Fimmtudagur 18. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Svona innréttarðu litla stofu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Góð ráð fyrir þá sem eru með litlar stofur.

Þegar þú innréttar litla stofu reyndu að komast af með sem fæsta hluti. Þannig kemur þú í veg fyrir að hún verði óreiðukennd. Gott er að horfa reglulega yfir hana með gagnrýnum augum og fjarlægja það sem þér finnst ofaukið.

Gott er að láta lofta sem mest um húsgögnin. Ekki klessa til dæmis borði fast upp við hliðina á sófanum, eins og gert er á þessari mynd. Hafðu heldur smábil á milli þegar þú kemur því við.

Of mikil litadýrð getur verið yfirþyrmandi í lítilli stofu. Mörg mynstur eru heldur ekki æskileg. Hvít málning á veggjum er góð byrjun.

Til eru sniðug húsgögn með tvöfalt notagildi; fínir sófar sem eru líka svefnsófar, stólar/kollar með geymslurými, sófaborð með hillum á hliðunum, lítil borð sem gætu einnig þjónað sem sæti og svo framvegis. Þegar plássið er lítið þarf stundum að fórna einhverju til að lofti betur um það sem eftir er.

Stærri húsgögn ættu að standa aftast í stofunni frá dyrunum séð – en ekki staðsett við innganginn. Þá gæti þér fundist sem húsgögnin þrengi að þér. Settu þau þyngstu fjærst dyrunum og komdu hinum fyrir í góðu jafnvægi við þau.

Ef sami litur er á t.d. veggnum og sófanum mun sófinn verða minna áberandi og ekki grípa athyglina jafnauðveldlega og ef hann væri í öðrum lit. Það getur verið mjög flott að láta húsgögnin falla inn í vegginn á þennan hátt, svona á meðan maður ofgerir ekki. Þú getur líka notað málningu til að „fela“ bitana í loftinu, ofnana og annað sem þér finnst gefa stofunni draslaralegan blæ.

Haltu yfirborðinu hreinu og lausu við ónauðsynlegt dót. Með því að takmarka það sem þú geymir ofan á hillum, skápum, borðum og í gluggakistum loftar svo miklu betur um stofuna. Þú þarft alls ekki að fjarlægja allt, fækkaðu bara þessum hlutum. Allt verður svo miklu snyrtilegra. Þeir sem ætla að selja íbúðina sína ættu að hafa þetta í huga – áhrifin þegar inn í stofuna (íbúðina) er komið eru svo miklu betri á væntanlega kaupendur en þegar allt er ofhlaðið, hún virkar einnig stærri.

- Auglýsing -

Veldu listaverk í meðalstærð á veggina í stað risastórra verka. Stórar myndir geta verið afar flottar en yfirþyrmandi í litlu rými. Mörg verk saman á vegg geta verið óreiðukennd ef þau eru of stór eða mjög misstór. Einhver regla verður að vera, að láta efri línur eða neðri mætast. Ef hengt er upp af algjöru handahófi njóta myndirnar sín ekki sem skyldi.

Falleg gluggatjöld geta skapað ljúfa og mjúka stemningu í stofunni en í litlu rými og nálægt húsgögnunum gleypa þau alveg stofuna. Gólfmottur skipta líka máli, of margar litlar mottur geta látið stofuna virka draslaralega. Rýmið sýnist allt svo miklu opnara ef hófsemi er gætt. Þú getur líka sleppt því að nota gluggatjöld. Rimla- eða rúllugluggatjöld geta verið fín lausn í litlum stofum.

Gott er að gera sem mest úr dagsbirtunni. Blóm og vasar í gluggakistum geta verið falleg en skyggja á birtuna.

- Auglýsing -

Speglar eru magnaðir í þeim tilgangi að láta herbergi virðast stærra. Spegill á réttum stað gerir ótrúlega mikið fyrir lítil rými og getur gjörbreytt stofunni þinni.

Fleiri lampar og góð lýsing út í hvert horn er einnig af hinu góða.

Texti / Guðríður Haraldsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -