Vignir Þór Bollason er 27 ára gamall Hafnfirðingur. Hann hefur getið sér gott orðspor sem kírópraktor en hann starfar á Kírópraktorstöð Reykjavíkur. Vignir er sá eini á landinu sem hefur lokið þjálfun í svokallaðari Webster-tækni, sem er sérhæfð meðferð fyrir óléttar konur. Viðskiptavinir hans hafa náð undraverðum árangri, en sjálfur segir Vignir starf sitt fyrst og fremst felast í því að hjálpa öðrum að öðlast aukin lífsgæði.
Sjálfur var Vignir mikið inni á spítala sem barn vegna litningagalla sem þurfti að fylgjast náið með. Í páskafríi á Orlando með fjölskyldunni árið 2006 má segja að áhugi hans á kírópraktorlækningum hafi kviknað. „Við fjölskyldan fórum einn daginn að hitta vin pabba míns, Berg Konráðsson kírópraktor, sem staddur var í Orlando á þessum tíma. Bergur tók eftir því hvað ég var með mikla skekkju í mjaðmagrindinni og hryggnum og fór að spyrja pabba út í það. Þá fór pabbi að segja honum frá þessum sjaldgæfa litningargalla sem orsakaði það að hægri fóturinn væri næstum því 4 cm styttri en sá vinstri. Þarna var ég 15 ára gamall og samkvæmt beinaldursmælingu á línuriti yfir hæð drengja á þessum aldri var ég langt undir meðaltali. Læknarnir mínir voru farnir að tala um að senda mig í aðgerð til að skemma vaxtarlínuna í vinstra hné og þannig leiðrétta þennan lengdarmun. Bergur sannfærði pabba um að fara með mig í tíma til hans, og ég er mjög þakklátur fyrir það. Meðferðin hjá honum hjálpaði mér mikið varðandi sársauka og þrálát meiðsli tengd því að vera með svona mikið styttri fótlegg. Foreldrar mínir ákváðu að bíða með aðgerðina og ég er þeim einnig mjög þakklátur fyrir þá ákvörðun. Í dag er ég 180 cm á hæð og væri því kominn með að lágmarki 7 cm styttri vinstri fótlegg en hægri. Þannig að það má segja að út frá persónulegri reynslu minni af kírópraktík hafi áhuginn kviknað,“ segir hann.
Sérhæfir sig í meðferðum barna og óléttra kvenna
Í desember 2015 útskrifaðist Vignir frá Life University með BS í líffræði sem hann tók samhliða doktorsgráðu í kírópraktík. Áhugi Vignis á að vinna með börnum var mikill og hann tók aukaáfanga sem í boði voru um meðhöndlun barna. „Börn eru æðisleg, þau segja hlutina eins og þeir eru og ef þau eru ekki byrjuð að tala er auðvelt að lesa í viðbrögð þeirra, ef maður veit hvað maður er að gera. Út frá því sóttist ég svo eftir að taka verknámið mitt á stofu sem gerði út á meðhöndlun barna og fjölskyldufólks. Þar byrjaði ég að læra mikið inn á Webster-tæknina og meðgönguna og hversu mikilvæg tæknin væri upp á fyrstu ár barnsins. Það sem heillaði mig var að fylgjast með kírópraktornum sem ég var í verknámi hjá og að sjá hvað kírópraktík gat mikið auðveldað daglegt líf kvenna á meðgöngu. Ekki síst heillaði það mig að þegar konurnar voru búnar að eiga og sögðu okkur frá fæðingunni, hvað allt hefði gengið vel og barninu vegnaði vel.“
Webster-tæknin sem Vignir ræðir um er kírópraktísk aðferðafræði sem felst aðallega í því að koma á jafnvægi í liðamótum og liðböndum sem tengjast í mjaðmagrindina. Aðferðin miðar sérstaklega að líkama kvenna á meðgöngu og þeim breytingum sem verða í stoðkerfinu. Webster-tæknin hjálpar til við að koma í veg fyrir og minnka verki, og stuðlar að því að meðgangan og fæðingin gangi eins vel fyrir sig og hægt er. „Ég gleymi ekki fyrsta skiptinu sem kona kom til mín nokkrum vikum eftir fæðingu og þakkaði mér fyrir hvað ég hafði gert fyrir hana. Hún hafði eignast eitt barn áður og sú meðganga verið erfið vegna verkja og að fæðingin hafi verið mjög löng og erfið. Hún sagði svo að þessi meðganga og fæðing hefði gengið eins og í sögu. Það sem var þó skemmtilegast að heyra var að frá og með fyrsta tímanum hennar hjá okkur hafi hún strax fundið mikinn mun og að hún vildi að hún hefði komið í meðhöndlun á fyrri meðgöngu. Þá fyrst fékk ég þá tilfinningu að mig langaði að meðhöndla konur á meðgöngu og byrja þar að hafa jákvæð áhrif á líf barna þeirra,“ segir hann.
Eins og gefur að skilja eru óléttar konur og börn stór hluti af skjólstæðingum Vignis. „Ég hef fengið til mín mörg börn með alls konar vandamál og sum hver kannski ekki beint algeng, eins og erfiðleikar með að koma frá sér hægðum, svefnvandamál, eyrnavandamál, föst í hálsinum eftir erfiða fæðingu og erfiðleika með að skríða og ganga, svo eitthvað sé nefnt. Hjá óléttum konum eru það aðallega verkir tengdir meðgöngu, eins og grindargliðnun, verkir í mjóbaki og seyðingsverkur niður í fæturna og fleira.“
Margir smeykir við það sem þeir hafa ekki prófað
Tækniþróunina segir Vignir hafa mikil áhrif á stoðkerfi fólks, einna helst á hryggjarliðina í hálsinum. „Af þeim röntgenmyndum sem ég tek af hryggjarliðunum í hálsinum sýna langflestar þeirra öfuga kúrvu/sveigju (miðað við það sem hún á að vera) í hálsinum. Þetta getur valdið ýmsum einkennum, eins og vöðvabólgu, höfuðverkjum, verkjum í hálsi, herðum og öxlum. Allt eru þetta einkenni sem ég sé mjög reglulega og eru oft rekjanleg til slæmrar stöðu á kúrvunni. Hægt er að koma í veg fyrir þetta með meðferð hjá kírópraktor og reglulegu viðhaldi. Við finnum nefnilega ekki fyrir þessum breytingum í kúrvunni fyrr en verkirnir byrja, en þá hefur vandamálið oft verið að þróast í einhver ár. Ég sé alveg ótrúlega mikið af þessu hjá ungu fólki í dag og það er ótrúlegt að heyra foreldra segja frá því hvað börn þeirra kvarti oft undan tíðum höfuðverkjum og verkjum í hálsi. En að sama skapi er mjög jákvæð breyting í gangi þar sem sífellt fleiri eru farnir að koma með börnin sín eða koma sjálfir til kírópraktors og láta kíkja á þetta vandamál frekar en að bíða eftir því að vandamálið verði alvarlegra. Verst finnst mér þó að sjá ungt fólk sem er byrjað að þróa með sér brjóskeyðingu vegna aukins álags á hryggjarliðina út frá slæmri stöðu á kúrvunni í hálsinum. Því með áframhaldandi brjóskeyðingu endar það oftast með skurðaðgerð til að reyna að laga það sem hægt er að laga. Þá erum við að tala um fólk sem hefur lengi verið með verki og ekki gert nægar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að vandamálið verði alvarlegra. Ég hvet því til þess að fólk láti athuga með hrygginn á sér hjá kírópraktor og komi í veg fyrir að þetta ágerist. Við eigum bara einn hrygg og það er ekki hægt að skipta honum út fyrir nýjan.“
/Ítarlegt viðtal við Vigni Þór má nálgast í nýjasta tölublaði Vikunnar.
Myndir: Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir