Mánudagur 17. júní, 2024
9.8 C
Reykjavik

Reykjavík árið 2038

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hvernig viljum við sjá Reykjavík árið 2038? Það ár verða þeir sem eru að byrja í grunnskóla í vetur u.þ.b. að ljúka háskólanámi eða farnir út á vinnumarkaðinn. Heimurinn verður talsvert breyttur og við getum núna lagt grunninn að þeirri framtíð sem við viljum. Tölvutæknin er að breyta starfsháttum okkar mikið. Almennt er fólk sammála um að í þeim breytta heimi sé best að undirbúa börnin okkar með frekari áherslu á sköpun, sjálfstæði í hugsun og á listir. Að geta unnið með öðru fólki, tjáð sig og leyst ný viðfangsefni.

Sú skólastefna sem nú er í mótun hjá Reykjavíkurborg er í þessum anda. Það eru því ákveðin vonbrigði að sjá samdrátt í þessum geira í nýrri fjárhagsáætlun. Til að við getum náð árangri er nauðsynlegt að fjármagnið fylgi þeirri stefnu sem stefnt er að. Það er ekki nóg að hafa stefnu ef ekki er siglt í rétta átt. Við erum ríkt samfélag og eigum að hætta að vera fimm árum á eftir þeim sem við berum okkur saman við. Miklu nær er að nýta smæð samfélagsins og sterka innviði þannig við séum leiðandi. Það á svo sannarlega við um framsækna skóla þar sem lögð er áhersla á sjálfstæði einstaklingsins og þroska hans til að vinna með öðrum.

Framtíðin liggur í því að vernda náttúruna og umhverfið

Annað atriði sem við gerum sífellt ríkari kröfur til er umhverfið. Með nýrri tækni getum við minnkað mengun og sóun gríðarlega. Hér getur Reykjavík gert betur. Ekki bara með flokkun og endurvinnslu. Heldur ekki síður með því að auðvelda til muna rafbílavæðingu og auðvelda sjálfkeyrandi bílum að komast innan borgarinnar. Þetta er eitt af því sem getur orðið til þess að Reykjavík verði öruggari og hreinni. Líkt og þegar Nokia laut í lægra haldi fyrir iPhone eru sjálfkeyrandi rafmagnsbílar líklegir til að taka við af bensínbílum og dísilstrætó.

Þá er rétt að horfa til þeirra borga sem hafa hvað mesta aðdráttaraflið eins og New York og London þegar kemur að grænum svæðum. Eftirsóttustu íbúðirnar á Manhattan eru ekki við Wall Street, heldur við Central Park. Græn svæði eru æ verðmætari fyrir borgarlífið. Við sjálfstæðismenn höfum lagt til friðlýsingu Elliðaárdalsins en þar er nú áformuð atvinnustarfsemi með hundruðum nýrra bílastæða. Við höfum lagt til að horfið verði frá blokkum í Laugardalnum sem nú eru á aðalskipulagi.

Þegar við leggjum grunninn að Reykjavík eftir tuttugu ár eru þetta allt atriði sem skipta sköpum. Framtíðin liggur ekki í bröggum eða þungu og dýru stjórnkerfi. Framtíðin liggur í því að vernda náttúruna og umhverfið. Undirbúa börnin okkar undir breyttan heim. Og nýta tæknina til að borgin okkar sé samkeppnishæf við þær borgir sem við teljum bestar. Þannig eigum við að undirbúa Reykjavík fyrir árið 2038.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -