Miðvikudagur 10. apríl, 2024
0.8 C
Reykjavik

Hamingjan er til eftir skilnað hvort sem fyrrverandi trúir því eður ei

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Betra er autt rúm en illa skipað,“ sagði einhver og ég er ekki frá því að það sé búið að vera eitt af mínum mottóum í lífinu frá því ég skildi fyrir fimm árum síðan. Einhverra hluta vegna virðast þó ekki allir átta sig á því að maður geti verið sáttur við autt rúm (og vel skipað). Það er eins og fráskilda, einhleypa fólkið eigi að vera niðurbrotið og það geti hreinlega ekki verið að maður sé ánægður með lífið svona einn. Þann misskilning þarf að leiðrétta.

Það getur verið mikill léttir að taka ákvörðun um að fara hvort í sína áttina en skilnaður er samt alltaf leiðinlegur, jafnvel bara alveg ömurlegur. Enginn ákveður að gifta sig með það fyrir augum að skilja svo einn góðan veðurdag. Fólk giftist og ætlar sér að eiga restina af ævinni saman. En því er ekki alltaf þannig farið. Stundum er skilnaður það eina í stöðunni og jafnvel löngu tímabær.

Það er samt vesen að skilja. Það þarf að ákveða hver fær sparistellið, hver tekur köttinn, hver fær sjónvarpssófann og svo framvegis. Það þarf að ganga frá ýmsum málum, mæta á fundi með fyrrverandi sem mann langar kannski ekkert endilega að hitta svo mikið, og komast að samkomulagi um eitt og annað sem getur verið flókið. Og leiðinlegt. Svo hefur maður auðvitað heilmiklar áhyggjur af áhrifunum sem skilnaðurinn hefur á börnin, ef börn eru í spilinu.

Kannski er maður svo feginn því að vera loksins laus úr þessu sambandi að maður vildi óska þess að maður þyrfti ekkert að díla við fyrrverandi. En það er nauðsynlegt vegna barnanna og vonandi reyna flestir að haga sér vel þeirra vegna. Þau barnlausu eru heppin að því leytinu til að geta bara kvatt og skellt á eftir sér og þurfa svo ekki að spá meira í fyrrverandi frekar en þau vilja.

„Þegar einar dyr lokast opnast aðrar, en oft horfum við svo lengi á þær sem eru lokaðar að við tökum ekki eftir þeim sem voru opnaðar fyrir okkur.“  -Helen Keller

Af hverju þarf maður endilega að vera óhamingjusamur eftir skilnað?

- Auglýsing -

Jafnvel fyrir þau okkar sem finna fyrir miklum létti þegar sambandinu lýkur, er skilnaður erfiður. Vesenið við allar breytingarnar getur verið yfirþyrmandi og svo eru samskiptin við hinn aðilann ekkert endilega upp á sitt besta. En það tekur enda og einn daginn skiptir það engu máli hver sagði hvað, gerði hvað og allt það.

Þetta er auðvitað erfitt, ég ætla ekki að reyna að telja ykkur trú um annað, en þetta tekur enda. Erfiðast er kannski að finna rétta farveginn fyrir samskiptin og koma þeim í fastar skorður því það er ekki svo auðvelt að ætla að klippa á öll samskipti ef börn eru í spilinu. Þá þarf að gera alls konar ráðstafanir sem eru aðeins flóknari en bara að ákveða hvernig eigi að skipta upp eldhúsáhöldunum. Það þarf að ákveða hvar eigi að sækja börnin og hvernig eigi að bera sig að ef eitthvað mikilvægt gleymist á hinu heimilinu eða úlpan týnist í skólanum.

Mynd / Unsplash

Gert ráð fyrir að maður sé í sárum

- Auglýsing -

Ein vinkona mín skildi við sinn mann nokkrum mánuðum á undan mér, eftir svipað langt hjónaband. Hún er enn að jafna sig eftir skilnaðinn, mörgum árum seinna. Hún segist ekki skilja hvernig ég geti verið svona sterk og laus við allar tilfinningar í garð míns fyrrverandi. Munurinn á okkur vinkonunum er sá að hún átti ekki von á því að skilja. Hún taldi sig vera í góðu hjónabandi og hamingjusamlega gifta. Það kom algjörlega aftan að henni þegar maðurinn hennar sagðist elska aðra konu og vilja skilnað.

Í mínu tilfelli var þetta kærkomið og löngu tímabært. Það hvarflar aldrei að mér að mig langi að snúa til baka, ég hugsa aldrei um að vilja breyta neinu sem var eða að gott hefði verið að breyta einhverju til að bjarga hjónabandinu og ég sakna einskis úr gamla lífinu mínu. Ég lifi frábæru lífi í dag og gæti ekki verið ánægðari með allar breytingarnar sem hafa orðið til góðs.

Samt finnst mér sumir gera ráð fyrir því að ég sé í sárum. Hann strax kominn með nýja konu og farinn að búa með henni, en ég „bara ein með strákana mína“. Hvers vegna heldur fólk að einhleypi aðilinn geti ekki verið hamingjusamur þrátt fyrir að vera ekki kominn í annað samband?

Auðvelt að skella skuldinni á biturleika og afbrýðisemi

En svo eru það samskiptin við fyrrverandi sem telur að minnsti pirringur í hans/hennar garð þýði að maður sé afbrýðisamur, svekktur og gráti í koddann yfir þessari „fullkomnu guðsgjöf“ sem rann manni úr greipum við skilnaðinn.

Ekkert má segja, hvað þá ef það telst vera gagnrýni, án þess að fá þau viðbrögð að maður sé nú bara bitur og afbrýðisamur klikkhaus. Það er auðvelt að skella skuldinni á það, sem er svolítið ódýr afgreiðsla. Kannski á viðkomandi bara aðeins erfiðara með að horfa á upp hinn aðilann í góðum málum og líða vel, halda áfram að lifa sínu lífi þrátt fyrir að vera fráskilin/n og enn á lausu?

Ég reyndi að gúgla eitthvað um þetta, að hægt sé að vera hamingjusamur eftir skilnað, en vitið hvað? Það var hægara sagt en gert. Mjög mikið af því ég fann á netinu fjallaði um hversu erfitt það sé að horfa upp á nýjan aðila með nýjum maka, erfitt að sjá fyrrverandi glaða/n og ráð gefin um það hvernig hægt er að næla í fyrrverandi aftur (ugh, nei, takk!). Það er því kannski bara sjálfgefið að fólk haldi að sé maður einn eftir skilnað, sé maður óhamingjusamur. En ég held að því fari fjarri mun oftar en fólk gerir sér grein fyrir, og kæri sig um að átta sig á.

„Það er samt vesen að skilja. Það þarf að ákveða hver fær sparistellið, hver tekur köttinn, hver fær sjónvarpssófann og svo framvegis.“

Konur fara ekki strax á stúfana að leita að nýjum maka

Konur eru hamingjusamari og sáttari við lífið eftir skilnað en karlar, samkvæmt rannsókn sem gerð var í Bretlandi á tíu þúsund fráskildum konum og körlum fyrir nokkrum árum. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu fram á að ástæðurnar fyrir því væru helst þær að konur:

*Leituðu sér frekar aðstoðar við að vinna úr sínum málum en karlar.

*Fengju frekar styrk frá góðum vinum og fjölskyldum.

*Leituðu frekar inn á við til að takast á við vandann á meðan karlarnir leituðu að einhverju út á við.

*Notuðu síður áfengi, eiturlyf, ný sambönd og skyndikynni til að dreifa huganum frá skilnaðinum.

*Færu frekar að upplifa nýja hluti en karlar til að auðga líf sitt og gefa þeim von fyrir framtíðina.

*Væru líklegri til að forgangsraða þörfum sínum.

*Hefðu meiri þrautseigju til að halda áfram að sinna því sem þarf að sinna, t.d. skyldum varðandi börnin, og njóta þess þrátt fyrir að vera makalausar.

*Væru ekki tilfinningalega sterkari en karlar en tækjust öðruvísi á við tilfinningaleg áföll og ættu þannig auðveldara með að halda áfram lífi sínu og vera hamingjusamari en karlar eftir skilnað.

*Væru líklegri til að vera sáttar í eigin skinni en karlar. Þær hefðu ekki áhyggjur af því að vera einar og skildu mikilvægi þess að ná að jafna sig almennilega eftir skilnaðinn og vinna úr sínum málum áður en þær stykkju í annað samband. Þær færu ekki strax á stúfana að leita að einhverjum sem kæmi í stað þeirra fyrrverandi, eins og karlar gera svo gjarnan.

„Það er kannski bara sjálfgefið að fólk haldi að sé maður einn eftir skilnað, sé maður óhamingjusamur.“

Bakpokinn léttist ekki nema tekið sé til í honum

Auðvitað þekkir maður dæmi þess að konur eigi erfitt með að vera einar og stökkvi úr einu sambandi yfir í annað, en án þess að hafa neinar vísindalegar staðreyndir fyrir mér í því finnst mér eins og það sé algengara að karlarnir stökkvi frekar strax eða fljótlega í nýtt samband. Að minnsta kosti er það nær undantekningalaust þannig í þeim tilfellum sem eru í kringum mig.

Við konur erum líka svo miklar tilfinningaverur, við hugsum með hjartanu en karlar með … tjah, þriðja auganu sem er staðsett neðarlega fyrir miðju?

Kannski eiga karlar svona erfitt með að vera einir eða hafa þörf fyrir að sýna að þótt þeir hafi verið að skilja sé allt í himnalagi hjá þeim því þeir séu sko komnir með nýja skvísu upp á arminn. En málið er það, að hafi bakpokinn sem við ferðumst öll með í gegnum lífið verið fullur af drasli í gamla sambandinu léttist hann ekkert þegar farið er yfir í það næsta ef draslið er ekki tæmt úr honum. Þetta er líka svolítið eins og með geymsluna, maður er rosalega ánægður með það hvað er mikið pláss í henni en hún er fljót að fyllast ef maður er alltaf að henda einhverju inn í hana án þess að fara reglulega með dót úr henni í Sorpu.

Þannig að vesenið fylgir bara yfir í næsta samband ef ekkert er gert, því tiltektin byrjar jú hjá manni sjálfum. Oft er það nefnilega svo að maður vill gjarnan kenna öðrum um óhamingjuna og það sem miður fer í stað þess að líta í eigin barm. Og þá er nú líka gott að fara strax yfir í annað samband; ástarblossinn yljar og fær mann til að gleyma hinum leiðindunum. En þetta er eins og að míga í skóinn sinn til að hlýja sér, það yljar bara í skamma stund.

Að öðlast frelsi var eitt, að eigna þér það frelsi var annað.“ -Toni Morrison

Vonandi gerir maður ekki aftur sömu mistök

Pirringur í samskiptum við fyrrverandi stafar ekki endilega af því að maður sé afbrýðisamur og tilfinningar í hans/hennar garð séu að bera mann ofurliði. Hafið þið hugsað um það að kannski stafar pirringurinn af áralangri óhamingju með viðkomandi, af því að maður er loksins laus við hann en nei, þarf samt að eiga í samskiptum við hann barnanna vegna. Og þótt maður reyni að vanda sig í samskiptunum einmitt þeirra vegna, er það bara drulluerfitt af því að fyrrverandi er enn þá sami leiðindapúkinn og hann var í sambúðinni hérna um árið.

Að vissu leyti er erfitt að viðurkenna að maður sé hamingjusamari en nokkru sinni fyrr eftir skilnað. Er maður þá að segja að maður hafi verið óhamingjusamur í mörg ár og sætt sig við það þegjandi og hljóðalaust? Hvers vegna gerði maður ekkert í málunum? Hugsa sér öll árin, sem maður var óhamingjusamur og sóaði dýrmætum tíma. „Sorrí, krakkar, en ég elskaði ekki pabba ykkar/mömmu ykkar í rauninni, þetta rúllaði bara einhvern veginn. Ekki gera eins og ég, veljið ykkur frábæran maka sem þið eruð ótrúlega ánægð með og viljið verða gömul með.“

Ég viðurkenni að lengi vel fannst mér ég eiga að segja fólki að ég væri voðalega leið eftir skilnaðinn, af því „að það þannig er það bara hjá öllum“ og af því að mér fannst vandræðalegt að viðurkenna að ég hefði einfaldlega látið það yfir mig ganga að vera óhamingjusöm í mörg ár.

„Ég vil frekar iðrast þess sem ég gerði en þess sem ég gerði ekki.“ -Lucille Ball

Það er hægt að verða hamingjusamur á ný

En svo lengi lærir sem lifir og það góða við að átta sig á því og viðurkenna að maður sé hamingjusamari núna en áður, er að þá eru vonandi litlar sem engar líkur á því að maður geri sömu mistök í makavali þegar þar að kemur. Svo er líka gaman að rasa aðeins út, njóta þess að kynnast nýju fólki og leyfa sér að hafa gleði í lífinu. Þetta er tilvalið tækifæri til að finna sjálfa/n sig upp á nýtt, finna sér ný áhugamál, ferðast – já, jafnvel ferðast ein/n, það er ekkert að því. Að fara ein til sólarlanda síðustu árin er til dæmis ein besta ákvörðun lífs míns.

Fyrir þau ykkar sem eruð að skilja, langar að skilja eða eruð nýskilin, munið að þið voruð hamingjusöm áður en þið fóruð í þetta samband eða giftuð ykkur og getið alveg orðið hamingjusöm á ný. Þið þurfið ekki maka til að gera ykkur hamingjusöm.

Við höfum alltaf val um það hvernig við lítum á aðstæðurnar. Það ert þú sem hellir sjálf/ur í glasið, svo þú ræður hvort þú hellir það hálftómt eða hálffullt.

„Hafi bakpokinn sem við ferðumst öll með í gegnum lífið verið fullur af drasli í gamla sambandinu léttist hann ekkert þegar farið er yfir í það næsta ef draslið er ekki tæmt úr honum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -