Mánudagur 4. nóvember, 2024
7.8 C
Reykjavik

Kominn tími til að hrista aðeins upp í keppninni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ingó Geirdal þekkja flestir sem gítarleikara rokkhljómsveitarinnar DIMMU. Hljómsveitin sendi nýlega frá sér lögin Þögn og Almyrkvi en seinna lagið sendu þeir inn í Söngvakeppnina í ár.

 

„Lögin gefa kannski örlítinn forsmekk að því sem koma skal,“ segir Ingó, en lögin tvö koma til með að verða á sjöttu breiðskífu sveitarinnar sem er í smíðum og er væntanleg á árinu. Á undanförnum árum hefur DIMMA gefið út fimm breiðskífur og jafnmargar tónleikaplötur, þar á meðal tvær með Bubba Morthens og eina með SinfoniaNord, auk þess að spila á fleiri tónleikum en bandið hefur tölu á.

„Við sáum hins vegar aldrei fyrir okkur að taka þátt í Söngvakeppninni, sem hefur hingað til ekki talist hefðbundinn vettvangur fyrir íslenskar rokksveitir í þyngri kantinum til að koma tónlist sinni á framfæri,“ játar hann. „Okkur fannst því kominn tími til að takast á við nýja og skemmtilega áskorun og hrista aðeins upp í keppninni í ár.“

Eins og kunnugt er hefur Ingó komið víða við í tónlistinni, en hann segist hafa fengið ástríðu fyrir tónlist þegar hann fékk í fermingargjöf frá foreldrum sínum utanlandsferð til frænku sinnar sem bjó í Seattle í Bandaríkjunum. Þar hafi nýr heimur opnast fyrir sér. „Ég nýtti fermingarpeningana til að kaupa minn fyrsta gítar, bassa fyrir Silla bróður og um 50 notaðar vínylplötur með hljómsveitum eins og Alice Cooper, KISS, AC/DC og fleirum. Þá var ekki aftur snúið og má segja að þar hafi verið lagður grunnurinn að tónlistarsamstarfi okkar Geirdalbræðra, sem nú hefur staðið í 30 ár og sér ekki fyrir endann á.“

Bræðurnir stofnuðu síðan DIMMU árið 2004 og Ingó segir að eflaust hafi ekki margir séð fyrir þá að hún yrði ein vinsælasta rokkhljómsveit landsins. Hvað þá að aðdáendur hennar tækju upp á því að láta húðflúra sig með nafni, lógói og textum sveitarinnar. „Það sáum við ekki fyrir sjálfir,“ viðurkennir hann fúslega. „En við höfum þó alltaf haft óbilandi trú á tónlistinni sem við erum að gera og gefum okkur alla í hana og því mjög gefandi að upplifa hversu margir tengja við tónlistina okkar og textana.“

Hugsanalestur og sjónhverfingar

- Auglýsing -

Auk þess að hafa lengi verið viðloðandi tónlistarbransann hefur Ingó fengist við töfrabrögð um margra ára skeið, en hann segir „galdraáhugann“ hafa kviknað við sex ára aldur þegar hann sá hollenskan heimsmeistara í töfrabrögðum sýna í sjónvarpinu. „Svo um tíu ára aldur gaf pabbi mér bók sem hann átti um töframanninn Houdini. Upp frá því fór ég að læra og æfa mín fyrstu töfrabrögð og spilagaldra. Í dag hef ég sérhæft mig í sjónhverfingum, sem byggjast mikið á fingrafærni, og svo hugsanalestri.“

„Þetta verður sambland af sjónhverfingum og hugsanalestri þar sem ég sýni öll mín bestu brögð.“

Spurður hvað þurfi til að vera góður töframaður, er hann fljótur til svars. „Aga, elju, ástríðu og þolinmæði. Sem betur fer er ég mjög þolinmóður maður, enda ekki sjaldgæft að maður eyði jafnvel nokkrum árum í að vinna í einu atriði og er svo endalaust að slípa það, laga og gera betra,“ segir hann og getur þess að áhugasömum gefist kostur á að kynna sér þetta nánar á sýningunni Galdrar, sem hann ætli að halda í Salnum í Kópavogi þann 8. mars. „Þetta verður sambland af sjónhverfingum og hugsanalestri þar sem ég sýni öll mín bestu brögð og þar á meðal nokkur brögð sem ég framkvæmi einungis í þessari sýningu.“

Þess fyrir utan hefur hann nóg fyrir stafni. „Ég verð til dæmis með töfraskemmtanir á árshátíðum, þorrablótum og fleira. Auk þess er það Söngvakeppnin sem DIMMA tekur þátt í og svo auðvitað vinnan við nýju plötuna,“ segir hann og bætir við að aðeins ein töfrasýning verði í Salnum í ár. Þeir sem vilja geta tryggt sér miða á salurinn.is eða tix.is.0

- Auglýsing -

Texti  / Sigrún Guðjohnsen

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -