Þriðjudagur 23. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Góðar vinkonur í raun

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í sjálfstæðum bíómyndum er oft að finna raunverulegar lýsingar á vináttu kvenna.

Vinátta kvenna er algengt viðfangsefni kvikmynda en oftar en ekki virðast þær aðeins sýna léttu og ljúfu hliðar hennar. Konur eru flóknar verur og vinátta þeirra á milli getur verið af ýmsum toga. Það er kannski helst að við finnum raunverulegar lýsingar á vináttu í sjálfstæðum bíómyndum. Hér eru nokkur góð dæmi.

Úrhrök samfélagsins
Ghost World fjallar um þær Enid og Rebeccu sumarið eftir að þær klára gagnfræðaskóla. Þær eiga báðar í erfiðleikum með að tengjast fólki og eyða tíma sínum í að slæpast og setja út á fólk sem þeim finnast óspennandi. Þegar þær kynnast Seymour, sem er utangarðs og lifir fyrir það að safna gömlum 78 snúninga hljómplötum, umturnast líf þeirra. Á meðan Enid byrjar að hanga meira með Seymour fer Rebecca að hegða sér eins og venjuleg unglingsstúlka. Hún byrjar að vinna á kaffihúsi og fær meiri áhuga á strákum og tísku. Stelpurnar vaxa meira og meira í sundur þar til það lítur út fyrir að þær muni aldrei ná saman aftur.

Andstæður
Andstæður laðast hvor að annarri og það á svo sannarlega við um vinkonurnar Holly og Marinu í kvikmyndinni Me Without You. Holly er hljóðlát á meðan Marina er frjálsari og villtari. Þær kynnast fyrst þegar þær verða nágrannar tólf ára og verða strax mjög nánar. Vinátta þeirra er þó alls ekki fullkomin og oft á tíðum ekki einu sinni falleg. Þær virðast báðar vera afbrýðissamar hvor út í aðra og sambönd þeirra við karlmenn eru flókin. Þrátt fyrir þetta halda þær áfram að vera vinkonur í gegnum súrt og sætt þangað til Holly slítur sig lausa einn daginn.

Hálffullorðin
Frances í kvikmyndinni Frances Ha er ung kona í New York sem vill helst ekki fullorðnast – hana langar að gera og verða margt en nær árangri í fáu. Mesti sigur hennar hingað til er að hafa vingast við Sophie. Þær búa saman og hanga saman öllum stundum en gera lítið annað en að gera háðslegar athugasemdir um lífið og umhverfið í anda Dorothy Parker. Þegar Sophie fer að sína merki þess að vilja fullorðnast og ákveður að flytja í draumahverfið sitt, Tribeca, tekur Frances því illa. Samband þeirra bíður ákveðna hnekki á meðan Frances fer úr einu í annað í leit að sjálfri sér og ástinni en eins og sannar vinkonur ná þær aftur saman á endanum.

Hipsterar í Brooklyn
Í myndinni Fort Tilden er svokallaðaður „hipstera-húmor“ mjög ríkjandi – þar sem fólk gerir bæði grín að sjálfu sér og öllu öðru. Myndin segir frá vinkonunum Harper og Allie sem búa í Brooklyn. Þær eru mjög kaldhæðnar og jafnvel illkvittnar í ummælum sínum um aðra og eru eiginlega týpur sem margir myndu forðast að umgangast – en þær virðast mjög ánægðar í félagsskap hvor annarrar. Sagan gerist nær öll einn sumardag þegar vinkonurnar reyna að komast hjólandi á strönd í útjaðri New York til að hitta tvo gaura sem þær hittu í partíi kvöldið áður. Á leiðinni fáum við að kynnast stelpunum betur og brátt verða brestirnir í vináttunni sýnilegri.

Ákaft samband
Nýsjálenska kvikmyndin Heavenly Creatures er byggð á sannri sögu af þeim Juliet Hulme og Pauline Parker sem lögðu á ráðin og myrtu mömmu Pauline. Stúlkurnar kynnast þegar Juliet byrjar í sama skóla og Pauline og þær verða fljótt mjög nánar. Þær eiga það sameiginlegt að hafa átt við veikindi að stríða í æsku og upplifað einangrandi spítalavist. Þær deila einnig ástríðu á ævintýrum og bókmenntum og stytta sér stundir með því að semja sögur sem þær dreymir um að selja til Hollywood. Þegar mamma Pauline reynir að binda enda á ákaft og þráhyggjukennt samband vinkvennanna ákveða þær að myrða hana. Um er að ræða fyrsta kvikmyndahlutverk beggja aðalleikvennanna, þeirra Kate Winslet og Melanie Lynskey, en þær vöktu mikla athygli fyrir leik sinn.

- Auglýsing -

Texti / Hildur Friðriksdóttir

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -