Fimmtudagur 28. mars, 2024
3.8 C
Reykjavik

Lítil kríli með viðkvæma húð

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Góð ráð fyrir húðumhirðu barna.

Það er fátt yndislegra en silkimjúk og ilmandi húð ungbarna. Hún er samt miklu þynnri og viðkvæmari en húð okkar fullorðna fólksins. Þess vegna þarfnast hún góðrar umhirðu og verndar fyrsta árið. Hér eru nokkur góð ráð fyrir húðumhirðu barna.

Bleyjubossar
Þrífa þarf bossann á bleyjubörnum reglulega því það eru efni í þvagi sem geta brennt viðkvæma rassa, rétt eins og kúkur. Sumir kjósa að nota þartilgerða blautklúta en það er nóg að nota bara rakan þvottapoka eða svampklút. Ef bleyjuútbrot fara að láta á sér kræla er mikilvægt að þrífa svæðið við hver bleyjuskipti, þerra það vel og bera síðan Zink-krem á rauða rassa til að koma í veg fyrir frekari útbrot. Einnig er gott að viðra bossann eins oft og mögulegt er.

Þvottur, þvottur og meiri þvottur
Það er ekki síður nauðsynlegt að hugsa út í hvernig við þvoum föt barna. Fötin liggja á viðkvæmri húð barnsins allan daginn og því er mikilvægt velja þvottaefni sem eru mild og örugg. Margir mæla með að sleppa mýkingarefnum alveg því þau innihalda oft mikið magn ilmefna sem eru ofnæmisvaldandi.

Margir foreldrar hafa áhyggjur af því að þeir þurfi að þvo barnafötin sér. Vissulega er þess þörf ef þú notar sterkari þvottaefni og mýkingarefni á annan þvott heimilisins. Hví ekki nota tækifærið og byrja að nota mildari, sem og umhverfisvænni, þvottaefni fyrir allan þvott? Afraksturinn gæti komið þér á óvart.

Lítil, skrítin skán
Algengt er að það myndist skán í hársverði ungbarna sem er gulbrúnt fitukennt hrúður. Þessi skán er algengust ofan á hvirfli en getur einnig verið á öðrum afmörkuðum blettum eða um allan hársvörðinn. Skánin er hættulaust ástand sem varir yfirleitt ekki lengi. Þetta veldur barninu ekki óþægindum og verður minna áberandi eftir því sem meira hár vex á höfði barnsins.

Alls ekki reyna að kroppa skánina í burtu án þess að mýkja hana upp áður, þá gæti farið að blæða úr hársverðinum og myndast sýking. Best er að bera góða jurtaolíu, svo sem möndlu-, jarðhnetu- eða ólífuolíu, í hársvörðinn áður en barnið fer að sofa. Þá mýkist skánin yfir nótt og morguninn eftir er notuð fíngerð greiða eða bursti til að bursta skánina varlega, ekki fara of nærri hársverðinum þannig að höfuðleðrið ertist. Að lokum þarf að þvo höfuðið og þá skolast hrúðrið að mestu leyti burtu. Þetta gæti þó þurft að endurtaka nokkrum sinnum.

- Auglýsing -

Vanda valið á kremum
Það er mjög mikilvægt að velja vandlega það sem borið er á húð ungra barna. Það er staðreynd að mörg efni geta valdið ofnæmi eða aukið hættu á húðvandamálum síðar á ævinni. Yfirleitt þarf ekki að bera neitt sérstaklega á húð barns en stundum fá börn exem eða mikinn þurrk, sérstaklega yfir vetrartímann. Þá er mikilvægt að nota krem sem hafa verið ofnæmisprófuð í þaula og innihalda hvorki ilmefni né önnur skaðleg efni. Fyrirtæki eins og Eucerin, Neutral og Weleda framleiða mjög góðar vörur sem eru sérstaklega ætlaðar fyrir ungbörn. Einnig geta börn fengið svokallaðar hormónabólur á andlitið vegna hormóna í móðurmjólkinni. Þessar bólur eru fullkomlega eðlilegar og hverfa af sjálfu sér á nokkrum vikum svo best er að láta þær alveg í friði. Þær ná oft hámarki um sex vikna aldur en fara svo að hverfa.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -