Þriðjudagur 10. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Of föst í vélrænni nálgun á líkamlega heilsu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tengslin á milli áfalla í æsku og sjúkdóma síðar á lífsleiðinni eru sterk. Margrét Ólafía Tómasdóttir heimilislæknir skrifaði doktorsritgerð sína um málefnið en henni finnst tími til kominn að kafa dýpra og hætta að nálgast líkamlega heilsu á vélrænan hátt.

Áhuginn á umfjöllunarefni ritgerðarinnar vaknaði á síðasta ári Margrétar í læknisfræði, í heimilislæknisfræðikúrsi. „Læknanámið hafði fram að því verið fókuserað á ákveðna líffræði og líffærakerfi og í raun oftast án mikils samhengis við önnur kerfi í líkamanum. Svolítið í stíl við sérgreinalækningar þar sem aðaláherslan er lögð á eitt líffæri. Sumarið fyrir síðasta árið vann ég á Slysa-og bráðadeild og fannst sú reynsla frábær. En það voru ákveðnir hlutir sem mér fundust sláandi. Það voru þeir einstaklingar sem leituðu endurtekið á deildina með óútskýrða verki. Ég velti því oft fyrir mér hvort væri ekki eitthvað meira sem lægi þar að baki. Á síðasta árinu í heimilislæknisfræðikúrsinum lásum við svo grein um samspil streitukerfa líkamans og hvernig þau geta krossverkað og breytt líffræði líkamans til lengri tíma ef við lendum í alvarlegum áföllum eða erfiðleikum þar sem streitan í okkur verður „eitruð“ ef svo má segja.“

Margrét segir það hafa verið púslið sem vantaði inn í myndina í læknanáminu. Að líta á hlutina í stærra samhengi, líkamann í heild sinni og félagslegt umhverfi um leið. „Fyrir mér var svo fullkomlega rétt að hugsa þetta svona. Þegar ég fór að vinna á heilsugæslunni á kandidatsárinu mínu sannfærðist ég enn frekar um þetta. Þar hitti ég margt fólk sem glímdi einmitt við þessi vandamál – sögu um áföll og marga líkamlega sjúkdóma. Svo var það eiginlega þannig að mér bauðst að gera verkefni um þessi mál – ef ég væri til í að fara gegnum doktorsnám. Ég hafði í raun ekki hugsað mér að fara í doktorsnám en þegar ég heyrði af þessu verkefni gat ég eiginlega ekki annað en stokkið til,“ segir Margrét og sér svo sannarlega ekki eftir því í dag.

Á síðasta árinu í heimilislæknisfræðikúrsinum lásum við svo grein um samspil streitukerfa líkamans og hvernig þau geta krossverkað og breytt líffræði líkamans til lengri tíma ef við lendum í alvarlegum áföllum eða erfiðleikum þar sem streitan í okkur verður „eitruð“ ef svo má segja.

Heilastöðvar þroskast minna

En hvað er það nákvæmlega sem gerist í líkamanum við slæmar upplifanir eða áföll í æsku og hvernig hefur það áhrif á heilsu okkar síðar meir? „Ef við hugsum bara um barnæskuna – og þá sérstaklega snemma í barnæsku – þá er í raun tvennt sem gerist. Í fyrsta lagi breytist þroskinn í heilanum, ákveðnar stöðvar heilans þroskast minna en þær ættu að gera. Það gerist í raun til að vernda okkur fyrir því sem er að gerast og breytir aðeins skynjun okkar á hlutunum en verður til vandræða seinna meir. Hitt sem gerist er að öll þau kerfi sem taka þátt í streitukerfi líkamans fara úr skorðum. Streitukerfin eru mjög mörg, svo sem ósjálfráða taugakerfið, hormónakerfið, ónæmiskerfið og heilaboðefnin og þau spila öll í kross hvert á annað. Við áföll eða langvarandi erfiðleika breytist virkni allra þessara kerfa. Það mætti segja að þau fari öll á yfirsnúning og til verður eitruð streita í líkamanum. Mörg kerfana ná svo ekki að jafna sig aftur þegar erfiðleikarnir eru liðnir hjá. Það leiðir svo til þess að við þróum með okkur sjúkdóma síðar.“

Aðspurð um mikilvægustu lexíuna sem hún lærði við það að kynna sér þessi mál til hlítar segir hún það hafa komið mest á óvart hversu lengi hefur verið horft fram hjá áhrifum félagslegs umhverfis á heilsufar. „Áhrif áfalla og erfiðleika á þróun sjúkdóma eru mjög sterk. Þau eru líklega sterkari áhættuþættir en margir þeir áhættuþættir sem við erum vön að einblína á í okkar klínísku vinnu, svo sem háþrýstingur eða of hátt kólesteról. Þrátt fyrir það er erfitt að koma þessum málum að og mögulega er það vegna einhverrar hræðslu við að taka á erfiðum málum en ef til vill vegna þess að við erum enn of föst í vélrænni nálgun á líkamlega heilsu.“

Áhrif áfalla og erfiðleika á þróun sjúkdóma eru mjög sterk. Þau eru líklega sterkari áhættuþættir en margir þeir áhættuþættir sem við erum vön að einblína á í okkar klínísku vinnu, svo sem háþrýstingur eða of hátt kólesteról.

Enginn opnað á ormagryfju barnæskunnar

Margréti finnst mikilvægt að það komi fram að það þurfi ekki endilega einhverja dramatíska nálgun þegar andlegi þátturinn kemur upp í samtali við lækna. „Rannsóknir hafa sýnt að bara það að samþykkja vandann og viðurkenna áhrif áfalla á heilsu hefur heilmikið að segja fyrir skjólstæðinginn og getur jafnvel fækkað heimsóknum til lækna og á bráðamóttökur.“

Margrét segist einnig hafa lært mikilvægi þess að hlusta á fólk. „Ég veit ekki hversu margir hafa komið til mín og opnað sig um að hafa gengið milli lækna endalaust en enginn hafi opnað á ormagryfju barnæskunnar.“

- Auglýsing -

Mikilvægt er fyrir líkamlega heilsu að vinna úr áföllum sem fólk verður fyrir en oft er ekki mögulegt að gera það jafnóðum. „Ákveðnum erfiðleikum getur verið gott að vinna úr strax, svo sem áfalli við að missa foreldri eða náinn vin. En flest þau áföll sem við erum að tala um, ofbeldi, vanræksla og slíkt, stendur yfir í langan tíma og eru oft mjög dulin. Þau eru jafnvel dulin börnunum sjálfum sem átta sig til dæmis ekki strax á að drykkja foreldra sinna sé óeðlileg. Þannig er kannski erfitt að ímynda sér hvernig ætti að vinna úr þeim strax.“

Hún segir þarft að opna á umræðu um þessi mál og kenna fólki hvernig best er að takast á við vandamál. „Það er alltaf mikilvægt að vinna úr erfiðleikunum þegar maður sjálfur áttar sig á að þeir hafi haft slæm áhrif á mann. Og ég held að það sé mjög oft ráð að fá faglega hjálp til að takast á við hlutina, einmitt vegna þess að erfiðleikar úr æsku og óuppbyggileg vinnsla úr þeim, getur smitað út frá sér, til dæmis yfir í sambönd á fullorðinsárum.“

Rannsóknir hafa sýnt að bara það að samþykkja vandann og viðurkenna áhrif áfalla á heilsu hefur heilmikið að segja fyrir skjólstæðinginn og getur jafnvel fækkað heimsóknum til lækna og á bráðamóttökur.

 Hið fullkomna heilbrigðiskerfi

Talið berst að hinu fullkomna heilbrigðiskerfi. Margrét segir mikilvægt að fá sálfræðinga á samning hjá Sjúkratryggingum svo að fólk hefði þá frekar efni á að leita til þeirra. „En það er fleira sem þarf að breytast. Ég held að fólk eigi til að gleyma því hvað heilsugæslan hefur upp á að bjóða og hversu stór partur af geðheilbrigðiskerfinu hún er. Um 20% af heimsóknum til heimilislækna til dæmis eru vegna andlegra vandamála. Þar fer fram mikil þjónusta. En það vantar stærra millistig. Göngudeildarþjónustu og dagdeildarþjónustu, skref á milli þess að mæta til heimilisæknis og að vera lagður inn á bráðageðdeild. Það er reyndar í smíðum að vissu leyti. Svo þarf að minnast á úrræði varðandi þá sem glíma við fíkn. Þar er stórt gat í kerfinu líka, og það er einmitt hópur sem gjarnan hefur lent í miklum áföllum.“

- Auglýsing -

Margrét segir einnig mikilvægt að innleiða sálfræðiaðstoð inn í skólakerfið. „Kennarar og nemendurnir sjálfir þurfa að fræðast um áföll, hver þau eru, mikilvægi þess að segja frá þeim, hvaða áhrif þau geta haft og hvernig megi fá aðstoð við að vinna úr þeim.“

Margrét vann nýverið að kynningarefni og veggspjaldi í samstarfi við Geðhjálp þar sem almenningi er kynntur spurningalisti varðandi áföll í æsku og áhrif þeirra á langvinna sjúkdóma á fullorðinsárum. Í kjölfarið mun fagfólk innan heilsugæslunnar vinna með efnið og vonandi taka geðræna heilsu inn í heildarmyndina í auknum mæli.

Dulin áhrif áfalla í æsku á heilsufar á fullorðinsárum

Rannsóknir hafa sýnt fram á að erfið upplifun í æsku geti haft neikvæð áhrif á heilsu og lífskjör fólks á fullorðinsárum ef ekkert er að gert. Þekktasta rannsóknin á þessu sviði er svokölluð Adverse Childhood Experiences, ACE, rannsókn.

Rannsóknin hefur leitt í ljós að við áfall innan hvers ACE-sviðs eða svokallað ACE-stig eykst hættan á neikvæðum afleiðingum á heilsu og lífskjör fólks á fullorðinsárum.
Þú getur nálgast ACE-spurningarlistann á www. gedhjalp.is. Við hvetjum þig til að svara spurningunum vandlega og ræða niðurstöðurnar við heimilislækninn þinn ef tilefni er til og alveg sérstaklega ef þær fela í sér fjögur ACE-stig eða fleiri.

Sem dæmi má nefna að einstaklingar með fjögur ACE-stig eða fleiri eru talsvert líklegri en einstaklingar með engin ACE-stig til að stríða við fíknisjúkdóma, þunglyndi, krabbamein og hjarta- og æðasjúkdóma. Að sama skapi eru þeir líklegri til að hafa upplifað stjórnleysi, óskipulagða þungun, nauðgun, fósturlát og atvinnumissi. Frekari upplýsingar um ACE-mælikvarðann má m.a. nálgast á eftirfarandi slóð: acestoohigh.com

Mynd / Hákon Davíð Björnsson
Viðtalið í heild má lesa í nýjustu Vikunni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -