Fimmtudagur 10. október, 2024
2.4 C
Reykjavik

Líkaminn er gerður til þess að hreyfa sig

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hreiðar Júlíusson á að eigin sögn tvö sjálf, annars vegar sem kvikmyndaframleiðandi en hins vegar sem hlaupaþjálfari. Sjálfin tvö lenda þó sjaldnast í útistöðum en áhugi Hreiðars á útihlaupum kviknaði fyrir fimm árum þegar hann gekk til liðs við Skokkhóp Hauka.

Hreiðar Júlíusson heillaðist af hlaupum fyrir nokkrum árum og er nú hlaupaþjálfari hjá Skokkhópi Hauka í Hafnarfirði.

Á daginn vinnur Hreiðar við að búa til auglýsingar, kynningar og annað kvikmyndað efni hjá PIPAR/tbwa sem hann segir skemmtilegasta vinnustað í heimi. Síðla dags taka svo hlaupin yfir líf hans en hann þjálfar hlaupahóp ásamt því að aðstoða hlaupara sem glíma við meiðsl. „Starf mitt sem kvikmyndaframleiðandi er ótrúlega fjölbreytt og skemmtilegt. Hitt sjálfið mitt, hlaupaþjálfarinn varð til fyrir um það bil fimm árum þegar ég mætti á fyrstu æfinguna með Skokkhópi Hauka. Ég hafði aðeins prófað að hlaupa sjálfur en eftir að hafa mætt á fyrstu æfinguna með hópnum var ekki aftur snúið, ég var kolfallinn fyrir sportinu og hef nú verið aðalþjálfari hópsins í rúmlega ár. Þetta er einn stærsti hlaupahópur landsins en ég er reyndar líka í hlaupahópi PIPAR/tbwa sem hleypur í hádeginu tvisvar í viku þegar vel gengur.“

Erfiðasta maraþonið það eftirminnilegasta
Hreiðar er vel að sér þegar kemur að hlaupagreingu en hann sótti meðal annars námskeið í London þar sem hann lærði að greina hlaupastíl. Hann tekur nú að sér að aðstoða hlaupara sem glíma við meiðsl og skoða hvað betur megi fara til að ná bættari árangri. „Ég hef stúderað mikið hlaupastíl hjá hlaupurum og fór á námskeið í hlaupagreiningu hjá Kinetic Revolution í London. Sumir hlauparar lenda í því að hafa ekki styrk í ákveðnum vöðvum sem þyrftu að vera sterkir, eða hafa styrk en vera ekki að nota vöðvana. Oft myndast misræmi í styrk hægra og vinstra megin á mjaðmasvæðinu og svo venur fólk sig á að hlaupa þannig. Þá endar fólk yfirleitt í meiðslum, jafnvel ítrekað. Þá er gott að geta komið auga á vandamálið og leiðbeint fólki um styrktaræfingar eða breytingu á hlaupastíl. Það þarf ekki að vera flókið. Það er nefnilega svo margt sem heillar við hlaupin. Útiveran, félagsskapurinn, áhrifin á andlega og líkamlega líðan en ekki síst það að setja sér langtímamarkmið og vinna að þeim. Eins og að stefna að einhverju keppnishlaupi eftir sex eða tólf mánuði annaðhvort í einstakri íslenskri náttúru eða einhvers staðar erlendis.“

Sjálfur hefur Hreiðar tekið fjórum sinnum þátt í maraþonhlaupum erlendis og tvisvar hlaupið Laugarveginn sem er 55 kílómetra langur. Hann segir hlaupin gerólík í alla staði. „Fyrsta maraþonið sem ég fór í var upphaflega leiðin frá Marathonas til Aþenu í Grikklandi, 42,2 kílómetrar í miklum hita og yfir töluverða hækkun, það er líklegasta erfiðasta maraþonið mitt en líka það eftirminnilegasta. Reyndar fannst mér Berlínarmaraþon líka alveg gjörsamlega frábært. Að hlaupa Laugaveginn er allt öðruvísi, undirbúningurinn er lengri og reynir á annan hátt á styrk hlaupara. Upplifunin er hreint ótrúleg, landslagið og náttúran, allir hinir hlaupararnir sem maður hittir á leiðinni, allt þetta springur út í hamingjubombu inn í Þórsmörk þegar manni er fagnað í markinu, ólýsanlegt.“

Það er ofsalega auðvelt að byrja í hlaupahóp. Flestir hópar eru með nýliðanámskeið á vorin og er það mjög sniðug leið til að byrja, sérstaklega fyrir þá sem eru alveg á byrjunarreit.

Skórnir skipta öllu máli
Þegar Hreiðar er spurður hvað óvanir hlauparar ættu að hafa í huga segir hann hlaupaskóna gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki og best sé að leita ráða hjá fagfólki „Fólki þarf að líða vel í skónum og hafa ber í huga að gæði dempunar í hlaupaskóm rýrna mjög eftir um það bil tvö ár, einnig ef þeir eru nýttir til daglegra nota. Léttur þægilegur hlaupafatanður sem hentar veðri hverju sinni er eiginlega nauðsynlegur og gerir upplifunina mun betri.

Það er ofsalega auðvelt að byrja í hlaupahóp. Flestir hópar eru með nýliðanámskeið á vorin og er það mjög sniðug leið til að byrja, sérstaklega fyrir þá sem eru alveg á byrjunarreit. Almennt mæli ég með að fólk finni sér hlaupahóp í næsta nágrenni. Þá er stutt að fara á æfingar og að auki kynnist maður fólkinu í nærumhverfinu og tengist betur inn í samfélagið. En yfirleitt snýst þetta bara um að finna hóp og mæta í hlaupagallanum. Allir hlaupahópar sem ég þekki eru með allskonar fólk á öllum aldri, hæga hlaupara og hraða. En það skiptir ekki máli því hver og einn fer á sínum hraða, flestir finna fljótt einhvern sambærilegan félaga til að hlaupa með.“

Þegar talið berst að áhættum þess sem felst í hlaupum segir Hreiðar fólk vissulega misjafnt af guði gert en hreyfing sé flestum eðlislæg. „Að mínu mati er hollt að hlaupa en auðvitað eru einhverjir sem eru sérlega viðkvæmir. Líkaminn er þó gerður til þess að hreyfa sig, ganga og hlaupa. Aðalmálið er að fara varlega af stað, reyndar mjög varlega. Þetta snýst allt um að venja líkamann við nýtt álag og það tekur nokkuð langan tíma fyrir stoðkerfið að vera tilbúið í mikil hlaup. Þolið og styrkurinn er hins vegar oftast fljótt að aukast og þá skapast vandamál. Allt í einu hefurðu getu til að hlaupa meira og hraðar en stoðkerfið segir nei. En ef varlega er farið þá má búast við að úthald og styrkur aukist, aukakílóum fækki, beinþéttni bætist, almenn hreysti aukist og andleg líðan verði betri.“

„Ég er hlynntur því að hver æfing hafi sinn tilgang og markmið og því nauðsynlegt að gera æfingarnar eins vel og hægt er og á réttum hraða en það lærist fljótt. Til viðbótar góðum hlaupaæfingum er líka algjörlega nauðsynlegt að gera styrktaræfingar jafnhliða hlaupunum en það hjálpar gríðarlega við að komast hjá meiðslum og ná meiri árangri.“

- Auglýsing -

Lengsta og hægasta hlaupið tekið um helgar
Hreiðar segir að flestir sem æfi langhlaup blandi saman mismunandi æfingum. „Algengt er að taka þrjár lykilæfingar í hverri viku, endurteknir stuttir sprettir með hvíld á milli, langir sprettir á þægilega erfiðum hraða eða svokallaðir tempókaflar, svo taka flestir lengsta og hægasta hlaup vikunnar um helgar. Ég er hlynntur því að hver æfing hafi sinn tilgang og markmið og því nauðsynlegt að gera æfingarnar eins vel og hægt er og á réttum hraða en það lærist fljótt. Til viðbótar góðum hlaupaæfingum er líka algjörlega nauðsynlegt að gera styrktaræfingar jafnhliða hlaupunum en það hjálpar gríðarlega við að komast hjá meiðslum og ná meiri árangri.“

Margir bera fyrir sig veðurhræðslu þegar til stendur að fara út að skokka en Hreiðar segir að sjaldan sé veður of vont fyrir útihlaup. „Ég neita því ekki að fallegt og milt vor eða haustveður er mitt uppáhald. Ekki of heitt en birtan samt svo falleg. Annars líður mér vel að hlaupa í öllum veðrum og nokkrar af eftirminnilegustu hlaupaæfingunum mínum eru í veðurham þar sem fólki er ráðlagt að halda sig innandyra. Það er mikil aukning í þessu sporti en við hjá Skokkhóp Hauka höfum tekið eftir gríðarlegum áhuga nýliða þetta árið, það mæta ofsalega margir á æfingar enda er félagsskapurinn frábær. Í ár er ég svo að æfa fyrir Laugavegshlaupið í þriðja sinn en eftir það hefst undirbúningur fyrir Munchen Maraþon. Þangað er skokkhópurinn minn að fara í október, nærri hundrað manns. Nýlega er Hvítasunnuhlaupi Hauka lokið en það fór fram 21. maí síðastliðinn og heppnaðist frábærlega. Aldrei hafa fleiri tekið þátt og fjögur brautarmet féllu. Við höfum lagt okkur fram um að búa til frábæra stemningu og hafa glæsilega umgjörð sem hæfir einstakri náttúrunni í upplandi Hafnarfjarðar.“

Texti / Íris Hauksdóttir.
Mynd / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

- Auglýsing -

Viðtalið birtist í 19. tbl Vikunnar.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -