Kristín Þóra segir áhorfendur geta búið sig undir mikið sjónarspil.
Leikritið Medea var frumsýnt um helgina í Borgarleikhúsinu en óvænt hlutverkaskipti urðu í verkinu á miðju æfingartímabili.
Kristín Þóra Haraldsdóttir fer með titilhlutverk sýningarinnar og segir hún æfingarferlið hafa verið lærdómsríkt og gefandi. „Verkið er heilmikil áskorun sem einkennist auðvitað einna helst á því hversu krefjandi karakter Medea er. Þetta hefur því eðli málsins samkvæmt tekið aðeins á. Að mínu mati væri óeðlilegt ef æfingarferlið hefði verið auðvelt. Þetta er þannig verk.”
Eins og frægt hefur orðið urðu breytingar innan leikhópsins þegar æfingarferlið var langt komið, en þá steig Hjörtur Jóhann Jónsson inn í annað burðarhlutverk sýningarinnar sem Jason, eiginmaður Medeu. Hlutverkið átti áður að skipa Atla Rafn Sigurðarsyni sem vikið var frá störfum nú fyrir skömmu. Kristín Þóra segir Hjört Jóhann hafa orðið við áskoruninni og gert ákaflega vel úr hlutverkinu á ótrúlega skömmum tíma. „Hjörtur Jóhann kom gríðarlega sterkur inn, lærði textann sinn um jólin og stendur sig með glæsibrag enda magnaður leikari og einstakur listamaður.”
Sjálf segist Kristín Þóra hafa nálgast sinn karakter á sama hátt og með alla aðra karaktera sem hún hefur tekist á við. „Ég hugsa fyrst og fremst, hvað er það sem drífur þessa konu áfram. Ég grúskaði mikið í grískri goðafræði en eins og flestir vita er Evripídes höfundur verksins sem skrifað var fyrir 2400 árum síðan. Ég velti upp stöðu kvenna á þeim tíma sem verkið var skrifað og einnig stöðu kvenna í dag. Einnig hef ég skoðað sorg og áföll hvernig við bregðumst við í slíkum aðstæðum. Medea er í miðju sorgarferli. Hvað gerist hjá okkur þegar við erum stödd í miðjum stormi, líkamlega og tilfinningalega, hvað gerist sem dæmi í heilanum þegar við förum í,,flight mode“. Svo auðvitað læra textann sem er nú engin smábiti og dansa með mótleikurunum og leikstjóranum Hörpu Arnardóttur sem hjálpa mér að komast nær karakternum.”
„Hjörtur Jóhann kom gríðarlega sterkur inn, lærði textann sinn um jólin og stendur sig með glæsibrag enda magnaður leikari og einstakur listamaður.”
Nú þegar frumsýningin er yfirstaðin þar sem fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna er óhætt að segja áhorfendur geti búið sig undir magnað sjónarspil. „Ég held að áhorfendur ættu að hugsa um þetta sem mikið ferðalag. Leikmynd og búningar Filippíu Elísdóttur eru konfekt fyrir augað, lýsing Björns Bergsteins er töfrandi eins og hann er þekktur fyrir. Tónlist Valgeirs Sigurðssonar er algjörlega mögnuð, ein sú flottasta sem ég hef heyrt í leikhúsi. Vonandi náum við leikararnir að segja þessa sögu, sýna mennskuna í þessum karakterum og hreyfa við áhorfendum. Við gerum allavega okkar besta til að svo verði.”
Texti / Íris Hauksdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson