Laugardagur 12. október, 2024
-3.7 C
Reykjavik

Á eftir sumri kemur sjónvarpsveisla

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hefðbundnu hausti fylgja mikil gleðitíðindi og frábær afsökun til að vera inni – glænýir sjónvarpsþættir og gamlir vinir sem heilsa að nýju. Hér eru nokkrir þættir sem beðið hefur verið eftir með ákveðinni tilhlökkun þannig að leggið þessar dagsetn-ingar á minnið, byrgið ykkur upp af snarli og sætum syndum og kveikið á sjónvarpinu.

Animals (HBO)

Frumsýnd: 3. ágúst

Hér er á ferð þriðja serían af Animals og ef þið hafið ekki kíkt á þessa þætti nú þegar þá mælum við með því að þið takið frá nokkra daga í maraþon hámgláp. Af hverju? Jú, þessir þættir eru eitt það ferskasta í sjónvarpsflórunni í dag. Við erum að tala um framtíðarsýn þar sem New York-borg er laus við mannfólk eftir heimsendi. Eins og nafnið gefur til kynna eru dýr í aðalhlutverki en persónurnar eru margar hverjar afar skrautlegar og þó að serían sé kannski ekki fyrir alla, þá er hún gjörsamlega einstök.

Disenchantment (Netflix)

Frumsýnd: 17. ágúst

Við rennum algjörlega blint í sjóinn með þessa þætti en það er viss gæðastimpill að höfundur The Simpsons og Futurama er maðurinn á bak við Disenchantment. Það kemur ykkur þá líklegast ekki á óvart að serían er teiknuð en henni hefur verið lýst sem afkvæmi The Simpsons og Game of Thrones. Þetta er algjörlega sería fyrir fullorðna og fjallar um ævintýri drykkfelldu prinsessunnar Bean, álfavin hennar Elfo og djöfulinn Luci í veröld sem heitir Dreamland. Að sögn Matts snýst serían um líf og dauða, ást og kynlíf og hvernig á að halda áfram að hlæja í veröld sem er full af þjáningu og hálfvitum.

https://www.youtube.com/watch?v=Gp_RnJcb8Ig

- Auglýsing -

The Innocents (Netflix)

Frumsýnd: 24. ágúst

Þessi nýja Netflix-sería minnir um margt á nútímalega Rómeó og Júlíu, nema hvað Júlía hefur þann eiginleika að bregða sér í hlutverk annarra vera, svokallaður formbreytir. Serían fjallar um kærustuparið June og Harry sem hlaupast á brott saman til að hefja nýtt líf. Þegar þau komast að því að June er formbreytir setur það örlítið strik í reikninginn, sérstaklega þegar þau fá þær fregnir að hún er langt frá því að vera eini formbreytirinn í heiminum. Ó, já svo er líka Íslendingur í veigamiklu hlutverki. Nefnilega hann Jóhannes Haukur Jóhannesson. Þjóðarstoltið, sko!

Ozark (Netflix)

Frumsýnd: 31. ágúst

- Auglýsing -

Sería eitt af Ozark, sem frumsýnd var í fyrra, var einn af óvæntustu smellum síðasta árs og hélt áhorfendum límdum við skjáinn hverja einustu mínútu. Nú er önnur þáttaröð væntanleg og í henni þarf Marty, sem leikinn er af Arrested Development-undrinu Jason Bateman, og fjölskylda hans að þvo miklu meira af peningum og spreyta sig í að reka spilavíti. Jason hefur látið hafa eftir sér í viðtölum að serían verði enn spennuþrungnari en fyrr og að fjölskyldan lendi í enn fleiri flækjum en í fyrri seríunni. Er það bara hægt?

https://www.youtube.com/watch?v=0vHziRrCYqA

Kidding (Showtime)

Frumsýnd: 9. september

Nú þurfið þið sko rækilega að merkja dagsetninguna því sjálfur Jim Carrey snýr aftur í sjónvarpið sem Jeff, einnig þekktur sem Mr. Pickles. Lífið leikur við Mr. Pickels sem er goðsögn í barnasjónvarpi vestanhafs og moldríkur í þokkabót. En það kemur aldeilis babb í bátinn þegar fjölskyldan hans splundrast og hann reynir sitt besta til að koma henni aftur saman á mjög ljúfsáran og kómískan hátt. Ef þið eruð ekki sannfærð þá er ráð að henda því inn í jöfnuna að Jim Carrey vinnur hér á nýjan leik með leikstjóranum Michel Gondry, en þeir unnu saman í Óskarsverðlaunamyndinni Eternal Sunshine of the Spotless Mind. Rétt’upp hönd sem er spenntur.

Shameless (Showtime)

Frumsýnd: 9. september

Frábærar fréttir fyrir aðdáendur bandarísku Shameless-þáttanna: Sería 9 er alveg að fara að byrja. Slæmu fréttirnar fyrir þá sem hafa aldrei komið sér í það að horfa á Shameless: Sería 9 er alveg að fara að byrja. Og nei, það er ekki hægt að hoppa rakleiðis inn í níundu þáttaröð af þessum epísku þáttum. Nú þarf fólk að girða sig í brók, taka sér viku frí frá vinnu og hámglápa eða eyða öllum frístundum í að kynnast hinni dæmalausu Gallagher-fjölskyldu. Fyrir okkur hin sem höfum samviskusamlega grátið og hlegið með fjölskyldunni – gleðilegt Shameless.

https://www.youtube.com/watch?v=Xyus5REdmLI

Maniac (Netflix)

Frumsýnd: 21. september

Cary Fukunaga, maðurinn á bak við fyrstu seríuna af True Detective og nýja þáttinn á TNT, The Alienist, leikstýrir hér Jonah Hill og Emmu Stone í tíu þátta seríu sem byggð er á samnefndri norskri þáttaröð sem sló í gegn árið 2014. Jonah og Emma leika tvo geðsjúklinga á hæli sem hafa búið sér til mjög litríkan ævintýraheim sem er eins konar athvarf fyrir þau. Fátt annað er vitað um seríuna, en aukaleikararnir eru ekkert slor heldur – til dæmis Justin Theroux og Sally Field.

This Is Us (NBC)

Frumsýnd: 25. september

Jæja, takið fram vasaklútana, jafnvel nokkur handklæði, því þriðja sería af þættinum sem spilar á allan tilfinningaskalann snýr aftur. Við fáum meira að vita um uppvöxt Jack og hvernig hann varð að þeim manni sem hann var þegar hann fullorðnaðist, skyggnumst betur inn í samband hans og Rebeccu, fáum svör við ýmsum spurningum um fjölskyldu Toby og hágrenjum yfir einni harmsögu eða tveimur. Svo margar spurningar brenna á vörum okkar eftir lokaþáttinn í seríu tvö að við getum bara ekki beðið.

House of Cards (Netflix)

Frumsýnd: 2. nóvember

Jæja, þá er komið að því. Síðasta serían af House of Cards. Og enginn Kevin Spacey þar sem hann var rekinn með skottið á milli lappanna eftir að fjölmargir menn sökuðu hann um kynferðislega áreitni. Nú er það leikkonan Robin Wright, sem leikið hefur eiginkonu Kevins í þáttunum, hana Claire, sem sest í forsetastólinn og hafa framleiðendur þáttanna notað kassamerkið #myturn, eða #komiðaðmér, til að kynna seríuna. En það er margt fleira sem gæti líka komið á óvart í þáttunum. Verður Doug Stamper loksins hent í steininn og nær Tom Hammerschmidt á endanum að komast að sannleikanum um morðið á Zoe Barnes?

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -