Þórarinn Snorrason, bóndi í Vogsósum 2 í Selvogi er látinn, 92 ára að aldri.
Lést Þórarinn á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi á jóladag, samkvæmt frétt Vísis. Hafði hann legið á sjúkrahúsi í mánuð eftir að hann lærbrotnaði við útistörf við fjárhúsin í Vogsósum.
Þórarinn fæddist þann 8. ágúst árið 1931. Stóran hluta ævi sinnar var hann helsti vörslumaður Strandarkirkju sem hringjari, kirkjuvörður og formaður sóknarnefndar. Þá var hann síðasti oddviti og hreppsstjóri Selvogshrepps áður en hreppurinn sameinaðist Ölfusi árið 1989.
Eiginkona Þórarinns var Elisabeth Charlotte Johanna Herrmann en hún fæddist í Þýskalandi þann 28. desember 1927. Elisabeth lést árið 2018. Gengu þau í hjónaband árið 1954 og eignuðust fimm börn. Afkomendahópurinn telur auk barnanna, nú níu barnabörn og þrjú barnabarnabörn.