2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Tökum snjónum fagnandi

  Nú þegar snjórinn er farinn að falla er nauðsynlegt að láta hann ekki fara í taugarnar á sér heldur njóta þess besta sem hann hefur upp á að bjóða.

  Minna stress
  Við verðum að sætta okkur við þann veruleika að við búum á Íslandi og því fyrr sem við gerum það því betra. Ekkert getur komið í veg fyrir að snjónum kyngi niður og því um að gera að taka honum fagnandi. Þetta er tækifæri til að gíra sig niður og staldra við í núinu. Við þurfum ekki alltaf að flýta okkur svona mikið og það er allt í lagi að missa af einhverju. Förum fyrr af stað á morgnana, tökum góðan tíma í að skafa bílinn og njótum þess að fara ofurhægt í vinnuna, jafnvel í langri bílalest.

  Farðu út með hundinn.

  Út að leika
  Snjórinn er endalaus uppspretta skemmtilegra leikja, enda ekki að ástæðulausu sem flest börn elska snjóinn. Klæddu þig vel og skelltu þér út í snjóinn að leika hvort sem þú átt börn eða ekki. Krökkum finnst ekkert skemmtilegra en þegar mamma og pabbi gefa sér tíma til að leika við þau og því getur snjórinn leitt til hinna skemmtilegustu fjölskyldustunda. Það er hægt að búa til snjókarla, byggja snjóhús, renna sér á sleða, snjóþotum, rassaþotum eða jafnvel plastpokum, fara í snjókast, búa til snjóengla, moka bílinn upp, hreinsa stéttina og svo margt fleira. Þá er um að gera að kíkja til ömmu og afa, gamallar frænku eða hvaða vina og vandamanna sem er og moka þau út. Þannig er nánast gulltryggt að þið vinnið ykkur inn fyrir heitu súkkulaði og gómsætu bakkelsi.

  Þegar allt er komið á kaf er ekkert eins hressandi og að fara út og moka snjó. Gott er að taka hraustlega á því með því að moka vel frá dyrum, stéttina og bílastæðið.

  Líkamsrækt og samkennd
  Þegar allt er komið á kaf er ekkert eins hressandi og að fara út og moka snjó. Gott er að taka hraustlega á því með því að moka vel frá dyrum, stéttina og bílastæðið. Þannig hittir maður jafnvel nágrannana sem eru úti í sama tilgangi og getur loksins gefið sér tíma til að spjalla við þá og kynnast þeim aðeins. Ekki hika við að hjálpa nágrönnunum með því að moka fyrir þá líka. Ekki eru allir jafnhraustir, og gömlu hjónin sem búa við hliðina á þér yrðu án efa ákaflega þakklát fyrir viðvikið.

  AUGLÝSING


  Allir hjálpast að
  Sérstök stemning myndast þegar náttúran tekur í taumana og setur allar samgöngur úr skorðum. Það er gaman að sjá hve margir eru tilbúnir til að hjálpa öðrum að ýta bílum sem eru fastir víða og í höfuðborginni myndast svona „úti á landi“ stemning. Fólk er glatt og þakklátt fyrir aðstoðina og það er gaman að geta hjálpað öðrum. Ekki hika við að bjóða fram hjálp þína ef einhver er fastur í skafli, jafnvel þótt þú sért smágerður einstaklingur. Margar hendur vinna létt verk og þú munt án efa framkalla gleði í hjarta bæði hjá sjálfri/sjálfum þér og öðrum.

  Myndatökur í ævintýraheimi
  Skellið ykkur í gönguferð og njótið þess ævintýralega umhverfis sem snjórinn hefur skapað. Endilega takið myndavélina með og festið dýrðina á „filmu“. Prófið ykkur áfram með alls kyns vinkla, og takið bæði nærmyndir og yfirlitsmyndir. Ef þú átt börn er tilvalið að stilla þeim upp við þessar aðstæður og hver veit nema að þarna sé komin jólakortamyndin í ár. Ekki verra að hafa klárað eitthvað áður en stressið sem oft vill fylgja undirbúningi jólanna tekur völdin. Á svona stundu eru líka allir slakir sem gefur von um einstaklega góða mynd.

  Takið myndavélina með og festið dýrðina á „filmu“.

  Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
  Myndir / www.pixabay.com

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is