Þriðjudagur 3. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Hrein og fín á jólunum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á aðfangadag finnst flestum ómissandi að fara í gott jólabað. Mörgum hættir til að láta annað ganga fyrir okkar yndisstund, hvort sem það eru þrif, eldamennska eða baðtími barnanna. Í ár ættu allir að reyna að gefa sér örlítinn tíma, það þarf ekki að vera meira en tuttugu mínútur, til að lygna aftur augunum, láta stressið líða úr sérog komast í jólaskap. Hér eru nokkur góð ráð til að tryggja yndislegt jólabað.

 

Leyfðu þér þann munað að leggjast aftur með lokuð augu og gleyma jólastressinu í nokkrar mínútur.

Til að skapa huggulega birtu og jólalega stemningu á baðherberginu má hengja upp ljósaseríu, til dæmis yfir baðherbergisspegilinn. Einnig er gott kveikja á kertum og ekki er verra ef þau eru með jólailm.

Notaðu ilmolíur í baðið til að auka vellíðan og slökun. Olíur, eins og mandarínu-, rósmarín- og furuolía, eru mjög jólalegar en einnig er hægt að fá hjá Jurtaapótekinu blandaða jólaolíu sem ilmar dásamlega. Best er að bæta nokkrum dropum af olíu út í þegar baðið er hálffullt, þannig dreifist hún best. Einnig má blanda henni út í epsom-salt og hámarka slökunina. Saltið er ríkt af magnesíum sem eykur blóðflæði til húðar og hjálpar til að losa um bjúg og bólgur.

Leyfðu þér þann munað að leggjast aftur með lokuð augu og gleyma jólastressinu í nokkrar mínútur. Gott er að fjárfesta í uppblásnum baðkodda sem er festur á baðið með sogskálum en einnig er hægt að nota upprúllað handklæði.

Hlustaðu á uppáhaldsjólalögin þín og syngdu með. Þegar maður er búinn að hringsnúast í eldhúsinu allan daginn hættir manni til að gleyma því hversu skemmtileg jólin eru. Það er fátt sem kemur manni í jafnmikið jólaskap og jólatónlist, sérstaklega lögin sem hafa verið í uppáhaldi frá barnæsku.

Láttu handklæðin hitna aðeins á ofninum á meðan þú liggur í baði.

Hafðu sparihandklæðin tilbúin þegar þú kemur upp úr baðinu því það er einfaldlega ekki eins hátíðlegt að þurrka sér með hörðu, slitnu handklæði. Sniðugt ráð er að leyfa handklæðunum að hitna aðeins á ofninum á meðan þú liggur í baði og gera líka slíkt hið sama við baðsloppinn. Þá verður lítið sem ekkert hitatap þegar þú stígur upp úr baðinu.

- Auglýsing -

Þeir sem eru latir við að bera krem á líkamann en vilja samt halda honum mjúkum ættu að prófa að setja olíu í baðið. Olían gerir það að verkum að húðin verður silkimjúk eftir baðið án nokkurrar fyrirhafnar. Til eru sérstakar olíur frá snyrtivörufyrirtækjum sem oftar en ekki innihalda líka ilmolíur en það er ekkert því til fyrirstöðu að nota olíur sem eru þegar til á heimilinu, eins og til dæmis kókosolíu eða möndluolíu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -