Yuma sem kom út árið 1957 eru flestir á sama máli um að endurgerð James Mangold frá árinu 2007 sé mun betri. Það er einkum vegna þess að tækninni hefur fleygt töluvert fram á þessum fimmtíu árum og því er hasarinn í myndinni mun áhrifaríkari og meira spennandi, án þess að það sé farið yfir strikið í einhverjum tæknibrellum. Aðalleikararnir, Russell Crowe og Christian Bale, sýna ótrúlega takta í hlutverkum sínum en Bale leikur smábónda sem tekur að sér að halda útlaga, Crowe, föngnum á meðan beðið er eftir lest sem mun færa hann fyrir dómstóla en Crowe reynir að beita alls kyns brögðum til að sleppa. Þetta er sígildur vestri með mjög skemmtilegum og spennandi söguþræði.

Freaky Friday
Eflaust eru margir sem ekki vita að hin geysivinsæla Disney-mynd Freaky Friday, með Jamie Lee Curtis og Lindsey Lohan í aðalhlutverkum, er í raun endurgerð á mynd sem kom út árið 1977. Myndin fjallar um unga stúlku sem skiptir um líkama við móður sína skömmu fyrir brúðkaup þeirrar síðarnefndu. Eins og áður hefur komið fram þá lék Lindsey Lohan unglingsstúlkuna í endurgerðinni en hún var þá á hátindi frægðar sinnar. Það var þó ekki síðri leikkona sem fór með sama hlutverk í upprunalegu myndinni en það var engin önnur en Jodie Foster.

The Great Gatsby
Til eru tvær kvikmyndir sem hafa verið gerðar eftir hinni sígildu skáldsögu F. Scott Fitzgerald, The Great Gatsby, og segir frá Nick Carraway sem fer frá miðvesturríkjum Bandaríkjanna til New York vorið 1922, þegar djassinn og hið ljúfa líf ræður ríkjum í borginni, og dregst fljótlega inn í heim hinna ofurríku, heim sjónhverfinga, ásta og svika. Það er erfitt að bera þessar tvær kvikmyndir saman, og nær ómögulegt færa rök fyrir því að önnur myndin sé betri en hin, því þótt þær segi sömu sögu þá er nálgun þeirra á efninu gjörólík. Sú fyrri, kom út árið 1974 með Robert Redford og Miu Farrow í aðalhlutverkum, er hefðbundnari og hógværari að öllu leyti en sú seinni. Baz Luhrman endurgerðin sem kom út árið 2013 er aftur á móti algjört augnakonfekt með frábærum leikurum í öllum hlutverkum og hvert einasta augnablik hefur verið stíliserað út í eitt. Hvorug myndin er gallalaus en þær hafa báðar marga kosti sem vega upp á móti þeim.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -