Fimmtudagur 18. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

„Þarna var bara tvennt í stöðunni, að drepast eða halda áfram“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Brynja Hlíf Hjaltadóttir er engin venjuleg ung kona. Á síðasta ári lauk hún framhaldsskólanámi með glæsibrag, útskrifaðist á dögunum sem förðunarfræðingur og stefnir á að hefja nám í lögfræði í haust. Brynja er að eigin sögn adrenalínfíkill sem lifir fyrir að leika sér á fjórhjóli og snjósleða. Fyrir fjórum árum breyttist líf hennar varanlega þegar hún lenti í alvarlegu slysi með þeim afleiðingum að hún lamaðist. Sú hindrun stoppar Brynju þó ekki í því að lifa lífinu og framkvæma allt sem henni dettur í hug.

Brynja Hlíf er fædd árið 1998 og verður því tvítug í október. Hún hefur í nógu að snúast þessa dagana, en ásamt því að vinna í félagsmiðstöð byrjaði hún nýlega í naglaskóla. Í síðasta mánuði lauk hún námi í förðunarfræði við Reykjavík Makeup School, þar sem hún hlaut hæstu einkunn fyrir „smokey eye“.

Það vakti þjóðarathygli árið 2014 þegar Brynja, þá 16 ára gömul, slasaðist alvarlega í mótókrossslysi í Noregi. Hún var þá í námi við lýðháskóla í Setesdal sem sérhæfir sig í sportinu. Brynja hafði verið úti í þrjá mánuði þegar dagurinn örlagaríki rann upp. Sjálf man hún ekki eftir slysinu né dögunum á eftir, og í raun veit enginn fyllilega hvað það var sem gerðist. „Þennan dag var ég bara að hjóla eins og alla aðra daga. Ég var ein í braut og eitthvað klikkaði. Ég datt en man ekkert eftir því. Foreldrar mínir og kærastinn minn komu út og vöktu yfir mér en mér var haldið sofandi í viku eftir slysið. Það vissi í raun enginn hvernig ástandið yrði en þegar ég vaknaði fann ég ekkert fyrir fótunum. Það var auðvitað mikið áfall og erfitt að meðtaka, en frá fyrsta degi var ég harðákveðin í að tækla þetta verkefni. Þarna var bara tvennt í stöðunni, að drepast eða halda áfram,“ segir Brynja.

Það er alls ekki það að mér finnist óþægilegt að vera í sviðsljósinu, enda hef ég alltaf verið mjög athyglissjúk

Eftir að fréttir af slysinu bárust var mikið fjallað um það í íslenskum fjölmiðlum. Brynja var á þeim tíma að átta sig á breyttum aðstæðum, var á sterkum lyfjum og í raun út úr heiminum. Hún segist helst hafa viljað að ekkert væri birt um þetta. „Ég hafði ekkert um það að segja hversu nákvæmar upplýsingar um slysið og mína líðan væru birtar í öllum fjölmiðlum. Það er alls ekki það að mér finnist óþægilegt að vera í sviðsljósinu, enda hef ég alltaf verið mjög athyglissjúk. Ég vil hinsvegar ekki bara vera þekkt fyrir það að vera stelpan sem lenti í slysinu. Síðustu ár hef ég oft verið beðin um að koma í allskonar viðtöl en ég hef ekki haft áhuga á því, það er að segja til að tala bara um slysið. Núna, hins vegar, er mjög margt skemmtilegt og uppbyggilegt að gerast í lífi mínu og ég hef margt annað að tala en bara þetta blessaða slys. Ég vona að ég geti verið hvatning fyrir annað fólk.“

Lestu ítarlegt viðtal við Brynju Hlíf í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti: Margrét Björk Jónsdóttir

Myndir: Hallur Karlsson

- Auglýsing -

Förðun: Perla Kristín Smáradóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -