Laugardagur 25. maí, 2024
11.8 C
Reykjavik

Að passa í kassann

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari

Þegar sonur minn, sem í gær útskrifaðist úr grunnskóla, byrjaði í sex ára bekk og við hlýddum á ræðu skólastýrunnar við setningu skólans sagði hún orð sem höfðu mikil áhrif á sýn mína á skólakerfið í heild sinni: „Hér leggjum við fyrst og fremst áherslu á að nemendum líði vel en það er forsenda þess að þeim gangi vel í námi.“ Hún hvatti foreldra að láta vita ef eitthvað angraði barnið svo hægt væri að vinna úr málunum strax enda áhersla lögð á vináttu, samstöðu og kærleika. Auðvitað. Upp í huga mér skutust sögur ættingja og vina sem áttu ekki sjö dagana sæla í grunnskóla. Krakkar sem ekki pössuðu inn í kassann og svo lítið hefði í raun þurft til að þau hefðu getað átt betri tíma.

Skólinn var stofnun þar sem krakkar áttu að sitja kyrr og læra á bókina. Ef börn áttu erfitt með þetta voru þau lúserar og óþekk. Voru skömmuð með hvassri röddu. Þegar virðing er ekki borin fyrir barninu hvernig á það þá að bera virðingu fyrir skólastarfinu – vanvirðingu er að sjálfsögðu svarað með vanvirðingu. Við getum sem fullorðnir einstaklingar prófað að setja okkur í spor barns sem verið er að lesa yfir, myndum við vilja láta tala svona við okkur? Svarið er líkalega nei hjá flestum. Börn eru ekkert öðruvísi, þau vilja gjarnan fá leiðbeiningar en ekki með hvassri ógnandi röddu.

Þegar Þorsteinn Einarsson sem nú er í forsíðuviðtali Mannlífs var átján ára þá flutti hann til Svíþjóðar til að fara í tónlistarmenntaskóla sem var ólíkur framhaldsskólum sem þá voru í boði á Íslandi. „Eitthvað sem var hugsað fyrir krakka sem passa ekki endilega í kassana sem kerfið hefur að bjóða,“ segir Þorsteinn í viðtalinu.

Það veit ég að frændi minn hefði notið sín í grunnskóla ef hann hefði fengið að dunda sér meira í smíðastofunni eða við að taka í sundur tæki og setja þau aftur saman í stað þess að vera stöðugt skammaður fyrir að sitja ekki kyrr, reikna ákveðið margar blaðsíður í stærðfræðibókum og lesa alls konar bókmenntir. Alltaf stríð og niðurstaðan sú að hann lærði nánast ekkert og leið ömurlega alla grunnskólagönguna.

Sem betur fer hafa margir skólar tekið upp nýja stefnu í þessum málum og nú er í æ ríkari mæli komið á móts við mismunandi þarfir barna og það skilar okkur sjálfstæðari einstaklingum sem þora að fylgja draumum sínum. Virðing, fjölbreytt námsefni á öllum skólastigum og viðurkenning ólíkra þarfa eru ekki bara mikilvæg fyrir líðan barna heldur hagkvæm fyrir samfélagið allt.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -