Fimmtudagur 18. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Inni í eldfjalli

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Skammt frá skíðasvæðinu í Bláfjöllum er Þríhnjúkagígur, eina eldfjallið sem vitað er um að hægt sé að skoða að innanverðu. Gígurinn er alls um 170 metra djúpur og fyrir átta árum tóku þrír ævintýramenn sig til og hófu að bjóða upp á ferðir niður í gíginn með lyftu. Vikan fór í slíka ferð á dögunum og hitti meðal annars Ólaf Þór Júlíusson, einn af eigendum Inside the Volcano. 

Gangan frá skíðasvæðinu að gígnum tekur um 35 mínútur, stoppað er tvisvar og við fáum ýmsan fróðleik beint í æð. „Gígurinn er um 4000 þúsund ára gamall og eldfjallið hefur legið í dvala síðan þá, það er ólíklegt að það vakni akkúrat í dag, en aldrei að vita,“ segir Ragnar Ísleifur Bragason leiðsögumaður meðal annars í gamansömum tóni. Veðrið er gott þennan dag en það getur verið ansi áveðrasamt, mikill vindur og rigning en svæðið er eitt það rigningamesta á landinu öllu.

Lyftan flutt með þyrlu

Hópnum er skipt í minni hópa þar sem við getum eðlilega ekki farið öll niður með lyftunni í einu. Kristján er farinn að gera lyfturnar klárar en ég næ að hitta á Ólaf Þór Júlíusson og spyrja hann aðeins út í þetta mikla ævintýri sem átti sér töluverðan aðdraganda áður en opnað var fyrir ferðamenn 2012. „Fyrsti leiðangurinn í gíginn var farinn árið 1974 þegar Árni B. Stefánsson augnlæknir lét tíu vini sína slaka sér niður með kaðli. Fyrir þann tíma var ekki vitað hvað var þarna niðri og hversu djúpur gígurinn var. Hann var ekki lengi niðri enda voru þeir ekki með talstöð og menn vissu ekkert hvernig ástandið var þarna þannig að Árni var fljótlega togaður upp aftur. Hann var heldur ekki með gott ljós þannig að hann sá ekki litadýrðina og sagði þegar upp kom að honum þætti þetta ekkert merkilegt,“ segir Ólafur hlæjandi.

„Fyrsti leiðangurinn í gíginn var farinn árið 1974 þegar Árni B. Stefánsson augnlæknir lét tíu vini sína slaka sér niður með kaðli.“

Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Meðeigendur hans að Inside the Volcano eru þeir Björn Ólafsson og Einar Kristján Stefánsson en þeir hafa allir verið í fjallamennsku frá barnsaldri. Einar Kristján er einn af eigendum verkfræðistofunnar VSÓ en það var árið 2004 sem hann, Björn og áðurnefndur Árni B. Stefánsson stofnuðu félagið Þríhnjúka ehf. og hófu, í samvinnu við VSÓ, athuganir á raunhæfi þess að gera Þríhnjúkagíg aðgengilegan almenningi og ekki síður að tryggja að gígurinn og umhverfi hans verði varðveitt. Meðal þess sem komið hefur úr þeirri vinnu er teikning af 350 metra löngum göngum sem liggja inn í gíginn að útsýnispalli í um það bil 50 metra hæð inni í gígnum. Vera má að þetta verði einhvern tíma að veruleika en hins vegar var ráðist í þá verkfræðilegu framkvæmd að smíða lyftu sem sígur niður í gíginn. „Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan við gerðum fyrstu lyftuna sem tekin var í notkun í tengslum við komu fjölmiðlafólks frá National Geographic árið 2008. Lyftan hefur verið betrumbætt mikið síðan og eftir að við opnuðum formlega fyrir ferðafólk árið 2012 erum við á þriðju versjón af lyftu. Til að koma öllu sem henni tengist hingað að gígnum notum við þyrlu Landhelgisgæslunnar og það sama á við um allt sem tengist aðstöðuhúsunum, allt er flutt hingað með þyrlu eða með snjóbíl yfir háveturinn. Hingað má ekkert farartæki keyra,“ bætir Ólafur við.

Stórkostleg litadýrð

- Auglýsing -
Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Þegar búið er að fara yfir öryggisatriði, fara á klósettið og jafnvel klæða sig betur er komið að því að fara í gíginn. Hitastigið niðri er í kringum 3°C allan ársins hring og ef einhverjir hafa gleymt hlýjum fötum þá er eitthvað slíkt til sölu í aðstöðuhúsi við gíginn, auk minjagripa. Allir fara í nokkurs konar klifurbelti og fá hjálm á höfuðið. Ástæðan fyrir klifurbeltinu er að allir eru festir við brúna að lyftunni og við lyftuna sjálfa til að gæta fyllsta öryggis. Um 120 metrar eru niður á botninn sem lyftan fer en gígurinn liggur sjálfur töluvert neðar. Sóley Ólafsdóttir leiðsögumaður fylgir okkur að gígnum og Kristján Maack stýrir lyftunni niður. Svo er sigið af stað, fyrst í gegnum þröng göngin efst í gígnum og strax förum við að sjá fallegar hraunmyndanir. Þegar búið er að síga um 50 metra opnast sjálf hvelfingin sem er gríðarstór. Búið er að lýsa hana að innan og litadýrðin sem blasir við er stórkostleg. Botninn er verulega grýttur en útbúnir hafa verið göngustíga til að auðvelda fólki gönguna þar og passa upp á öryggi þess. Hver hópur er í 45 mínútur niðri í gígnum og er „frjáls ferða sinna“ á meðan. Ragnar er samt sem áður til staðar og tilbúinn að svara spurningum og rétta hjálparhönd í hvívetna – ekki síst við að taka myndir af frá sér numdum gestum. Ég viðurkenni að upplifunin er hálfóraunveruleg, svo magnað er að vera stödd á þessum einstaka stað. Ég er í síðasta hópnum til að fara upp og þá hefur Ólafur tekið við stýrinu, ef svo má að orði komast. Ég rétt næ að kalla hann frá borði til að geta smellt af honum mynd og síðan lyftumst við löturhægt til baka upp á yfirborð jarðar.

Það er virkilega gott að koma aftur inn í hlýtt og notalegt aðstöðuhúsið við gíginn þar sem Jónas tekur á móti okkur með rjúkandi heita súpuna. Gott að fá þessa kjarngóðu næringu og hlýju í kroppinn. Eftir næringu og gott spjall er svo bara að ganga þessa þrjá kílómetra til baka að bílunum, njóta ferskrar golunnar og hugleiða þessa einstöku heimsókn sem heilt yfir var dásamleg upplifun frá upphafi til enda sem sannarlega er hægt að mæla með.

Myndir: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -