Sunnudagur 16. júní, 2024
7.8 C
Reykjavik

,,Starfið veitir vellíðan og útrás“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hún vissi ekkert hvað hún ætlaði að verða þegar hún yrði stór en sennilega hefur það að verða forseti verið fjarlægt í hennar huga. Hera Grímsdóttir er í dag engu að síður forseti iðn-og tæknifræðideildar Háskólans í Reykjavík og hér segir hún okkur frá leiðinni þangað og fjölmörgum spennandi námstækifærum.

„Ég ólst upp í Breiðholti, var frekar aktív sem barn, stundaði íþróttir af kappi og var mikil félagsvera. Þá byrjaði ég ung að vinna og hafði alltaf nóg að gera,“ segir Hera brosandi. „Mig minnir að ég hafi byrjað að vinna í bíó og bakaríi um helgar í 8. bekk ásamt því að æfa handbolta og hitta vinina reglulega. Ég fór svo í Menntaskólann í Reykjavík og var harðákveðin í að fara í læknisfræði eftir útskrift. Áður en ég valdi byggingaverkfræðina sem mína leið í lífinu þá ferðaðist ég á eigin vegum í um tvö ár og ætli það hafi ekki verið einn besti skóli sem ég hef farið í. Það tók mig sem sagt þessi tvö ár að hætta við að fara í læknisfræði en ég stend yfirleitt við þær ákvarðanir sem ég tek. Á þessu ferðalagi vann ég þegar mig vantaði pening, t.d. í fatabúð í Þýskalandi, á veitingahúsi í Ósló og sem snjóbrettakennari í Austurríki og ferðaðist þess á milli. Á flakki mínu lenti ég alls í kyns ævintýrum sem tæki langan tíma að segja frá en ég lærði að vera víðsýn, sjálfstæð og að bjarga mér. Eftir þennan tíma áttaði ég mig á að áhugi minn lá í nýsköpun, að finna lausnir og að takast á við krefjandi áskoranir. Því valdi ég verkfræðina og er með MSc-gráðu í byggingarverkfræði með áherslu á framkvæmdastjórnun sem og MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

Hera segir að henni leiðist aldrei í vinnunni
Mynd / Hallur Karlsson

Hún segir að það hafi verið erfitt fyrir sig, tvítugan stúdentinn, að átta sig á því hvað hún vildi verða þegar hún yrði stór. „Ég hugsa að sú ákvörðun sé jafnvel enn erfiðari hjá ungu fólki í dag, þar sem nemendur eru að útskrifast úr framhaldsskólum yngri en áður og möguleikarnir eru mun fleiri. Þegar væntanlegir nemendur leita til mín þá spyr ég oft að því hvar þeir sjái fyrir sér að þau vilji vinna eftir 5-10 ár og velja nám út frá því. Það var í raun það sem ég gerði og ég sé ekki eftir því vali. Á þessum tíma vissi ég hins vegar ekki af tæknifræðinni sem þó hefur verið kennd í um fimmtíu ár hér á landi. Tæknifræði er í raun önnur leið að sama markmiði og verkfræðin þar sem útskrifaðir tækni- og verkfræðingar vinna sambærilega ef ekki sömu vinnu þegar út á vinnumarkaðinn er komið. Tæknifræðin tekur hins vegar aðeins þrjú og hálft ár og þar er lögð áhersla á að hugvit og verkvit mætist en verkfræðin tekur fimm ár. Því er mikil áhersla á hagnýt verkefni sem unnin eru með atvinnulífinu til að leysa vandamál nútímans.“

„Á flakki mínu lenti ég alls kyns ævintýrum sem tæki langan tíma að segja frá en ég lærði að vera víðsýn, sjálfstæð og að bjarga mér. Eftir þennan tíma áttaði ég mig á að áhugi minn lá í nýsköpun, að finna lausnir og að takast á við krefjandi áskoranir.“

Aldrei leiðinlegt í vinnunni

Starfsferill Heru byrjaði svo árið 2002 þegar hún hóf störf á verkfræðistofunni Línuhönnun, sem í dag heitir EFLA, fyrst sem sumarstarfsmaður. „Eftir útskrift hélt ég áfram hjá EFLU og vann hjá þeim til ársins 2011, lengst af á framkvæmdasviði. Árið 2011 breytti ég svo alveg til og hóf störf hjá Össuri þar sem ég stýrði alþjóðlegum BIONICS-gerviútlimaverkefnum sem og vinnu við að koma nýrri vörulínu af spelkum á markaðinn.

Ég ber afar hlýjan hug bæði til EFLU og Össurar og lærði mikið af veru minni hjá þeim. Það sem ég var hrifnust af var hvað ég var hvött til að hugsa út fyrir kassann, koma með nýjar hugmyndir en ég naut mín mjög í nýsköpunarumhverfinu enda ótrúlega mikið af hæfileikaríku fólki sem ég vann með.

- Auglýsing -

Síðla árs 2015 tók ég svo við stöðu sem sviðstjóri yfir byggingasviði hér við Háskólann í Reykjavík og hef verið þar síðan, í dag sem forseti iðn- og tæknifræðideildar. Ferill minn hefur því verið ansi fjölbreyttur, einkennst af ólíkum verkefnum og umhverfi sem og stöðugum nýjum áskorunum. Ég er ein af þeim sem hef verið svo lánsöm að hafa alltaf fundist gaman í vinnunni og vinnan mín gefur mér mjög mikið, bæði vellíðan og útrás,“ segir Hera.

Hera Grímsdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

Eftirspurn eftir fólki með tæknimenntun

„Að vera forseti er bæði skemmtilegt, fjölbreytt og krefjandi. Engir dagar eru eins og það er óhætt að segja að mér leiðist aldrei í vinnunni. Iðn- og tæknifræðideild er ný deild við Háskólann í Reykjavík, rétt rúmlega eins árs og því í mörg horn að líta. Deildin hefur verið í miklum vexti og eru nú um 450 nemendur hjá okkur. En almennt er afskaplega gaman að vera forseti og að vinna í háskólaumhverfinu, ég vinn með afar skemmtilegu og hæfileikaríku fólki en einnig læri ég heilmikið af nemendum,“ segir hún og brosir.

- Auglýsing -

,,En því fylgir líka mikil ábyrgð og traust að vera forseti, því það er afar margt sem þarf að huga að þegar kemur að núverandi og framtíðarmenntun nemenda. Verkefni eiga eftir að verða mörg og krefjandi með tilkomu fjórðu iðnbyltingarinnar og fylgja jafnvel miklar breytingar á störfum og tækni. Því er óhætt að segja að tæknimenntaðra einstaklinga framtíðarinnar bíði ótal úrlausnarefni. Þessar hröðu breytingar valda meiri eftirspurn eftir fólki með sérhæfða tæknimenntun og nýja gerð stjórnunarhæfni. Til að viðhalda samfélaginu þarf því ákveðinn fjölda tæknimenntaðra á hverju sviði en til að geta bætt og þróað þarf að mennta enn fleiri en við höfum gert hingað til. Við í iðn- og tæknifræðideild Háskólans í Reykjavík undirbúum nemendur okkar til að takast á við þau fjölbreyttu verkefni sem bíða þeirra við komuna út á vinnumarkaðinn.“

Hera Grímsdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

Tekur mið af þörfum atvinnulífsins

Hera segir eitt af markmiðum Iðn- og tæknifræðideildar HR sé að bjóða upp á hagnýtt tækninám á háskólastigi sem hentar bæði þeim sem eru með iðnmenntun sem og stúdentspróf. ,,Það hefur verið í umræðunni að lítið væri í boði fyrir iðnmenntaða einstaklinga og að leið þeirra inn í háskóla væri lokuð. Þetta er ekki alveg rétt því það er heilmikið í boði fyrir einstaklinga með iðnmenntun sem bakgrunn en það hefur kannski ekki verið nægjanlega sýnilegt. Þegar ungt fólk velur sér sína leið í lífinu þá er mikilvægt að það viti að það sé ekki að loka neinum dyrum og vert er að benda á að þeir sem hafa iðnmenntun sem bakgrunn og bæta svo við sig tæknimenntun á háskólastigi eru afar eftirsóttir í atvinnulífinu.

Tækninám við iðn- og tæknifræðideild tekur ávallt mið af þörfum atvinnulífsins hverju sinni, með áherslu á öfluga og hagnýta tækniþekkingu sem nýtist vel frá fyrsta degi í starfi. Deildin hvílir á grunni Tækniskóla Íslands sem sameinaðist Háskólanum í Reykjavík árið 2005. Þessi grunnur veitir HR sérstöðu en við HR er lögð áhersla á að nemendur öðlist verkþekkingu, auk þess að þekkja og skilja fræðin. Hægt er að stunda nám í iðn-, bygginga- og tæknifræði. Við munum að auki bjóða upp á nýjar styttri námsbrautir og fleiri tækifæri fyrir umsækjendur í iðn- og tæknifræðideild í haust.“

„Við erum alltaf að leita leiða til fjölga tækifærum fyrir einstaklinga til að mennta sig á öllum æviskeiðum og til að auka tækifærin fyrir umsækjendur munum við m.a. bjóða upp á stöðupróf í stærðfræði og eðlisfræði inn í tæknifræðinám.“

Hera Grímsdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

Menntun á öllum æviskeiðum

„Við erum alltaf að leita leiða til fjölga tækifærum fyrir einstaklinga til að mennta sig á öllum æviskeiðum og til að auka tækifærin fyrir umsækjendur munum við m.a. bjóða upp á stöðupróf í stærðfræði og eðlisfræði inn í tæknifræðinám,“ segir Hera og heldur áfram. „Stöðuprófin eru ætluð fyrir þau sem telja sig hafa nægilegan grunn án þess að hafa lokið tilskyldum framhaldsskólaeiningum og þau sem vilja rifja upp námsefnið og sjá hvar þau standa áður en nám hefst. Fyrstu prófin verða haldin í sumar og nú þegar hefur verið opnað fyrir skráningu í þau. Einnig eru nú ákveðin námskeið í iðnfræði metin inn í nám í tæknifræði við HR. Iðnfræðingar sem hafa útskrifast með lokapróf úr Háskólagrunni geta nú fengið metnar allt að 41 ECTS-einingu úr iðnfræði inn í tæknifræði.“

Hera segir iðnfræði vera hagnýtt og gott nám sem veitir iðnlærðum af bygginga-, véla- og rafmagnssviði tækifæri til að afla sér tæknimenntunar á háskólastigi. „Til að útskrifast sem iðnfræðingur þarf nemandi að hafa lokið sveinsprófi í iðngrein á viðkomandi sviði og veitir námið þá rétt til meistarabréfs. Hægt er að stunda námið í fjarnámi og taka það samhliða vinnu. Starfssvið iðnfræðinga eru fjölbreytt og starfa þeir m.a. hjá verktakafyrirtækjum, á verkfræðistofum og hjá orku- og framleiðslufyrirtækjum svo eitthvað sé nefnt.

HR er eini háskólinn á Íslandi sem kennir byggingafræði og er námið sett upp sem verkefnamiðað nám. Byggingafræðingar hafa breitt þekkingarsvið og vinna því við fjölbreytt störf tengdum byggingariðnaði. Þeir starfa meðal annars við hönnun mannvirkja og eftirlit og stjórnun framkvæmda. Þekking þeirra á byggingaferli, efnisvali og verkefnastjórnun er afar dýrmæt.“

Hera Grímsdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

Nemendur öðlast reynslu, þekkingu og færni

Hera segir tæknifræðina henta vel þeim einstaklingum sem vilja hagnýta tæknimenntun sem býður upp á mikla möguleika, bæði í vel launuð störf í atvinnulífinu og í áframhaldandi framhaldsnám eða meistaranám. „Námið, sem er staðarnám, tekur aðeins þrjú og hálft ár og tæknifræðin er lögverndað starfsheiti. Hægt er að velja á milli náms í byggingartæknifræði, rafmagnstæknifræði og vél- og orkutæknifræði. Í upphafi námsins fá nemendur sterkan og góðan grunn, við það bætist svo ýmiskonar sérþekking eftir fagsviðum sem fæst í gegnum verkefnakennslu og starfsnám hjá fyrirtækjum. Uppbygging námsins tekur mið af þörfum atvinnulífsins, með áherslu á hagnýta tækniþekkingu sem nýtist vel frá fyrsta degi í starfi. Slík þekking er dýrmæt þegar út á vinnumarkaðinn er komið og á hverju vori leita til mín fyrirtæki eftir nýútskrifuðum tæknifræðingum.

Upplýsingatækni í mannvirkjagerð er ný námsbraut við iðn- og tæknifræðideild Háskólans í Reykjavík og hefst kennsla á henni í haust. Um er að ræða eins árs hagnýtt diplómanám sem ætlað er að veita nemendum hagnýta þekkingu á sviði upplýsingatækni í mannvirkjagerð (e. BIM – Building Information Modeling). Í náminu öðlast nemendur reynslu, þekkingu og færni í að leysa flókin og þverfagleg vandamál í mannvirkjagerð og stjórna verkefnum með upplýsingalíkönum en stefnt er að því að innan fárra ára verði það meginregla að nota upplýsingalíkön við byggingu allra stærri opinberra mannvirkja á Íslandi.

Að lokum skal svo nefna nám í rekstrarfræði en námið er byggt á gömlum grunni rekstrariðnfræði, sem var aðeins fyrir iðnfræðinga, en hefur nú verið opnað fyrir fleirum en aðeins þeim sem eru með diplómagráðu í iðnfræði. Það er stutt og hagnýtt rekstrar- og viðskiptanám, sérstaklega sniðið að einstaklingum á vinnumarkaði. Námið miðar að því að auka færni þeirra sem vilja koma að rekstri og stjórnun, þeirra sem eru í fyrirtækjarekstri eða hyggjast fara út í rekstur,“ segir Hera.

„Það er nú alltaf þannig að konur eru í minni hluta af okkar nemendum sem og í okkar geira í atvinnulífinu. Við erum því miður t.d. að sjá allt of fáar stelpur í rafmagns- og vélatengdum fögum en hins vegar hefur verið mikil aukning í byggingartengd fög síðastliðin ár.“

Láta hugvit og verkvit mætast

„Eitt af markmiðunum sem við í iðn- og tæknifræðideild höfum sett okkur er að byggja upp nám sem tekur mið af þörfum atvinnulífsins, með áherslu á hagnýta tækniþekkingu sem nýtist vel frá fyrsta degi í starfi,“ heldur hún áfram. „Ætli samnefnarinn með öllum okkar námsbrautum sé ekki sá að láta hugvit og verkvit mætast og að útskrifaðir nemendur eru tilbúnir að mæta kröfum atvinnulífsins hverju sinni. Tekjumöguleikarnir eru miklir og markaðurinn hreinlega kallar eftir iðnmenntuðu fólki með tæknimenntun á háskólastigi.

Það er nú alltaf þannig að konur eru í minnihluta af okkar nemendum sem og í okkar geira í atvinnulífinu. Við erum því miður t.d. að sjá allt of fáar stelpur í rafmagns- og vélatengdum fögum en hins vegar hefur verið mikil aukning í byggingartengd fög síðastliðin ár. Það er sérstaklega gaman að segja frá því að meiri hluti nemenda í byggingafræði eru konur í dag og hefur verið gríðarleg aukning á milli ára.

Það má velta því fyrir sér hvort það sé ekki eðlilegt að það séu ekki jöfn kynjaskipti þar sem áhugi stráka á tækninámi er almennt meiri en hjá stelpum. En hver eru þá eðlileg skipti og af hverju er þessi mikli munur? Möguleikar á að finna sér starfsvettvang í atvinnulífinu eru nánast ótakmarkaðir, bæði fyrir konur og karla. Langt mál þyrfti til að gefa meira en smávegis yfirlit yfir þau störf sem koma til greina en hægt er að nefna t.d. nýsköpun, hönnun og stjórnun hjá verkfræðistofum, nýsköpunarfyrirtækjum, framleiðslufyrirtækjum, orkufyrirtækjum, verktökum og stjórnsýslu.

Mig langar ekki að hugsa til þess að ástæðan sé sú að stelpur séu hræddar við að velja sér tækninám því stelpur í dag geta allt. Held eða vona frekar að það stafi af því að þær séu enn að átta sig á þessum möguleika og að þær eigi alveg jafnmikið erindi hingað til okkar í HR. Þó að ég líti oft frekar á mig sem einstakling á vinnumarkaði en sem konu þá eru ýmsir hlutir sem eru almennt ólíkir milli kvenna og karlmanna, þannig á það líka að vera. Fjölbreytileiki er af hinu góða og ég vil hvetja stelpur í dag til að kynna sér tækninám,“ segir hún að lokum.

Texti: Unnur H. Jóhannsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -